Höfuðstöðvar Tölvuteikning af nýjum höfuðstöðvum Héðins í Kapelluhrauni í Hafnarfirði, sem til stendur að taka í notkun í lok þessa árs. Verksmiðjan er 6.000 fermetrar að stærð.
Höfuðstöðvar Tölvuteikning af nýjum höfuðstöðvum Héðins í Kapelluhrauni í Hafnarfirði, sem til stendur að taka í notkun í lok þessa árs. Verksmiðjan er 6.000 fermetrar að stærð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir nærri 20 ára dvöl í Garðabæ standa flutningar fyrir dyrum hjá Vélsmiðjunni Héðni. Nýjar höfuðstöðvar rísa nú í Hafnarfirði sem taka á í notkun í lok ársins. Björn Jóhann Björnsson ræddi við Guðmund S.

Eftir nærri 20 ára dvöl í Garðabæ standa flutningar fyrir dyrum hjá Vélsmiðjunni Héðni. Nýjar höfuðstöðvar rísa nú í Hafnarfirði sem taka á í notkun í lok ársins. Björn Jóhann Björnsson ræddi við Guðmund S. Sveinsson, framkvæmdastjóra Héðins, á þessum tímamótum og komst m.a. að því að þrátt fyrir krepputal í þjóðfélaginu hefur verkefnastaða Héðins sjaldan verið betri og fyrirtækið skuldlaust. Geri aðrir betur.

Guðmundur segir í upphafi samtals okkar að núverandi húsnæði í Garðabæ sé orðið of lítið, en í nýju byggingunni í Kapelluhrauni í Hafnarfirði bætast einir þúsund fermetrar við þá fimm þúsund sem gólfflöturinn þekur í Garðabæ. Flutningurinn hefur verið í undirbúningi í góðan tíma, þó að aðeins sé um ár liðið frá því að ákveðið var að hefja framkvæmdir í Hafnarfirði.

ASK arkitektar hanna nýju bygginguna í samráði við Héðinsmenn, sem að sjálfsögðu smíða stálgrindarhúsið sjálfir en um aðrar framkvæmdir sjá Alefli, Heimir & Þorgeir og fleiri verktakar. Aðspurður segir Guðmundur að fjárfestingin í nýju höfuðstöðvunum sé upp á um 800 milljónir króna. Lítur allt út fyrir að áætlanir standist um að flytja þangað í desember á þessu ári.

Núverandi húsnæði hefur þegar verið selt fasteignafélagi, sem ráðgerir að rífa bygginguna og reisa þar íbúðir, líkt og gert hefur verið víða á þessu svæði, sem í skipulagi Garðabæjar telst enn vera blönduð byggð. Guðmundur segir það ljóst að atvinnustarfsemi sé að hverfa úr þessum hluta bæjarins, enda í sjálfu sér ekki heppilegt að hafa svona starfsemi í mikilli nálægð við íbúðabyggð.

Skuldaálagið 0 punktar

Héðinn hefur sem fyrr segir lifað gegnum miklar breytingar í þjóðfélaginu, fjárhagsstaðan hefur jafnan verið sterk og í dag er fyrirtækið skuldlaust, sem verður að teljast harla óvenjulegt þegar Ísland er annars vegar, einhver skuldugasta þjóð heims. Skuldaálag Héðins er því 0 punktar!

„Við höfum aldrei orðið gjaldþrota og haldið stöðu okkar. Á sama tíma höfum við þróast áfram með breytingunum en þó verið trúir okkar uppruna. Innan fyrirtækisins hafa orðið til sprotar, sem hafa flestir dafnað vel og slitnað frá okkur, en við höfum haldið okkur við kjarnastarfsemina sem tengist málmiðnaði,“ segir Guðmundur en sprotarnir sem hann nefnir eru Danfoss-verslunin, Garðastál, er BM-Vallá tók síðar yfir, og Héðinn-Schindler, sem selur samnefndar lyftur og lyftubúnað en komið í eigu annarra.

Þegar talið berst að verkefnastöðunni kallar Guðmundur til liðs við sig Gunnar Pálsson, verkefnisstjóra á þróunar- og nýsköpunarsviði.

Eitt stærsta verkefni Héðins í dag er smíði fiskimjölsverksmiðju um borð í færeyska skipið Norborg, sem verið er að smíða í Chile. Að sögn Gunnars var samið um þetta verkefni fyrir um tveimur árum og verður skipið sjósett á þessu ári. Verksmiðjan er hönnuð frá grunni af starfsmönnum Héðins og teiknuð inn í skipið. Smíðin á verksmiðjuhlutunum er að mestu í höndum Héðinsmanna og þeir hafa svo yfirumsjón með uppsetningunni í skipasmíðastöðinni í Chile.

Framarlega á heimsvísu

Héðinn hefur einnig verið í stórum verkefnum fyrir Norðmenn, Skota og Íra að undanförnu. Má þar nefna smíði mjöltanka, löndunarkrana og annars löndunarbúnaðar m.a. fyrir norsku fyrirtækin Skretting í Kristjánssundi og Ewos í Borö og United Fish í Aberdeen.

„Þó að möguleikar okkar á erlendum markaði séu góðir þá eru þetta fá fyrirtæki við Norður-Atlantshaf sem starfrækja fiskimjölsverksmiðjur. Helstu tækifæri okkar á næstu árum eru í verksmiðjum um borð í skipum, sem mörg hver eru komin vel á aldur. Þetta eru tímafrek verkefni og krefjast mikillar þolinmæði. Staðan í þessari útgerð er víðast hvar okkur hagstæð um þessar mundir þar sem verð á mjöli hefur hækkað verulega. Ég held því fram fullum fetum að við stöndum mjög framarlega fyrir fiskimjölsiðnaðinn á heimsvísu og höfum náð að byggja þar upp mjög víðtæka þekkingu,“ segir Gunnar og Guðmundur tekur heils hugar undir þetta. Orðspor og ímynd fyrirtækisins sé gott meðal eigenda fiskimjölsverksmiðja og Héðinn eigi að auki gott samstarf við mörg erlend fyrirtæki á öðrum sviðum.

„Svo erum við jafnan með næg verkefni fyrir íslenskar fiskimjölsverksmiðjur og fyrirtæki tengd útgerð og matvælaframleiðslu, jafnt í nýsmíði, viðgerðum og viðhaldi,“ segir Gunnar og nefnir sem dæmi verksmiðju Lýsis, sem verið er að stækka, og Ísfélagið í Vestmannaeyjum, sem er með tvö uppsjávarskip í smíðum í Chile. Í þeim skipum er verksmiðjubúnaður smíðaður af Héðni, auk þess sem notaðar verða skipavélar frá Rolls-Royce Marine, sem Héðinn er með umboð fyrir hér á landi. Sá þáttur er einnig stór liður í starfsemi fyrirtækisins en þess má geta að Rolls-Royce Marine hannar smíði á nýju varðskipi Íslendinga sem fer núna fram í Chile.

Verkefni fyrir virkjanir

Viðskiptavinir Héðins eru ekki eingöngu tengdir sjávarútvegi því á seinni árum hefur bæst við smíði á búnaði fyrir gufuaflsvirkjanir í Svartsengi og á Hellisheiði fyrir Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur, s.s. gufuskiljur, rakaskiljur, undirstöður og leiðslur. „Þetta hafa verið feiknastór og vandasöm verk og gengið mjög vel,“ segir Guðmundur en Héðinn gerir sér vonir um frekari verk á þessu sviði í ljósi fyrirhugaðra framkvæmda við jarðvarmavirkjanir hér á landi.

Héðinsmenn hafa einnig verið í viðhaldsverkefnum fyrir álverin á suðurvesturhorninu; hjá Alcan í Straumsvík og Norðuráli á Grundartanga. Þá nefna þeir samstarf við ýmis fyrirtæki, eins og Silfurtún og Samey í Garðabæ og Varmaverk í Hafnarfirði, sem hefur m.a. lagt fráveitukerfi fyrir sveitarfélögin sem liggja að sunnanverðum Faxaflóa.

Spurðir út í horfurnar framundan, segjast þeir vera mjög bjartsýnir. Í pípunum séu mörg stór verkefni, bæði hér á landi og erlendis. Héðinn standi traustum fótum og velta fyrirtækisins verið að aukast jafnt og þétt. Guðmundur bendir á að verkefnin séu orðin mjög fjölbreytt og hin seinni ár hafi verkfræði og hönnun komið æ meira inn í sjálfa vélsmíðina, í samráði við verkkaupa. Það sé að verða einn helsti styrkleiki Héðins í dag.

Þeir verða sposkir á svip þegar spurt er út í teikningar á borðinu af stórri fiskimjölsverksmiðju sem verið er að hanna fyrir íslenskt fyrirtæki. Að svo stöddu er verkkaupinn trúnaðarmál en þó má segja að verksmiðjan verður á þurru landi. „Þetta á eftir að koma betur í ljós í næstunni,“ segir Guðmundur og kímir.

Endurnýjunin erfið

Hjá Héðni starfa í dag um 100 manns, og til viðbótar nefnir Guðmundur undirverktaka sem eru að jafnaði um 30 talsins, allt eftir verkefnastöðu hverju sinni. Þegar mest lét voru starfsmenn Héðins hátt í 500 talsins, upp úr seinnistríðsárunum þegar fiskimjöls- og síldarverkmiðjur voru í smíðum á nokkrum stöðum samtímis. Í dag eiga margir Héðinsmenn langan starfsaldur að baki en eitt af því sem veldur Guðmundi og öðrum eigendum Héðins áhyggjum er hve erfitt er að fá unga menntaða málmsmiði eða iðnaðarmenn til starfa. Hefur fyrirtækið af þeim sökum þurft að leita út fyrir landsteinana með mannskap, en af föstum starfsmönnum og undirverktökum er um þriðjungur erlendis frá.

„Við þurfum að bæta við okkur faglærðum mannskap, en það er sama hvað við auglýsum, við fáum bara ekki Íslendinga til starfa nema í undantekningartilfellum. Þegar til lengri tíma er litið er þetta mikið áhyggjuefni fyrir íslensk fyrirtæki, og þetta er sérstaklega erfitt fyrir okkur þar sem samskipti við okkar viðskiptavini eru mikil og tungumálaerfiðleikar geta komið upp,“ segir Guðmundur og Gunnar bendir jafnframt á að miklar kröfur séu gerðar til verkstjóranna, sem þurfi m.a. að vera í samskiptum við erlenda viðskiptavini. Hægt sé að ráða erlenda fagmenn, en geti tekið tíma að þjálfa þá upp.

Skilningsleysi stjórnvalda

Spurðir að endingu út í rekstrarumhverfi iðnfyrirtækja á borð við Héðin segjast þeir ekki geta kvartað sáran. Fyrir utan fyrrnefndan skort á faglærðum iðnaðarmönnum nefna þeir þó skort á skilningi stjórnvalda þegar kemur að styrkbeiðnum vegna þróunar- og rannsóknarstarfs. Þar segja þeir Héðin hafa komið að lokuðum dyrum, þegar fyrirtækið hafi á annað borð lagt í að sækja um styrk.

„Það er eins og við þykjum ekki nógu sexí, eða hvað það nú er. Ekki getum við flíkað því að vera sprotafyrirtæki, með þetta langa sögu að baki,“ segir Gunnar en Guðmundur viðurkennir að kannski eigi þeir sjálfir einhverja sök á þessu. „Kannski þurfum við að gera okkur meira aðlaðandi, sækja um fleiri styrki og gera fínar og fallegar umsóknir. Hið sama má segja um verkmenntunina, við ættum kannski að fara meira í skólana og kynna okkur betur. Þetta munum við skoða gaumgæfilega,“ segir Guðmundur.

Með þjóðinni í meira en 100 ár

HÉÐINN er eitt rótgrónasta fyrirtæki landsins, stofnað árið 1922 en upprunann má rekja allt aftur til 1892. Það hefur því lifað með þjóðinni í gegnum margháttaðar breytingar í meira en 100 ár, ekki síst á sviði skipasmíði og fiskiðnaðar en sem kunnugt er sérhæfir Héðinn sig í málmsmíði fyrir sjávarútveg og mannvirkjagerð hvers konar. Eru verkefnin stór og smá, allt frá litlum járnplötum upp í stærðarinnar fiskimjölsmiðjur.

Fyrstu áratugina var fyrirtækið til húsa í Reykjavík, til að byrja með við Aðalstræti 6, þar sem gamla Morgunblaðshúsið var síðar reist, en árið 1943 fluttist starfsemin að Seljavegi 2, í Héðinshúsið sem svo nefnist enn. Í núverandi höfuðstöðvar að Stórási 6 í Garðabæ flutti fyrirtækið árið 1989 en útibú hafði þá verið starfrækt í bænum frá 1966.

Lengi vel var Héðinn fjölskyldufyrirtæki, stýrt um árabil af Sveini Guðmundssyni, forstjóra og alþingismanni, föður Guðmundar, núverandi framkvæmdastjóra, eða frá árinu 1941 til 1982. Í kringum 1990 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag og var um tíma skráð á Verðbréfaþingi Íslands, forvera kauphallarinnar, en í dag eru helstu lykilstjórnendur aðaleigendurnir og helmingur hlutafjár í eigu starfsmanna.

Í hnotskurn
» Hjá Vélsmiðjunni Héðni í Garðabæ starfa um 100 manns og undirverktakar eru um 30 að jafnaði.
» Þegar mest lét um miðja síðustu öld störfuðu á fimmta hundrað manns hjá Héðni.
» Skortur er á menntuðum vélsmiðum hér á landi og hefur Héðinn því þurft að leita út fyrir landsteinana.
» Af föstum starfsmönnum og undirverktökum í dag kemur um þriðjungur erlendis frá.
» Fjárfesting í nýjum höfuðstöðvum í Hafnarfirði er um 800 milljónir króna en fyrirtækið getur státað af því að vera skuldlaust.
» Fyrirtækið bætir við sig þúsund fermetum en nýja byggingin verður 6.000 fermetrar að flatarmáli.

bjb@mbl.is

Höf.: bjb@mbl.is