NÚ AÐ undanförnu hefur verið í umræðunni að menntamálaráðherra sé að reyna að lauma inn skólagjöldum. 3. apríl sl. var lagt fram frumvarp til laga um opinbera háskóla. Þar var ekki um skólagjöld að ræða en samt sem áður sá Kolbrún Halldórsdóttir ástæðu til að koma upp í pontu á Alþingi og ræða um skólagjöld. Hér ætla ég þó ekki að ræða kvörtunartíðni Vinstri grænna heldur mun ég gagnrýna grein sem birtist síðastliðinn mánudag í Morgunblaðinu, eftir Sigurð Kára Árnason.
Hann ræðir m.a. næstsíðustu mgr. í 24. gr. frumvarps til laga um opinbera háskóla en þar segir: „Háskólaráð geta gert tillögu til ráðherra um breytingar á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda.“
Skrásetningargjöld eru ekkert sem fer beint til ríkisins eins og Sigurður virðist gefa til kynna. Það er skýrt kveðið á um kostnaðarliði skrásetningargjaldsins í reglum Háskóla Íslands. Þar eru 10 töluliðir um hvað skrásetningargjaldið fer í. Það fer meðal annars í stúdentaskírteini, aðgang að bókasafni og tölvum, námsráðgjöf og auðvitað skráningu stúdenta. Sem sagt í þágu stúdenta.
Hér rýnir Sigurður ekki nægilega vel í breytingarnar á Háskólaráðinu. Fyrst eru 5 skipaðir í ráðið. Rektor háskóla, fulltrúi háskólasamfélagsins, fulltrúi nemenda og tveir fulltrúar menntamálaráðherra. Þessir 5 skipa sameiginlega hina tvo í ráðið sem skulu að vísu ekki vera starfsmenn eða nemendur Háskólans. Hér myndi ég seint segja að ráðherra væri tryggð öll tögl og hagldir. Því þegar uppi er staðið þá myndi ég segja að þessir 3 væru í raun í meirihluta enda hafa þeir ansi mikil áhrif þegar kemur að því að velja tvo síðustu fulltrúa ráðsins.
Mér finnst leitt þegar gert er ráð fyrir að hæstvirtur menntamálaráðherra myndi fara á bak við þjóðina og reyna að knýja fram einhver skólagjöld. Ég krefst þess að menntamálaráðherra okkar sé betri persóna en það. Ég er ekki frekar en aðrir hlynntur skólagjöldum en Sigurður er á villigötum í þessum málum. Til að bæta við fyrri orð mín þá getur hæstvirtur menntamálaráðherra heldur aldrei læðst með breytingar á skrásetningargjaldinu bakvið alla. Hann þarf samþykki Alþingis til þess, sama hvaða tillögur Háskólaráðið kemur með.
Að lokum hvet ég fólk til að athuga að þegar talað er um lýðræðislega kjörna fulltrúa stúdenta þá er það ansi langsótt. Núna í síðustu kosningum í Stúdentaráðið var kosningaþátttaka rúmlega 35%. Röskva sem er í meirihluta hefur rúmlega 17% stuðning stúdenta ef við miðum við kjörskrá. Er það lýðræðislegur vilji stúdenta sem kemur fram í ályktunum Röskvu og Vöku? Ég bara spyr.
Höfundur er laganemi.