SKIPTAFUNDUR þrotabús Jarðvéla ehf. fór fram í gær, en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar sl.

SKIPTAFUNDUR þrotabús Jarðvéla ehf. fór fram í gær, en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar sl. Heildarfjárhæð lýstra krafna í þrotabúið nemur rúmum 1,9 milljörðum króna, en þar af eru forgangskröfur, þ.e. aðallega launakröfur og kröfur lífeyrissjóða, rúmar 280 milljónir króna. Vinnu við þær kröfur er þó ekki að fullu lokið.

Lárentsínus Kristjánsson hrl. er skiptastjóri og segir hann fundinn hafa gengið vel, þrátt fyrir að tekist hafi verið á um ýmis mál. Spurður um eignir félagsins segir hann óveðsettar eignir litlar sem engar en hugsanlegt sé að eitthvað fáist fyrir aðgerðir undir skiptum upp í forgangskröfur. „Fasteign félagsins við Bakkabraut 14 í Kópavogi var yfirveðsett og flestar aðrar eignir höfðu verið seldar frjálsri sölu eða á nauðungarsölu fyrir gjaldþrotaúrskurð. Hins vegar er verið að skoða möguleika á kröfugerð búsins vegna ákveðinna atvika fyrir gjaldþrot og á grundvelli riftanlegra ráðstafana,“ segir Lárentsínus.

Jarðvélar sáu eins og kunnugt er um framkvæmdir við tvöföldum Reykjanesbrautar en þurftu að segja sig frá verkinu vegna rekstrarerfiðleikanna.