Tilbúnir að tengja Gunnar Björn Þórhallsson, framkvæmdastjóri Tengis, og Axel Grettisson, oddviti Arnarneshrepps, eftir undirskrift samningsins.
Tilbúnir að tengja Gunnar Björn Þórhallsson, framkvæmdastjóri Tengis, og Axel Grettisson, oddviti Arnarneshrepps, eftir undirskrift samningsins. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
ALLIR íbúar Arnarneshrepps verða komnir með ljósleiðaratengingu heim til sín í haust, sér að kostnaðarlausu. Sveitarfélagið samdi um það í gær við fyrirtækið Tengi á Akureyri og verður hafist handa við verkið innan fárra daga.

ALLIR íbúar Arnarneshrepps verða komnir með ljósleiðaratengingu heim til sín í haust, sér að kostnaðarlausu. Sveitarfélagið samdi um það í gær við fyrirtækið Tengi á Akureyri og verður hafist handa við verkið innan fárra daga. Hreppurinn greiðir rúmar 26 milljónir króna vegna verkefnisins.

Arnarneshreppur verður eitt allra fyrsta sveitarfélag landsins sem býður öllum íbúum slíka tengingu. Seltjarnarnes reið á vaðið en ekki vita forsvarsmenn Arnarneshrepps betur en sveitarfélagið verði það fyrsta utan borgarhornsins.

Fagriskógur er nyrsti bær sveitarfélagsins, skammt sunnan „landamæranna“ að Dalvíkurbyggð, og Litli Dunhagi sá syðsti, handan árinnar við Þelamerkurskóla í mynni Hörgárdals. Íbúðarhúsin eru alls um 55 en fyrirtækjum stendur einnig til boða að fá tengingu, sem og eigendum sumarhúsa á svæðinu.

Sveitarfélagið greiðir um 75% kostnaðar við að leggja ljósleiðarann en Tengir fjármagnar sjálfur það sem upp á vantar – sem er ámóta kostnaður og það kostar að leggja ljósleiðara í þéttbýli.

„Þetta skiptir öllu máli fyrir fólk í dag að hafa háhraða nettengingu. Hér verður bylting í búsetuskilyrðum,“ segir Axel Grettisson, oddviti Arnarneshrepps. „Ljósleiðari verður í haust kominn í hvert hús ásamt endabúnaði þannig að það eina sem fólk þarf að gera er að semja við einhverja netveitu um þjónustu í gegnum strenginn.“ Auk netsins verður tæknilega hægt að notfæra sér allt sem í boði er í gegnum ljósleiðara, sjónvarpssendingar, síma og þar fram eftir götunum.

Franz Árnason, framkvæmdastjóri Norðurorku og stjórnarformaður Tengis, telur daginn í gær sögulegan. „Það er töluverður áfangi að tengja heilt sveitarfélag og ég vil óska Arnarneshreppi til hamingju með daginn. Mér finnst það mjög flott framtak hjá sveitarfélaginu að gera þetta fyrir íbúana,“ sagði Franz þegar skrifað var undir samninginn í gær í gamla Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Í hnotskurn
» Fyrirtækið Tengir, sem leggur ljósleiðara í hvert hús í Arnarneshreppi, er í eigu Gunnars Björns Þórhallssonar á Akureyri (sem á rúm 50%), Norðurorku (tæp 40%,) Fjarska (6%) og Teymis (1%).