Mokstur Ryðja þurfti snjó af götum Egilsstaða í gær fram á kvöld.
Mokstur Ryðja þurfti snjó af götum Egilsstaða í gær fram á kvöld. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
HVÍTT var yfir að líta þegar íbúar víða á Austur- og Norðurlandi komu út í gærmorgun. Kyngt hafði niður snjó kvöldið áður og um nóttina og mikil ófærð var víða. Jafnfallinn snjór mældist mestur á Grímsstöðum á Fjöllum, 40 cm og var víðar nálægt því.

HVÍTT var yfir að líta þegar íbúar víða á Austur- og Norðurlandi komu út í gærmorgun. Kyngt hafði niður snjó kvöldið áður og um nóttina og mikil ófærð var víða. Jafnfallinn snjór mældist mestur á Grímsstöðum á Fjöllum, 40 cm og var víðar nálægt því.

Það snjóaði einnig utarlega í Eyjafirðinum, á Ólafsfirði, en þar reyndist jafnfallinn snjór um 20 cm í gær. Siglfirðingar og Húsvíkingar fengu einnig sinn skerf en Veðurstofan segir hægfara skil yfir Austurlandi, sem svo teygðu sig yfir Norðurlandið hafa valdið ofankomunni.

Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast við að bjarga fólki sem fest hafði bíla sína á fjallvegum og láglendi á Austurlandi. Verst var ástandið á Öxi, þar sem björgunarmenn voru svo klukkustundum skipti að koma fólki í byggð. Þeir ferðalangar voru útlendingar, nýkomnir úr Norrönu á vanbúnum farartækjum. Það eru þó sem fyrr heimamenn sem leggja á fjallvegi þrátt fyrir að skilti Vegagerðarinnar segi þá lokaða og lenda svo í vandræðum. Fyrir mistök var raunar ekki sett viðvörun á slíkt skilti við Fjarðarheiði fyrr en seint og um síðir og ökumenn því lagðir á heiðina í þeirri trú að hún væri fær.

Blotasnjór hamlaði ferðum fólks í dreifbýli langt fram eftir gærdeginum og öll snjómoksturstæki voru í gangi við að ryðja vegi og húsagötur í þéttbýli. Veðurstofan segir veðrið tilfallandi vorhret og spáir rigningu eða éljum á Austurlandi og Norðausturlandi fram á helgina og allt að fimm stiga hita. Vorið ætti því að skjóta upp kollinum á nýjan leik innan tíðar. | 4