Jakob Örn Sigurðarson fæddist á fæðingardeild Landspítalans 21. júní 1997. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 9. mars síðastliðinn og var jarðsunginn frá Digraneskirkju 19. mars.
Jakob Örn, ljúfur, kraftmikill, svipfríður og góður drengur er nú fallinn frá, langt um aldur fram.
Það að missa son sinn er eitthvað sem enginn á að þurfa að ganga í gegnum. Okkur þykir eðlilegt að börnin okkar lifi okkur og að við fáum að sjá þau vaxa úr grasi. Þetta er því afskaplega ósanngjarnt. Það sem helst getur glatt okkur á svona stundu er að Jakob Örn lifði mjög góðu lífi, umvafinn ást og umhyggju foreldra sinna. Hann var svo gæfuríkur að vera afreksmaður í íþróttum og stundaði þær af kappi. Hann fékk tækifæri til að ferðast með foreldrum sínum og bróður og var stöðugt að upplifa og rannsaka nýja hluti. Hann upplifði það að eiga góða og trausta vináttu.
En það dýrmætasta af þessu öllu er að foreldrar hans höfðu tíma fyrir hann, elskuðu hann og því átti hann frábær æskuár.
Mér er alltaf minnisstætt eitt skipti þegar Jakob Örn var vart farinn að ganga og ég var að tala við Herdísi í símanum. Allt í einu stekkur Herdís frá símanum, en þá var Jakob farinn að henda Legó-kubbum út um gluggann í herberginu sínu. Við Herdís hlógum mikið að þessu eftir á, en þarna mátti sjá að það kom fljótt í ljós að hann vildi hafa nóg fyrir stafni.
Stórt skarð hefur myndast í líf allra þeirra sem hafa verið samferða Jakobi Erni og fjölskyldu hans.
Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan. Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.
Sum ykkar segja:
„Í heimi hér er meira ef gleði en sorg, og aðrir segja: „Nei, sorgirnar eru fleiri.“
En ég segi þér, sorgin og gleðin ferðast saman að húsi þínu, og þegar önnur situr við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu. (Úr Spámanninum.)
Elsku Herdís, Siggi, Rafnar og aðrir aðstandendur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
Minningin um góðan dreng mun lifa í brjóstum okkar, Guð veri með ykkur og styrki á þessum sorgarstundum.
Harpa, Skúli og börn.