— Morgunblaðið/Þorkell
Eru það ekki einmitt bankar og lífeyrissjóðir sem hafa alla möguleika á að meta verðbólguhættu? Hefur almenningur slíkar forsendur?

Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref,“ orti Nóbelsskáldið og víst er að langt er síðan þessi orð áttu jafnvel við 1. maí og einmitt nú. Sífellt fleiri fréttir berast af uppsögnum og erfiðleikum í rekstri fyrirtækja og ekki má gleyma því að verðbólga hefur ekki verið meiri síðan fyrir tíma þjóðarsáttar. Vissulega hafa ráðamenn og álitsgjafar sagt líklegt að verðbólgan muni hjaðna ört á næstu mánuðum en hafa ber í huga að einmitt það höfum við fengið að heyra margoft á undanförnum árum. Því má ætla að almenningur muni ekki taka þessi orð trúanleg fyrr en raunveruleg merki þess að verðbólgan sé farin að hjaðna sjást.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum koma áhrif verðbólgunnar á efnahag heimilanna meðal annars skýrt fram í áhrifum hennar á verðtryggð lán þeirra. Verðbótaþátturinn eykst og höfuðstóll lánanna hækkar á meðan verðgildi eigna lækkar. Í þessu samhengi er ef til vill við hæfi að rifja upp frétt Morgunblaðsins frá 28. júlí 2006 þar sem fram kom að Landsbankinn hefði hagnast um nærri 3 milljarða króna á öðrum fjórðungi þess árs nær eingöngu vegna verðbóta.

Margoft hefur komið fram á undanförnum mánuðum í Viðskiptablaði Morgunblaðsins að verðtryggingin sé Þrándur í Götu stýrivaxta og verður það ekki tíundað frekar hér. Þess í stað er ástæða til þess að spyrja hvernig hægt sé að réttlæta það að almenningur taki á sig alla áhættu af verðbólgunni en lánveitendur enga áhættu. Eru það ekki einmitt bankar og lífeyrissjóðir sem hafa alla möguleika á að meta verðbólguhættu? Hefur almenningur slíkar forsendur? Alls ekki. Hvers vegna eiga lánardrottnarnir þá að hagnast á verðbólgunni á meðan almenningur tapar?

innherji@mbl.is

Höf.: innherji@mbl.is