Eftir Xavier Vives
Eru örlög banka ráðin í kjölfar fjármálakreppunnar sem nú stendur yfir? Vöndlun veðlána var upphaflega álitin sigur þar sem hún færði áhættuna yfir á fjármálamarkaði, en inn- og útlánastarfsemi – sem er verksvið hefðbundinna banka – þótti almennt þröng og gamaldags. Þvert á móti ættu nútímabankar að leita fjármagns á millibankamarkaði og vöndla lánasöfn sín.
Fræðilega séð ættu slíkir bankar að vera ónæmir fyrir áhlaupum þar sem millibankamarkaðurinn á að vera mjög skilvirkur og áhættan myndi færast yfir á fjárfesta sem eru fúsir til þess að taka hana á sig. Gagnkvæmir sjóðir (e. mutual funds) sem, eins og við vitum, eru einnig ónæmir fyrir áhlaupum kæmu í stað innlána og áhætta fjárfestingarsjóða (e. structured investment vehicle, SIV) yrði metin nákvæmlega af matsfyrirtækjum. Öll þessi fjármálasmíði myndi komast hjá hinum úreltu kröfum um eigið fé sem eru byrði á starfsemi bankanna.
Kennslubókardæmi
Kreppan sem nú stendur yfir drap þessa bjartsýnismynd. Millibankamarkaðurinn er næstum fallinn saman þar sem bankar treysta ekki hver öðrum, á svipaðan hátt og við vantreystum gjarnan sölumönnum notaðra bíla.Þetta er kennslubókardæmi um markaðsbrest. Rætur vandans liggja í óvissu um hversu mikil ótrygg veðlán bankarnir eiga en áhætta þessara lána var, vegna hagsmunaárekstra, kæruleysislega metin af matsfyrirtækjum. Northern Rock í Bretlandi og Bear Stearns í Bandaríkjunum urðu fórnarlömb þessarar bankakænsku nútímans og fleiri gætu orðið henni að bráð innan skamms.
Auk þess hafa fjármálastofnanir sem töldu sig hafa fært áhættuna yfir á markaðinn gert sér grein fyrir því að fall sjóða sem þær hafa lagt nafn sitt við gæti valdið orðstír þeirra óbætanlegu tjóni. Það benti til þess að bjarga þyrfti sjóðunum. Því miður láðist þeim að leggja til hliðar nægt fjármagn vegna þessa ófyrirséða óvissuástands og utanaðkomandi fjárfestar, svo sem þjóðarsjóðir Kína, Singapúr og Mið-Austurlanda þurftu að koma til bjargar.
Loks má geta þess að gagnkvæmir sjóðir eru einnig í hættu þar sem fjárfestingar þeirra, sem taldar voru öruggar, gætu súrnað og tryggingarnar að baki þeim virðast nú ótraustar. Færi svo myndi mengun peningamarkaðarins af völdum ótryggra veðlána í Bandaríkjunum reynast hörmuleg og afleiðingarnar mun verri en það sem við höfum þegar séð. Hin meinta færsla áhættu myndi reynast hilling.
Hverjum er um að kenna?
Er bönkum eða eftirlitsaðilum um að kenna? Svarið gæti gefið til kynna hvaða framtíð bíður bankanna. Sumir eftirlitsaðilar sýndu ábyrgðarleysi með því að sjá ekki fyrir hina rökrænu hagnaðarhámörkunarhegðun (e. profit-maximizing behaviour) fjármálastofnana sem samkvæmt stofnskrám sínum taka takmarkaða ábyrgð og verja yfirmenn sína þótt illa fari.Því ættu bankar að hafa ótrygg veðlán í bókum sínum, fylgjast með ávöxtun þeirra og kalla yfir sig kröfur um eigið fé þegar þeir geta vöndlað lánin á hagstæðan hátt (þar sem matsfyrirtækin eiga hagsmuni í viðskiptunum), komist hjá kröfum um eigið fé og hagnast á því að fjárfesta skortir reynslu af slíkum afurðum. Þrátt fyrir að allt færi á versta veg og það bitnaði á eigin fé bankanna vissu forstjórar bankanna að það myndi ekki bitna á rausnarlegum kaupaukum og eftirlaunum þeirra. Með þetta í huga hefðu eftirlitsaðilar átt að hugsa sig tvisvar um áður en þeir heimiluðu aðgerðir utan efnahagsreiknings án frekari skilyrða.
Annað eftirlit?
Grundvallarspurningin í dag er hver hefur yfirsýn yfir torskilin lán, hvort sem um er að ræða ótrygg veðlán eða önnur. Venjulega myndi svarið vera bankarnir en í hinum vöndlaða heimi er svarið óljóst?Spurningin er því hvort um annað sé að ræða en gamaldags eftirlit banka með lánum?
Væri vöndullinn almennilega metinn væri útgefandanum ef til vill gert skylt að halda eftir hluta lánapakkans til þess að gefa markaðnum til kynna að hemill sé hafður á áhættunni. Og ljóst er að það var bábilja að ætla að ekki væri þörf á eiginfjárkröfum vegna aðgerða utan efnahagsreiknings (þar sem áhættan átti ekki að vera bankanna).
Hæfilegt eftirlit – þar með talið eftirlit með matsfyrirtækjum – myndi sennilega auka vinsældir hefðbundinnar bankastarfsemi á ný. Endurskoðun á takmörkun ábyrgðar bankanna myndi bæta trúverðugleikann enn frekar.
Hugmyndin er einföld: þegar þitt eigið fé er að veði ertu líklegri til þess að fara varlega. En þegar þú getur leikið þér með peninga annarra og búist við góðum verðlaunum ef vel gengur og engri refsingu ef illa fer er hvatinn til þess að taka ábyrgðarlausa áhættu verulegur.
Xavier Vives er prófessor í hagfræði og fjármálum við IESE-viðskiptaháskólann í Barcelona. © 2008 Project Syndicate Millifyrirsagnir eru Morgunblaðsins