Þorsteinn Ingimarsson | 30. apríl Gefið eftir uppgreiðslugjaldið eða... Nú eru að verða 5 ár liðin síðan bankarnir ruddust inn á fasteignamarkaðinn með skelfilegum afleiðingum fyrir fasteignaeigendur í nútíð og framtíð.

Þorsteinn Ingimarsson | 30. apríl

Gefið eftir uppgreiðslugjaldið eða...

Nú eru að verða 5 ár liðin síðan bankarnir ruddust inn á fasteignamarkaðinn með skelfilegum afleiðingum fyrir fasteignaeigendur í nútíð og framtíð. Ekki vantaði loforðaflauminn um betri kjör, allt til þess að klekkja á Íbúðalánasjóði og ná til sín viðskiptum frá honum. Fasteignavextir á 4,15% um langa framtíð, lán fyrir stimpilgjöldunum og vilyrði fyrir enn lægri vöxtum í náinni framtíð, fyrir þá sem vildu skipta um lánastofnun og meira í þessum gyllta dúr. Eftirminnilegt er glæpsamlegt viðtal við núverandi forstjóra Kaupþings í sjónvarpi, þar sem hann lofaði að halda þessum lágu vöxtum um langa framtíð. Ekki vildi hann segja til um tímasetningar þrátt fyrir að gengið væri á hann, en um mjög langa framtíð voru þó orð sem höfðust upp úr forstjóranum.

Ekki veit ég hvað bankamenn kalla langa framtíð, en 4-5 ár í fasteignaviðskiptum vil ég leyfa mér að kalla mjög stutta framtíð.

Í dag er staðan sú að bankarnir eru að tapa á þessum lágvaxtalánum (sem þó þykja ekki lág í evrópskan mælikvarða) og hótanir um að beita endurskoðunarákvæði vaxtanna vofir yfir stórum hluta fasteignakaupenda sem annaðhvort fluttu lán sín yfir til bankanna frá Íbúðalánasjóði eða tóku ný lán. Eins og ég skrifaði að ofan voru væntingarnar sem bankarnir ýttu undir að vextir yrðu enn lægri og því uggðu lántakendur ekki að sér varðandi endurskoðunarákvæðið. Flestir töldu að það yrði frekar til lækkunar en hækkunar.

Staðan í dag er sú að allt stefni í að 4,15% verðtryggðir vextir fari í yfir 7%. Sem þýðir að mánaðargreiðsla fasteignaláns að upphæð 20 milljóna fari úr 90.000 kr í 130.000 kr. Hækki um 40.000 krónur á mánuði – tæplega hálfa milljón á ári.

Það er ekki margt sem ofurseldir viðskiptavinir bankanna geta gert í slagnum við þá, þar sem bankarnir hafa tryggt sig bæði með belti og axlaböndum.

En ein er sú leið að ríkisvaldið losi um takið og krefjist þess að bankarnir gefi eftir uppgreiðslugjaldið ella verði þeir þjóðnýttir....

thorsteinni.blog.is