Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@24stundir.is Núverandi vaktafyrirkomulag skurð- og hjúkrunarfræðinga verður í gildi til 1.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@24stundir.is

Núverandi vaktafyrirkomulag skurð- og hjúkrunarfræðinga verður í gildi til 1. maí næstkomandi nema samið verði um annað samkvæmt samkomulagi sem fulltrúar hjúkrunarfræðinganna náðu við Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra á níunda tímanum í gærkvöld. Þar með verður vinnufyrirkomulagið sem taka átti upp í dag lagt til hliðar en til þess að virða vinnutímatilskipun Evrópusambandsins verður settur á laggirnar vinnuhópur sem á að útfæra vaktaskipulagið. Í honum verða fulltrúar skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga og Landspítalans auk oddamanns sem heilbrigðisráðherra tilnefnir.

Læknaráð Landspítalans skoraði í gær á heilbrigðisráðherra að grípa strax inn í deilu stjórnenda spítalans og skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga og geislafræðinga. Lýsti stjórn læknaráðsins því yfir að starfsemi spítalans myndi að stórum hluta lamast ef þeir 100 hjúkrunarfræðingar og 40 geislafræðingar sem sagt höfðu upp störfum hættu og gengju út.

„Eins og ég hef alltaf sagt búa skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingar yfir gífurlegri þekkingu. Ég hefði ekki viljað missa einn einasta þeirra út af deildunum,“ segir Helga Kristín Einarsdóttir sviðsstjóri skurð- og svæfingahjúkrunar á Landspítalanum, að vonum ánægð með að sættir tókust

Í ályktun læknaráðs sagði að fyrir hefði legið mánuðum saman að þessir starfsmenn myndu hætta ef samkomulag um vaktafyrirkomulag næðist ekki. Það væri einnig ljóst að neyðaráætlun myndi engan veginn duga til að halda starfsemi spítalans í viðunandi horfi.

Geislafræðingarnir frestuðu hins vegar í gær uppsögnum sínum um einn mánuð. Að loknum fundi þeirra með yfirstjórn spítalans var tilkynnt að nota ætti tímann í þessum mánuði til þess að ná sáttum í málinu.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, fagnaði fyrir skjólstæðinga spítalans þegar hún frétti af samkomulaginu. „Það er gleðiefni að neyðarástandi sé aflétt og ég treysti því að nú verði farið í það samráð milli stjórnenda og hjúkrunarfræðinga sem auðvitað átti að vera frá upphafi. Nauðsynlegt er að ræða við fagaðila og þá sem best þekkja til sem á þessu sviði eru hjúkrunarfræðingarnir sjálfir.“

Í hnotskurn
Alls sögðu 96 af 104 skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingum á Landspítala upp störfum. Af 50 geislafræðingum sögðu 42 upp störfum.