Ofurfiskur Vísindamenn þíða fiskinn í Te Papa-safninu í Wellington í gær.
Ofurfiskur Vísindamenn þíða fiskinn í Te Papa-safninu í Wellington í gær. — Reuters
ALÞJÓÐLEGUR hópur sjávarlíffræðinga rannsakar nú í Wellington á Nýja-Sjálandi hræið af risasmokkfiski, sem veiddist í Suðurhöfum í fyrra. Verið er að þíða hræið.

ALÞJÓÐLEGUR hópur sjávarlíffræðinga rannsakar nú í Wellington á Nýja-Sjálandi hræið af risasmokkfiski, sem veiddist í Suðurhöfum í fyrra. Verið er að þíða hræið. Smokkfiskurinn, sem er um átta metrar að lengd og vegur 495 kíló, er af afar sjaldséðri tegund en heimkynni hennar eru á miklu dýpi. Hann ber fræðiheitið Mesonychoteuthis hamiltoni.

Annað augað er óskaddað og stærra en augað á nokkurri annarri skepnu í dýraríkinu. Ekki hefur fyrr fundist heilt auga úr slíkum fiski. Þvermál augans er um 27 sm, eins og á stórum matardiski.

„Linsan er á stærð við appelsínu og getur greint geysilegt magn af birtu í dimmu djúpinu þar sem dýrið stundar veiðar,“ segir Eric Warrant, sænskur prófessor sem er sérfræðingur í sjón hryggleysingja.

Fiskurinn veiddist á Rosshafi við Suðurskautslandið. Talið er að tegundin geti orðið 14 metra löng og geti kafað niður á tveggja kílómetra dýpi. Risasmokkfiskur er talinn vera óhemju sterkur. Hann er með öflugar klær á örmunum til að klófesta bráðina. Fiskurinn notar síðan sérstakar klær, beittar eins og rakvélarblöð, til að sneiða bráðina niður í smábita sem loks eru gleyptir. Eini hættulegi óvinurinn er búrhvalurinn sem lifir að verulegu leyti á risasmokkfiski.