TYRKNESKA þingið samþykkti í gær lagabreytingu sem talið er að muni stuðla að auknu málfrelsi í landinu. Lagagreinin sem um ræðir bannaði að rætt væri á niðrandi hátt um „hið tyrkneska“ og tyrkneskar stofnanir. Gagnrýnendur segja greinina lengi hafa skert málfrelsi þegna landsins og jafnframt gert umsókn Tyrkja um aðild að ESB torsóttari en ella.
Nýja útgáfan, sem samþykkt var í gær eftir miklar rökræður í þinginu, leggur bann við að rægja „tyrknesku þjóðina“ og þykir sú útfærsla skýrari og ekki eins líkleg til misnotkunar.
Misjöfn viðbrögð
Fyrir breytingu þótti lagaákvæðið gefa færi á víðri túlkun og hafði m.a. verið notað til að ryðja rithöfundum og stjórnmálagagnrýnendum úr vegi. Hún var til dæmis notuð við lögsókn gegn rithöfundinum og nóbelsverðlaunahafanum Orhan Pamuk.Stjórn ESB hefur tekið breytingunni fagnandi að sögn AP -fréttastofunnar, í yfirlýsingu sagði m.a. að þetta væri „mikilvægt skref til málfrelsis og vísbending um að í Tyrklandi sé enn unnið að umbótum“.
Talsmenn mannréttindamála eru ekki jafnhrifnir og þykir ekki nægilega langt gengið. Nauðsynlegt hefði verið að breyta fleiri lögum sem takmarki tjáningarfrelsi. „Breytingin sneiðir algerlega fram hjá því hversu mjög málfrelsi á undir högg að sækja í Tyrklandi,“ sagði talsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch í New York, sem sagði breytinguna jafnframt „mikil vonbrigði“.
Stjórnarflokkurinn AKP var eini flokkurinn sem greiddi lagabreytingunni atkvæði, en hún hefur vakið mikla reiði meðal þjóðernissinna.