Opnun Verksmiðju Formaco vígði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í gær ásamt Ragnari Jóhannssyni, forstjóra fyrirtækisins.
Opnun Verksmiðju Formaco vígði Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í gær ásamt Ragnari Jóhannssyni, forstjóra fyrirtækisins. — Morgunblaðið/Hilmar Bragi
Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is NÝ álgluggaverksmiðja fyrirtækisins Formaco ehf. var formlega tekin í notkun í gær í byggingu númer 2300 á Keflavíkurflugvelli. Verksmiðjan framleiðir álglugga undir vöruheitinu Idex.

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson

gretar@mbl.is

NÝ álgluggaverksmiðja fyrirtækisins Formaco ehf. var formlega tekin í notkun í gær í byggingu númer 2300 á Keflavíkurflugvelli. Verksmiðjan framleiðir álglugga undir vöruheitinu Idex. Um 10 til 12 starfsmenn starfa í hinni nýju verksmiðju auk fjögurra sölumanna.

Ragnar Jóhannsson, forstjóri Formaco, segir að útlit sé fyrir að starfsmönnum verksmiðjunnar verði fjölgað á næstunni, til að hægt verði að anna eftirspurninni. „Ætlunin er að keppa við innflutning á álgluggum,“ segir Ragnar. „Líklegt er að um 90% af álgluggum hér á landi séu fluttir inn. Við stefnum að því að ná um 40% markaðshlutdeild á næstu þremur árum. Við erum full bjartsýni því nú þegar liggja fyrir pantanir fyrir rúmlega 600 milljónir króna, sem er langt umfram það sem við höfðum vonast eftir.“

Að sögn Ragnars er bjart framundan fyrir álgluggaframleiðsluna, því bölmóðurinn sem verið hefur í byggingariðnaðinum hafi ekki náð til þess markaðar sem Formaco er helst að sinna, þ.e. opinberra bygginga. Hið opinbera hafi haldið aftur af sér á meðan virkjana- og álversframkvæmdir hafi staðið sem hæst, en nú séu ýmsar opinberar byggingaframkvæmdir að fara í gang.

Um 80 starfsmenn

Formaco var stofnað árið 1997 með það að markmiði að þjónusta byggingariðnaðinum. Stofnendur og eigendur eru Ragnar Jóhannsson og Helga Margrét Jóhannsdóttir. Starfsmenn fyrirtækisins eru í dag um 80 talsins.

Ragnar segir að Formaco hafi flutt inn glugga í rúmlega áratug. Upp á síðkastið hafi hins vegar borið nokkuð á vandræðum í útlöndum með afhendingu og annað slíkt. Við þær aðstæður hafi þótt ástæða til að ráðast í eigin framleiðslu á álgluggum hér á landi í stað þess að flytja gluggana inn.

Hann segir að verksmiðjan á Keflavíkurflugvelli hafi fyrst verið prufukeyrð fyrir um tveimur mánuðum en starfsemin í verksmiðjunni sé nú komin á fullan skrið.

Meðal verkefna sem Formaco hefur samið um eru gluggar í nýjar kirkjur Lindasóknar og Grafarholts. Þá standi nú yfir samningaviðræður um alla glugga í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík.

„Álgluggar eru að stærstum hluta notaðir í stórar byggingar. Trégluggar eru hins vegar mest notaðir í íbúðarhúsnæði, en þó hefur notkun álglugga í einbýlishús farið vaxandi. Álgluggarnir bjóði upp á möguleikann á því að vera með stærri glerfleti í gluggum en trégluggar, vegna burðarþols, því trégluggarnir þurfa þá oft að vera mjög efnismiklir,“ segir Ragnar.

Undirbúningur hófst í fyrra

Formaco keypti fyrirtækin Idex ehf. Reykjavík og Idex A/S í Danmörku á árinu 2004. Árið 2007 keypti Formaco síðan lökkunarfyrirtækið Pólýhúðun sem og byggingu númer 2300 á Keflavíkurflugvelli og hófst þá undirbúningur að uppsetningu álgluggaverksmiðjunnar.