Sigríður Ingibjörg Aradóttir fæddist í Stóra-Langadal á Skógarströnd 16. október 1917. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 4. apríl síðastliðinn og var jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju 17. apríl.

Nú hefur mín elskulega tengdamóðir, Sigríður Ingibjörg Aradóttir, fengið hvíldina eftir langa ævi en hún varð níræð 16. október síðastliðinn.

Fyrstu minningar mínar af Sigríði tengdamóður minni eða Sillu, eins og hún var alltaf kölluð, tengjast óneitanlega Öldugötu 33 í Hafnarfirði. Þar bjó hún lengstum, í vinalega húsinu sem þau Jón Árni eiginmaður hennar byggðu. Ég minnist ákaflega hlýlegs og elskulegs viðmóts og mikillar gestrisni á heimili þeirra. Átti ég margar notalegar stundir í eldhúsinu hjá Sillu við uppdekkað borð og skemmtilegar samræður.

Heimili hennar einkenndist af snyrtimennsku, hlýju og alúð. Hún var mjög félagslynd og sýndi fóki áhuga og vinsemd. Alltaf gaf hún sér tíma til að spjalla og sinna gestum sínum af heilum hug. Silla var ákaflega jafnlynd, alltaf létt í lund og hress og ávallt til í að slá á létta strengi. Man ég ekki eftir að hafa heyrt hana halla orði til nokkurs manns.

Þegar við Lilja Björk bjuggum með börnin okkar þrjú úti á landi, áttum við alltaf athvarf hjá Sillu hér fyrir sunnan. Minnist ég hversu notalegt var að mæta glöðu viðmóti hennar og njóta frábærrar gestrisni hennar þegar við komum í bæinn ferðalúin með börnin eftir langa ferð, oft að kvöldlagi. Alltaf spurði Silla frétta og var áhugasöm að heyra hvað á daga okkar hafði drifið og bar umhyggju fyrir velferð okkar.

Silla hafði ákaflega gaman af því að ferðast og var mjög skemmtilegur ferðafélagi. Hafnaði hún aldrei boði um bíltúr og þáði gjarnan að sitja í framsætinu svo hún gæti notið umhverfisins betur. Hún var ákaflega minnug sem sýndi sig vel þegar við ferðuðumst saman um æskuslóðir hennar á Skógarströnd, við Þorskafjörð og Reykhólasveit og um Strandir þar sem fjölskyldumeðlimir hennar höfðu dvalist. Þar gat hún rakið bæjarnöfnin í heilu sveitunum, án þess að reka í vörðurnar, og gat rifjað upp nöfn ábúenda, þótt hún hefði ekki komið á þessar slóðir áratugum saman. Í mínum huga er Silla ein af þessum íslensku alþýðuhetjum. Hún vann verk sín í hljóði án þess að sækjast eftir lofi eða þakklæti og var alltaf tilbúin að fórna tíma sínum fyrir þá sem þurftu á hjálp hennar að halda. Hún hélt ótrauð áfram lífsbaráttunni þegar áföll dundu yfir, án þess að gefast upp fyrir sjálfsvorkunn. Aldrei heyrði ég Sillu kvarta þótt ég vissi að hún ætti m.a. við langvinna bakverki að stríða. Hún einhvern veginn seiglaðist áfram og vann verk sín í hljóði næstum án þess að maður yrði þess var.

Þótt kraftar dvínuðu og heilsu hrakaði hélt Silla ávallt sínu æðruleysi og var alltaf glöð þegar við hjónin og börnin okkar komum í heimsókn til hennar. Var hún ævinlega þakklát fyrir þá umönnun sem hún fékk, bæði á Sólvangi og Hrafnistu. Kunnum við aðstandendur Sillu starfsfólki þessara stofnana bestu þakkir fyrir þeirra alúð og umhyggju við umönnun horfins ástvinar okkar.

Ég þakka Guði fyrir að hafa gefið mér Sillu sem tengdamóður og fyrir allar samverustundirnar með henni.

Minningin um Sillu verður ætíð hjúpuð heiðri og þökk í mínum huga.

Lárus Þór Jónsson.

Við systkinin erum ákaflega þakklát fyrir að hafa kynnst ömmu Sillu og áttum við margar góðar samverustundir með henni. Hún kom ávallt fram við okkur sem jafningja og gaf sér tíma til þess að ræða við okkur, m.a. um gömlu tímana í sveitinni sem voru henni kærir. Hún kenndi okkur mannganginn í skák og fannst gaman að tefla við okkur. Amma lagði sig alla fram í skákinni og heyrðist jafnan innilegt „æi“ frá henni þegar okkur tókst að máta hana.

Dýrindis pönnukökur og kótelettur voru gjarnan á boðstólum hjá henni og var amma höfðingi heim að sækja. Þegar við heimsóttum hana á Hrafnistu varð hún alltaf jafn ánægð að fá okkur í heimsókn. Henni leið afskaplega vel með fólki og hafði góða nærveru. Þegar við vorum með ömmu Sillu horfði hún oft til okkar brosandi og blikkaði öðru auganu. Með þessu tjáði hún okkur væntumþykju sína án þess að fara um það mörgum orðum.

Amma Silla er okkur mikil fyrirmynd. Hún var gædd mannkostum sem allir ættu að tileinka sér. Einkum var hennar jákvæða hugarfar, góðmennska, léttlyndi, hógværð, kímni og jafnaðargeð eftirtektarvert. Okkar ástkæra amma Silla mun eiga stað í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Jón Kristinn Lárusson, Ólafur Már Lárusson og Sigríður María Lárusdóttir.