Eva María Jónsdóttir | evamaria@netfang.is Við Íslendingar höfum víst sérstöðu, því við vinnum svo mikið. Vinnuvikan íslenska er ofvaxin miðað við þær hóflegu vinnuvikur, sem þekkjast í löndunum sem við kjósum að bera okkur saman við.

Eva María Jónsdóttir | evamaria@netfang.is

Við Íslendingar höfum víst sérstöðu, því við vinnum svo mikið. Vinnuvikan íslenska er ofvaxin miðað við þær hóflegu vinnuvikur, sem þekkjast í löndunum sem við kjósum að bera okkur saman við. Þetta er eitthvað sem við gætum verið stolt af ef ekki lægju fyrir upplýsingar um að við framleiðum minna á vinnustund en samanburðarþjóðirnar. Það undarlega er þó að íslenskir launþegar hafa ekki krafist styttri vinnuviku í áratugi. Það þykir nefnilega svo flott á Íslandi að vinna mikið.

Fólk hefur val

Í gegnum aldirnar hefur vinnan verið sögð göfga manninn. En jafnvel hin mesta dyggð getur snúist í andhverfu sína ef hún setur allt jafnvægi úr skorðum. Það er einmitt þetta vandfundna jafnvægi milli vinnunnar og lífsins utan hennar sem fólk á vinnumarkaði gefur æ meiri gaum. Það er ekkert náttúrulögmál að allir vinni eins mikið og þeir geta. Fólk hefur nefnilega val um hvernig það vill verja tíma sínum. Þetta virðist stundum gleymast í okkar vinnusama samfélagi. Hver og einn þarf að gera upp við sig hvernig lífi hann vill lifa og spyrja: Hversu mikið vil ég vinna? Hvað annað en vinnan gefur lífinu gildi? Gæti ég áorkað jafnmiklu í vinnunni á skemmri tíma? Hvernig vil ég muna líf mitt í ævilok?

Glíman er sumsé fyrst og fremst við sjálfan sig. Svo er að láta reyna á hvort vinnuveitandinn getur komið til móts við óskir manns. Vinnuveitendur eru margir búnir að átta sig á, að til þess að starfsfólkið staldri við á vinnustaðnum þarf það að vera sæmilega sátt, bæði við vinnuaðstæður sínar og sig sjálft. Manneskja sem vinnur þannig að hún hvorki getur sinnt sjálfri sér né sínum nánustu er ekki líkleg til að vera sátt og því ekki líkleg til að sitja vel í sínu starfi.

Þetta vita vinnuveitendur og því er líklegt að þeir séu jákvæðir fyrir því að skoða þær lausnir sem stuðla að því að starfsmaður geti staðið sig sem fjölskyldumanneskja, samfélagsþegn, einstaklingur og starfsmaður.

Launþegar hafa nokkra möguleika á að gera sér meiri mat úr þeim tíma sem þeir eru ekki í vinnunni. Stéttarfélög bjóða til dæmis mörg upp á námsleyfi á launum til endurmenntunar, sem eru kjörin leið til að breyta um umhverfi og endurnýja starfsgleðina. Sumir möguleikar fólks hafa reyndar í för með sér að fólk ber minna úr býtum fjárhagslega en áður. Möguleika þessa má til dæmis finna í fæðingarorlofslögunum, en þar er nýbökuðum foreldrum gefinn kostur á að taka út orlofsgreiðslurnar á 18 mánaða tímabili. Mánaðarlaunin sem þeir hafa úr að spila eru þá einungis 40% af venjulegum mánaðarlaunum þeirra. Þetta er mörgum ofviða, en valkostur fyrir einhverja. Í fæðingarorlofslögunum er einnig að finna fyrirbærið foreldraorlof. Þá hafa foreldrar möguleika á að fá 13 vikna launalaust leyfi með hverju barni, áður en það nær 8 ára aldri. Þessi möguleiki getur verið óaðlaðandi fyrir þá sem ekki telja sig mega missa launin. En búa má svo um hnútana að þetta sé hægt með útsjónarsemi og vilja til að eiga þennan tíma fyrir fjölskylduna og sjálfan sig.

Frumkvæði og forgangsröðun

Aðrir möguleikar sem launþegar hafa til að auðga líf sitt utan vinnunnar eru mikið til í þeirra eigin höndum. Hvernig sem menn eru í sveit settir, er mikilvægast að sýna frumkvæði og falast eftir því sem fer saman við gildismat hvers og eins. Þeir sem meta mikils að eiga tíma fyrir sig og fjölskylduna, ættu ekki að fylgja straumnum og vinna daga langa samkvæmt íslenskri hefð, heldur byrja strax að vinna að því að fá atvinnurekendur til að koma til móts við sig, nýta sér réttindi sín eða einfaldlega neita sér um að taka vinnuna með heim að kvöldi dags. Í þessu efni hlýtur skýr forgangsröð og breytni í samræmi við hana, að vera lykillinn að betri líðan almennt og auknu starfsþreki.

Höfundur er dagskrárgerðarmaður, móðir og leiðbeinandi í MANNAUÐI og skrifar fyrir verkefnið MANNAUÐUR.