KARL G. Benediktsson var einn af lykilmönnum Framliðsins í handknattleik karla á „Gullárunum“ 1962 til 1972 sem leikmaður og þjálfari. Karl kom með nýjar hugmyndir og leikskipulag.

KARL G. Benediktsson var einn af lykilmönnum Framliðsins í handknattleik karla á „Gullárunum“ 1962 til 1972 sem leikmaður og þjálfari. Karl kom með nýjar hugmyndir og leikskipulag. „Karl er besti þjálfari sem ég hef haft,“ sagði Sigurður Einarsson, einn leikreyndasti leikmaður Fram frá upphafi – lék 313 leiki og varð sjö sinnum Íslandsmeistari. „Karl staðnaði aldrei – kom alltaf með nýjar og nýjar hugmyndir,“ sagði Sigurður.

Eftir að Karl G. kom frá Bandaríkjunum 1960, þar sem hann var í nokkra mánuði að kynna sér ýmisleg störf á vegum Íslenskra aðalverktaka, tók hann að sér þjálfun Framliðsins á ný og hefst þá „Gulltímabilið.“ Karl B. sagði að hann hafi oft verið að deila við FH-inga og þá sérstaklega Birgi Björnsson, vin sinn, um handknattleikinn. „Ég sagði við þá að það væri ekki rétt sem þeir væru að gera. Ég hélt því fram að öll lið yrðu að byggja upp leik sinn með ákveðin markmið – leika skipulagðan handknattleik, þar sem menn vinni saman, þannig að þeir myndu skapa tækifæri fyrir hvern annan. Það gengi ekki upp að einstaklingsframtakið réði algjörlega ríkjum – boðið væri upp á eintóm hlaup og svo skot.

Þar með var boltanum kastað og ég varð að sýna fram á að það væri rétt sem ég var að segja. Ég hóf mína vinnu og hún tókst vel – við náðum að skapa sterka heild hjá Fram, þar sem leikin varð sterk vörn og skipulagður sóknarleikur, þar sem allir leikmenn höfðu hlutverk í framsókninni.“

Þegar Karl G. var spurður hvort það hafi ekki verið hans heppni að hann var með afburða leikmenn í herbúðum sínum er hann hóf Fram-sóknina, sagði hann og vitnaði í orð Gylfa Þ. Gíslasonar, fyrrverandi menntamálaráðherra, er hann sagði þegar hann horfði á landsliðið leika í Laugardalshöllinni: „Þennan leik geta ekki leikið nema bráðgreindir menn – sem eru fljótir að hugsa.“ Þannig voru mínir menn – fljótir að sjá út veikleika mótherjans og leika á þann veikleika eins og þeir gátu. Strákarnir voru afburða handknattleiksmenn, eins og Ingólfur Óskarsson, Guðjón Jónsson. Já, og línustrákarnir ungu Sigurður Einarsson, Tómas Tómasson og Erlingur Kristjánsson, sem voru svo kvikir. Jón Friðsteinsson gaf þeim ekkert eftir á línunni og þá voru þeir Hilmar Ólafsson og Ágúst Þór alltaf traustir.“

Karl sagði að hann hafi alltaf lagt áherslu á ýmislegar séræfingar. „Það er ekki nóg að senda menn inn á völlinn og segja við þá: Nú spilið þið! Leikmenn verða aldrei góðir nema þeir spili þann handknattleik, sem þeir hafa verið að æfa. Allar grunnæfingar skipta því miklu í uppbyggingu á liðsheild.

Það var okkar styrkur á þessum árum að lið okkar var meira og minna byggt upp á sama mannskapnum.“

Karl sagði að oft væri sagt að maður komi í manns stað, þegar góðir leikmenn fara. „Margir skilja eftir sig það stór skörð, að þau verða aldrei fyllt. Það var geysilegur missir fyrir okkur þegar Ingólfur fór til Svíþjóðar 1964. Hann var búinn að leika mjög stórt hlutverk hjá okkur sem félagi og í allri uppbyggingu á leikkerfum. Eftir að hann fór voru menn lengi að átta sig á hlutunum – söknuðu hans. Það kom enginn í stað Ingólfs – maður með sama styrkleika. Því miður, þá tók enginn við hlutverki Ingólfs.“

Karl sagði að í hópinn sem varð fyrst Íslandsmeistari hafi síðan bæst afburðarleikmenn eins og Gunnlaugur Hjálmarsson, Sigurbergur Sigsteinsson, Björgvin Björgvinsson, Þorsteinn Björnsson og Axel Axelsson, svo einhverjir séu nefndir.