Gunnar A. Birgisson fæddist í Reykjavík 1974. Útskrifaðist sem matsveinn frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1995. Gunnar hefur starfað við sjómennsku og almenn verkamannastörf.

Gunnar A. Birgisson fæddist í Reykjavík 1974. Útskrifaðist sem matsveinn frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1995. Gunnar hefur starfað við sjómennsku og almenn verkamannastörf. Hann hefur verið formaður Sportkafarafélags Íslands frá ársbyrjun og meðlimur síðan 1998. Gunnar á kærustu, Thiamsaeng Tangrodjanakajorn leikskólakennara, og eiga þau einn son.

Sportköfun er stunduð allan ársins hring á Íslandi, en þó mest á sumrin. Að sögn Gunnars A. Birgissonar, formanns Sportkafarafélags Íslands er köfun skemmtileg iðja þar sem upplifa má annan heim, en fara þarf varlega og sækja námskeið hjá viðurkenndum leiðbeinanda áður en byrjað er að kafa.

Æfa þarf rétt viðbrögð

„Köfun getur verið hættuleg ef kunnátta á mikilvægum öryggisatriðum er ekki í lagi. Á köfunarnámskeiðum má læra hvernig á að stunda örugga köfun og æfa þau viðbrögð sem kunna þarf ef eitthvað kemur upp á undir vatni,“ segir Gunnar. „Sá sem aldrei hefur lært köfun, en skellir sér engu að síður í köfunarbúnað og ofan í vatn er í stórhættu, rétt eins og má líkja því við að maður sem ekki kann að aka sé settur undir stýrið á kröftugum sportbíl.“

Þeir sem stunda vilja köfun þurfa ekki að vera mikil hreystimenni, en þurfa hins vegar að búa yfir yfirvegun, og vera lausir við ýmsa kvilla á borð við bakvandamál, astma og innilokunarkennd. Einnig er ekki hægt að kafa ef stífla er í nefi eða eyrum, s.s. vegna kvefs eða frjókornaofnæmis: „Áhugasamir geta haft samband við Sportkafarafélagið til að fá upplýsingar um viðurkennda köfunarleiðbeinendur. Einnig eru allir velkomnir á pressukvöld sem haldin eru kl. 20 alla fimmtudaga í félagshúsi SKFÍ, Brautarenda í Nauthólsvík.

Skemmtilegur félagsskapur

„Sportkafarafélagið skapar vettvang fyrir fólk að hittast, kynnast og kafa saman. Við gætum hagsmuna kafara og skipuleggjum viðburði,“ segir Gunnar. „Einnig beitir félagið sér fyrir náttúruvernd, til dæmis í kringum Silfru á Þingvöllum þar sem ágangs kafara og ferðamanna er farið að gæta á sumum stöðum í umhverfinu. Þar vinnum við nú að lagningu göngustíga og köfunarstiga til að í senn vernda umhverfið og bæta aðgengi til köfunar.“

Heimasíða Sportkafarafélags Íslands er á slóðinni www.kofun.is og má þar finna ýmsan fróðleik um köfun, kaupa og selja köfunarbúnað og taka þátt í umræðum.