— 24stundir/Árni Sæberg
Á laugardaginn verða 100 dagar liðnir frá því að meirihluti Sjálfstæðisflokks og þess hluta F-lista sem fylgir Ólafi F.

Á laugardaginn verða 100 dagar liðnir frá því að meirihluti Sjálfstæðisflokks og þess hluta F-lista sem fylgir Ólafi F. Magnússyni að málum, sem kallaður hefur verið Kjartansstjórnin vegna frumkvæðis Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að myndun hans. Þar með hefur hún náð sama aldri og hin svokallaða skammdegisstjórn, sem Framsóknarflokkur, F-listi, Samfylking og Vinstri græn mynduðu í október.

Erfið byrjun

Kjartansstjórnin tók við völdum á aukafundi borgarstjórnar þann 24. janúar. Fundurinn var mikill átakafundur og þurfti meðal annars að fresta honum um nokkra tíma vegna háværra mótmæla á áhorfendapöllum og göngum ráðhússins. Þar var Ólafur F. Magnússon kosinn borgarstjóri og mun hann gegna því embætti fram í mars á næsta ári þegar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins tekur við af honum. Kjartansstjórnin hefur frá upphafi mætt miklum mótbyr. Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi F-listans, vildi ekki fylgja Ólafi inn í nýjan meirihluta sem þýðir að hann getur ekki kallað inn varamann ef hann forfallast. Þá birti Fréttablaðið niðurstöður skoðanakönnunar sem sýndi að Kjartansstjórnin nyti aðeins stuðnings fjórðungs borgarbúa daginn fyrir valdatökuna.

Þrautaganga Vilhjálms

Stýrihópur sem skipaður var fulltrúum allra flokka til þess að fara yfir REI-málið kynnti skýrslu sína í borgarráði Reykjavíkur þann 7. febrúar og lýsti borgarráð yfir mikilli ánægju með niðurstöðu hennar. Í henni kom fram að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, hefði ekki haft umboð til þess að samþykkja samruna REI og Geysis Green Energy á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) þann 3. október 2007. Í kjölfarið var mikið rætt um framtíð Vilhjálms sem oddvita Sjálfstæðisflokkins í borgarstjórn og reyndar líka sem borgarfulltrúa. Í þeirri atburðarás sem upphófst þótti Vilhjálmur hafa sagt rangt frá í Kastljósi. Í kjölfarið heyrðust raddir um að Vilhjálmur ætti að segja af sér sem borgarfulltrúi. Þessu lauk með blaðamannafundi Valhöll þar sem Vilhjálmur sagðist hafa gert klaufaleg mistök, hann ætlaði ekki að segja af sér og að hann gæti ekki sagt hvort hann myndi taka við af Ólafi F. Magnússyni sem borgarstjóri eins og gert hafði verið ráð fyrir. Enn er ekki ljóst hver verður borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins.

Hallargarðurinn

Í lok febrúar kom upp mál sem tók meirihlutann tæpa tvo mánuði að leysa. Þá voru lagðar fyrir borgarráð tillögur um breytingar á Hallargarðinum þar sem húsið við Fríkirkjuveg 11 stendur sem voru forsendur tilboðs Novators, eignarhaldsfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, í húsið sem borgin hafði samþykkt að taka. Þá hafði Ólafur F. Magnússon verið andvígur sölunni. Erfiðlega gekk að ná samstöðu um málið í borgarráði og var það ítrekað tekið af dagskrá. Að lokum var lögð fram tillaga um að hætt væri við söluna í ljósi þess að forsendur tilboðsins væru brostnar. Þeirri tillögu var vísað frá. Á endanum voru breytingarnar samþykktar í borgarráði, þrátt fyrir ýmsa annmarka vegna þess að tillögur nýrra eigenda brjóta í bága við fornminjalög.

Slæmt ástand miðborgar

Í byrjun apríl var ástand miðborgarinnar mikið til umræðu. Í kjölfarið sögðu 24 stundir frá því að 37 hús væru auð í miðborg Reykjavíkur samkvæmt samantekt skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins skilaði einnig skýrslu um málið og taldi að auðu húsin væru 57. Rekstur og búseta var í mörgum þessara húsa um síðustu jól en fjórum mánuðum síðar voru þau orðin skjól fyrir útigangsfólk og slysagildrur fyrir íbúa hverfisins. Eigendur húsanna, sem mörg hver átti að rífa, bentu á að mál þeirra strönduðu iðulega innan borgarkerfisins. Borgaryfirvöld brugðust við með því að skipa aðgerðahóp um miðborg Reykjavíkur Hann gerði átak í hreinsun og lagfæringum í miðborginni og hóf náið samstarf við eigendur auðra húsa við að koma þeim í notkun eða gera þau mannheld.

Vandræði Orkuveitunnar

Í apríl úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að OR mætti ekki eiga meira en þrjú prósent í Hitaveitu Suðurnesja (HS) og því verður OR að selja nær allan 16,6% hlut sem hún á í dag og má auk þess ekki eiga 14,65% hlut sem hún hafði samþykkt að kaupa af Hafnarfirði. Þetta hefur töluverða fjárhagslega þýðingu fyrir þetta stærsta fyrirtæki í eigu borgarinnar. Ef OR þarf að kaupa hlut Hafnfirðinga þarf hún að greiða 7,6 milljarða króna fyrir auk dráttarvaxta, sem eru um fimm milljónir á dag, frá 10. mars síðastliðnum. Ef OR neyðist til að selja hlut sinn er ljóst að fyrirtækið tapar mörgum milljörðum króna á aðkomu sinni að HS vegna þess að gengið á hlutum í HS er mun lægra en það var þegar þeir voru keyptir.

Ekki bara vandræði

Þrátt fyrir öll vandræðin hefur Kjartansstjórnin komið ýmsu í verk sem er á stefnuskrá hennar. Meðal annars hafa fasteignagjöld verið lækkuð, þriggja ára rekstrar- og framkvæmdaáætlun verið samþykkt sem og tímasett aðgerðaáætlun um uppbyggingu fyrir reykvísk börn undir nafninu Borgarbörn.
Í hnotskurn
Í þjóðarpúlsi Gallup sem kynntur var 1. mars naut borgarstjórn Reykjavíkur trausts aðeins 9% landsmanna. Þetta er minnsta traust sem nokkurn tíma hefur mælst í könnunum Gallup.