Stefán Baldur Kristmundsson fæddist á Kolbeinsá í Hrútafirði 25. maí 1920. Hann lést á heimili sínu hinn 21. mars síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fossvogskapellu 2. apríl.

Greinin birtist áður sunnudaginn 20. apríl. Vegna mistaka féll niðurlag greinarinnar niður.

Það er skrýtið að skrifa minningargrein um afa, ég átti von á því að hann yrði á Tunguveginum lengur, að við hefðum meiri tíma saman. Síðustu vikur hafa verið erfiðar, það skjótast upp minningar um elskulegan mann sem ég sakna meira en orð fá lýst. Söknuður vegna þess að afi er farinn og kemur aldrei aftur en einnig vegna þess að ákveðnu tímabili í mínu lífi er lokið. Nú eru engin afi og amma á Tunguveginum. Engin amma í eldhúsinu og enginn afi að lesa blöðin í stofunni. Fólk sem ég hef þekkt alla mína ævi er ekki lengur til staðar og ég veit ekki alveg hvernig ég á að takast á við það.

Afi minn var fróður maður og fylgdist vel með því sem fram fór bæði hérlendis sem og erlendis. Hann hafði lifað breytta tíma og hafði fylgst með samfélaginu taka miklum breytingum. Afi var alla tíð vinstrimaður og hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og verkalýðsbaráttu. Hann tók þátt í kröfugöngum 1. maí og oft fékk lítil stelpa að fara með. Það var gaman að spjalla við afa um allt milli himins og jarðar og ég man að þegar ég var lítil var ég viss um að afi vissi allt. Það var alveg sama hvað stóð í skólabókunum, hann gat alltaf bætt einhverju við.

Afi hafði mjög gaman af lestri góðra bóka og þar fór smekkur okkar ekki alltaf saman. Hann lánaði mér gjarnan bækur og spurði síðan hvernig lesturinn gengi, þá þýddi ekkert að þykjast hafa lesið bækurnar, afi spurði út úr og þekkti bækurnar út í gegn. Í seinni tíð var ég farin að koma með bækur til hans og við skiptumst á skoðunum um nýrri höfundana. Afi hafði gaman af mörgu sem hann las en Laxness var alltaf hans uppáhaldsskáld og bækurnar hans voru lesnar aftur og aftur.

Ef ég ætti að telja upp allt það sem afi hefur gert fyrir mig myndi sú upptalning verða löng. Afi kenndi mér að lesa og alla mína skólagöngu hafði hann mikinn áhuga á því sem ég var að læra. Afi bjó til íbúð fyrir mig í kjallaranum hjá sér og ömmu og þar bjó ég, fyrst með kærastanum og síðan vorum við fjögur í kjallaranum eftir að tvíburarnir mínir fæddust. Afi hafði gaman af litlu börnunum mínum og oft ræddi hann um hversu merkilegt það væri að ég skyldi eignast tvíbura, 80 árum eftir að hann og tvíburasystir hans fæddust. Afi var barngóður og voða fannst mér vænt um að sjá hann í sófanum með litlu krílin mín að lesa sögu. Það minnti mig á þegar afi las fyrir mig þegar ég var lítil. Uppáhaldssagan mín var Stúlkan í turninum og hún var oft lesin. Síðan lásum við Þórberg saman og afi las fyrir mig ljóðin hans Steins.

Það er misjafnt hvernig samband fólk á og hvernig fólk nær saman. Við afi náðum vel saman. Fyrir afa mínum bar ég mikla virðingu og einkenndust samskipti okkar af mikilli væntumþykju. Hrósið þitt og stoltið þegar verk voru vel gerð eru dýrmætustu minningarnar, þú varst duglegur að hrósa fyrir það sem vel var gert. Þegar eitthvað fór miður heyrðist lítið frá þér, þá varstu vanur að segja bara, Unna mín, og síðan var það ekki meira rætt. Það þurfti heldur ekki alltaf mörg orð, við skildum hvort annað.

Elsku afi minn, ég sakna þín og ég held fast í allar minningarnar um þig. Þín

Unnur.