KARL G. Benediktsson sagði að það mætti ekki gleyma tveimur mönnum sem unnu frábært starf í kringum Framliðið á „Gullárunum“.
„Sveinn H. Ragnarsson var liðsstjóri Framliðsins og vann hann ómetanlegt starf við að halda allri umgjörð í kringum liðið þannig að öllum liði vel. Sveinn þekkti manna best hvernig átti að taka á öllum málum. Hann þekkti leikmennina afar vel, enda hafði hann þjálfað þá í yngri flokkum. Þegar Sveinn hætti tók Páll Jónsson við hlutverki hans og vann einnig stórkostlegt starf. Þegar við urðum meistarar 1972 kom liðið alltaf saman á heimili Páls og Maríu konu hans fyrir leiki þar sem boðið var upp á veitingar og menn fóru yfir leikinn.“