Eftir Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, flutti erindi við athöfnina í Þjóðmenningarhúsinu í gær og sagði að kalla mætti það „Hernámsandstæðingurinn og þjóðvarnarmaðurinn Bjarni Benediktsson“.
Í erindi sínu greindi Þór frá stirðri sambúð breska setuliðsins við Bjarna Benediktsson borgarstjóra á fyrsta hernámsárinu og sagði að á fyrstu árum síðari heimsstyrjaldarinnar hefði Bjarni verið einn helsti talsmaður hlutleysis og þjóðernissjónarmiða.
Í máli Þórs kom fram að samskipti Bjarna við Breta hefðu verið öllu erfiðari en samskipti hersins við þjóðstjórnina. Bretar hefðu byggt þúsundir herskála í Reykjavík án leyfis, sótt inn á veitukerfi bæjarins og valdið þannig vatnsskorti og auk þess hefði verið deilt um rafmagnsverð til herbúðanna. Húsnæðisskortur var í bænum, ekki síst vegna leigu Breta á húsnæði, og vildi borgarstjóri að þeir rýmdu íbúðirnar sem fyrst en fannst það ganga hægt. Ennfremur hefði herinn reist vígi víða um bæinn og hefðu bæjarbúar óttast loftárásir Þjóðverja.
Deilt um flugvöllinn
Þór benti á að þegar Bjarni hefði verið kosinn borgarstjóri haustið 1940 hefðu Bretar óvænt byrjað að leggja flugvöll í Vatnsmýrinni. Bjarni hefði brugðist hart við og beðið Ólaf Thors atvinnumálaráðherra að gera allt sem hann gæti til þess að fá Breta til að hætta við flugvallargerðina. Flugvöllur myndi auka hættu af loftárásum Þjóðverja og uggur væri í bæjarbúum vegna þessarar miklu hernaðarframkvæmdar í næsta nágrenni við byggðina. „Sömu dagana og Bjarni varaði við hættunni af flugvellinum, voru Þjóðverjar reyndar að undirbúa útrás herskips frá Noregi suður í Atlantshaf, en óttuðust að breskar flugvélar mundu ráðast á skipið þegar það færi um Grænlandshaf. Þeir bjuggu sig þess vegna undir að senda stærstu sprengjuflugvélar sínar til árásar á flugvöll, sem þeir gerðu ráð fyrir að Bretar hefðu þegar lagt í Reykjavík. Stormur á Grænlandshafi forðaði Reykvíkingum frá heimsókn þýsku flugvélanna, en þær hefðu væntanlega reynt að kasta sprengjum sínum á einhver sýnileg skotmörk í bænum, þegar í ljós hefði komið að þar var enn enginn flugvöllur.“Ólafi Thors tókst að miðla nokkuð málum um flugvallargerðina um veturinn. Þór sagði að sátt bæjarins við Breta hefði m.a. byggst á því að völlurinn næði ekki yfir mikið stærra svæði heldur en bæjarstjórnin hefði ráðgert að taka undir grasvöll við vestanverða Öskjuhlíð fyrir hernámið. En sáttin hefði ekki staðið lengi því 1941, þegar Reykjavíkurflugvöllur hefði verið tekinn í notkun, hefðu Bretar í þrígang knúið fram stækkun á flugvallarstæðinu gegn vilja bæjarins. Bjarni hefði m.a. bent á að flatarmál flugvallarins yrði nær 270 ha. en samfelld byggð í Reykjavík næði aðeins yfir um 250 ha. „Þessi deila á milli Bjarna og hersins snerist ekki aðeins um skipan mála á stríðsárunum heldur um framtíðarhagsmuni bæjarins, eins og við gerum okkur betri grein fyrir nú á dögum heldur en lengst af síðustu öld. Flugvöllurinn var lagður og síðar stækkaður margfalt í andstöðu við bæjaryfirvöld, sem töldu hann standa í vegi fyrir æskilegri þróun byggðarinnar í framtíðinni.“
Á svokölluðum Z-lista
Þór sagði að Bjarni hefði litið svo á að Bretar hefðu beitt Íslendinga ofbeldi og hernámið væri hnekkir fyrir sjálfstæði, hlutleysi og þjóðarstolt Íslendinga. „Svo harðar voru deilur Bjarna hins vegar við herinn, þegar verst lét að öryggislið Breta virðist hafa skráð hann um tíma á svokallaðan Z-lista yfir meinta Þjóðverjavini sem átti að setja í gæslubúðir, ef hætta væri á innrás Þjóðverja.“