Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is ÁRNI Þór Sigtryggsson handknattleiksmaður, sem leikur með spænska liðinu Granollers, segir óvíst hvað taki við hjá sér eftir tímabilið.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

ÁRNI Þór Sigtryggsson handknattleiksmaður, sem leikur með spænska liðinu Granollers, segir óvíst hvað taki við hjá sér eftir tímabilið. Hann gekk í raðir Granollers síðastliðið sumar og gerði tveggja ára samning við félagið en hefur lítið fengið að spreyta sig eftir þjálfaraskiptin sem urðu hjá liðinu í desember.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að HK hefði sett sig í samband við Árna en fleiri félög hér heima og erlend hafa rætt við hann og spurst fyrir hvort hann sé á förum

,,HK hafði samband en ég er ekki neinum viðræðum við HK né önnur lið heima eða erlent sem hafa talað við mig. Það er ekki orðið ljóst hvort ég verði áfram hjá Granollers eða ekki. Ef niðurstaðan verður sú að ég komi heim þá er HK ekkert líklegri kostur en önnur lið sem hafa rætt við mig,“ sagði Árni Þór við Morgunblaðið í gær.

,,Ég veit ekki alveg hvað forráðamenn Granollers ætla sér með næsta tímabil. Það hafa verið sögusagnir um að það ætli að kaupa annan örvhentan leikmann en örventan skyttan sem er á undan mér hérna hefur átt mjög gott tímabil og hefur fengið tilboð frá stærri liðum.

Hann gæti því farið svo þess vegna eru hlutirnir ekki komnir á hreint varðandi mig. Komi ný skytta hlýt ég að þurfa að hugsa mér til hreyfings,“ sagði Árni Þór Sigtryggsson en þjálfarinn sem stóð fyrir kaupunum á honum var látinn taka pokann sinn fyrir jólin og eftirmaður hans er samningsbundinn út leiktíðina.