Ekki er ofsögum sagt að öllum er hollt að hreyfa sig reglulega, hvort sem fólk er í eða yfir kjörþyngd. Með reglulegri hreyfingu er hægt að minnka líkur á ýmiss konar líkamlegum kvillum, ekki síst hjartasjúkdómum.

Ekki er ofsögum sagt að öllum er hollt að hreyfa sig reglulega, hvort sem fólk er í eða yfir kjörþyngd. Með reglulegri hreyfingu er hægt að minnka líkur á ýmiss konar líkamlegum kvillum, ekki síst hjartasjúkdómum. En samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn er ljóst að konur í yfirþyngd eiga að jafnaði frekar á hættu að fá margs konar hjartasjúkdóma en konur í kjörþyngd, jafnvel þótt þær hreyfi sig meira. Um 39.000 konur víðsvegar í Bandaríkjunum voru rannsakaðar um nokkurra ára skeið. Ekki kom á óvart að þær sem voru í kjörþyngd og hreyfðu sig reglulega voru síst líklegar til þess að fá hjartasjúkdóma og að þær sem væru í ofþyngd og hreyfðu sig ekki áttu í mestri hættu á að fá hjartasjúkdóma. Hins vegar vakti athygli að þó svo að regluleg hreyfing drægi úr hættu of þungra kvenna á að fá hjartasjúkdóma dugði hún ekki til ein og sér. Of þungar konur sem hreyfðu sig reglulega áttu eftir sem áður frekar á hættu að fá hjartasjúkdóma en konur í kjörþyngd sem stunduðu enga hreyfingu.

Með öðrum orðum: það er alltaf góðra gjalda vert og nauðsynlegt að hreyfa sig reglulega en ætli of þungar konur að freista þess að draga úr hættu á hjartakvillum er nauðsynlegt að þær reyni að komast niður í kjörþyngd.