Nílsína Þórunn Larsen fæddist á Ísafirði 17. janúar 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 22. mars síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju 27. mars.

Nílsína Larsen vinkona mín er dáin. Ég kynntist Nillu þegar hún flutti á Klapparstíginn með sínum fallegu börnum. Við urðum fljótt vinkonur og áttum eftir að eiga margar góðar stundir saman. Við fórum oft saman til útlanda í sumarfrí, líka nokkrar ferðir hér heima.

Ég sakna þess enn að geta ekki skroppið yfir götuna til Nillu á hverju gamlárskvöldi þegar klukkan sló 12, en þá var ég vön að hlaupa yfir til að fagna nýja árinu með henni.

Já, við áttum margar góðar stundir saman.

En nú er hún horfin á braut og ég mun sakna hennar um ókomin ár. Ég veit að Guð hefur tekið vel á móti Nillu, því hún var svo sannarlega barnið hans.

Ég votta fallegu börnunum hennar samúð mína og þrátt fyrir söknuðinn geta þau glaðst yfir því hvað þau voru alltaf góð við mömmu sína.

Nú kveð ég þessa kæru vinkonu og þó að við getum ekki eytt síðustu æviárunum saman á elliheimili eins og við töluðum stundum um í gamni, þá vonast ég til að hitta hana aftur þegar minn tími kemur.

Guð styrki börnin hennar Nillu og fjölskyldur þeirra.

Áslaug Karlsdóttir.

Elsku Nílla amma mín. Nú er komið að kveðjustundinni. Ekki datt mér í hug að ég þyrfti að kveðja þig næstum því strax. En margar fallegar minningar sitja eftir og bý ég að þeim alla ævi. Ég vil þakka þér fyrir allar þær fögru stundir sem við áttum saman bæði hérna heima á Íslandi og eins í þeim utanlandsferðum sem við fórum saman í. Alltaf var hægt að leita til þín eftir ráðleggingum í lífinu. Enda bjóst þú sjálf að þvílíkum fjársjóði af lífsreynslu sem þér fannst auðvelt að leita í og deila með mér. Ég á óteljandi stundir með þér heima á Vallarbrautinni og eins eftir að þú fluttir á Garðvang. Ávallt gafst þú þér tíma til þess að hugga, halda í hönd, hlusta og knúsa. Ömmuknúsin voru einstök og alltaf gott að fá knúsin þín. Þeim gleymi ég ekki.

Mikil lífsgleði og jákvæðni einkenndi þig, elsku amma, og þú varst með svo skemmtilegan og smitandi hlátur. Alveg sama hvað bjátaði á, þá varst þú alltaf tilbúin til þess að gefa af þér. Einna skemmtilegast fannst mér þó að sitja hjá þér og hlusta á allar sögurnar sem þú bjóst yfir. Enda hafðir þú svo mikla frásagnarhæfileika. Ég mun aldrei gleyma sögunum þínum. Takk fyrir þessa fallegu vináttu sem við áttum og fyrir alla ástina sem þú gafst mér og takk fyrir allar þessu ómetanlegu stundir, elsku amma mín.

Þín Nílla litla.

Nú legg ég augun aftur,

Ó, Guð þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Nílsína Larsen Einarsdóttir.

Elsku besta amma okkar.

Nú eigum við mikið eftir að sakna þín elsku amma. Sem alltaf mundi nú eftir okkur á afmælisdaginn og sendi okkur svo falleg og skemmtileg kort. Viljum við þakka þér fyrir allt. Sofðu værum svefni.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson.)

Þín ömmubörn,

Brian Thor, Rebekka,

Amy og Ólöf Rose í Ohio í Bandaríkjunum