Inn um lúguna Réttur neytenda til að afþakka fjölpóst og fríblöð er enn óljós.
Inn um lúguna Réttur neytenda til að afþakka fjölpóst og fríblöð er enn óljós. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is Réttur neytenda til að afþakka fjölpóst og/eða fríblöð er áfram óljós því ekki náðist samkomulag hagsmunaaðila þar um.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

Réttur neytenda til að afþakka fjölpóst og/eða fríblöð er áfram óljós því ekki náðist samkomulag hagsmunaaðila þar um. Talsmaður neytenda gagnrýnir Íslandspóst fyrir að hafa strandað samkomulaginu, en fyrirtækið hefur ákveðið að bjóða á ný upp á póstlúgumiða þar sem fjölpóstur er afþakkaður. Í Osló samþykkti bæjarstjórnin hins vegar í síðustu viku að fólk þurfi sérstaklega að biðja um auglýsingar á þar til gerðum miðum til að leyfilegt verði að setja þær inn um lúgurnar hjá því.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur sent frá sér fréttatilkynningu um að ekki sé lengur grundvöllur fyrir „samkomulagsleið“ sem reyna átti meðal hagsmunaaðila um að tryggja neytendum rétt til að afþakka fjölpóst og/eða fríblöð. „Drög að samkomulagi gengu út frá að óumbeðnar sendingar yrðu settar í tvo flokka, annars vegar fjölpóst og hins vegar fríblöð. Neytendur gætu síðan hafnað öðrum hvorum flokknum eða báðum,“ segir í fréttatilkynningunni.

Að sögn Friðriks Péturssonar, lögfræðings hjá PFS, voru allir aðilar áhugasamir um að setja sameiginlegar reglur en strandað hefði á dreifingu svokallaðra innskota, þ.e. fjölpósti sem dreift er í fríblöðunum. „Við munum því senda samgönguráðherra bréf þar sem við greinum frá þeim leiðum sem ræddar voru innan hópsins og hverjar niðurstöður hans voru.“

Samskonar miðar og áður

Forsaga málsins er sú að á haustmánuðum bauð PFS hagsmunaaðilum til viðræðna um slíkt samkomulag í kjölfar þess að Íslandspóstur hætti að bjóða upp á sérstaka miða til að líma á póstlúgur þar sem fjölpóstur er afþakkaður. Ástæða þess var m.a. sögð sú að misbrestur væri á því að aðrir dreifingaraðilar en Íslandspóstur færu eftir þessum skilaboðum.

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts segir að fyrirtækið hafi viljað leita eftir samkomulagi meðal dreifenda fjölpósts um einhverja eina leið fyrir neytendur til að afþakka fjölpóstinn. „Það tókst ekki og þess vegna ákváðum við nú að bjóða aftur upp á samskonar miða og áður. Það gleymist stundum þegar verið er að ræða þessi mál að við dreifum aðeins um 12% af því fjölpóstmagni sem kemur inn um lúgurnar hjá fólki, séu fríblöðin tekin með.“

Talsmaður neytenda hefur sent frá sér frétt á heimasíðu sinni um málið þar sem hann gagnrýnir Íslandspóst fyrir að ganga úr skaftinu og ákveða „að hafna samkomulagi, sem aðrir hagsmunaðilar voru tilbúnir til þess að skrifa upp á, og taka að nýju upp einhliða afþökkunarmiða.“ Hann varar við því að neytendur þurfi að sækja slíka miða á fleiri en einn stað, að mismunandi miða þurfi til þess að afþakka fjölpóst eða fríblöð og jafnvel að reglulega endurnýjun þurfi til.

Ágústa segir rangt að stilla málinu upp með þessum hætti. „Við sáum ekki hag í því fyrir okkur né neytendur að skrifa undir þetta samkomulag enda var önnur lausn á borðinu sem aðrir voru ekki tilbúnir til að samþykkja.“ Hún staðfestir að deilan snúist um innskotin. „Okkur finnst ekki sanngjarnt að menn einblíni bara á dreifileiðina því innskotin eru fjölpóstur, þótt þau komi inni í fríblöðunum.“

Aðspurð segir Ágústa að meira eftirlit verði með miðunum nú en áður, t.d. í tengslum við íbúaskipti en fólk muni ekki þurfa að endurnýja þá reglulega eins og ýjað er að í tilkynningu talsmanns neytenda. Gert er ráð fyrir að miðarnir verði fáanlegir um eða upp úr miðjum maímánuði. Þá mun fólk geta sótt um þá á heimasíðu Íslandspósts og á pósthúsum og verða miðarnir þá sendir heim.

Ágústa játar því að í rauninni sé staðan nú sú sama og áður. „Við höfum alltaf viljað bjóða neytendum upp á einhverja lausn og sáum því að við yrðum að fara út í aðgerðir nú, því það er liðið heilt ár frá því að við hættum að bjóða þessa miða. En við getum ekki borið ábyrgð á öðrum dreifingaraðilum.“

„Já takk“ í stað „nei takk“

Neytendur í Noregi hafa um langt skeið haft aðgang að miðum þar sem auglýsingapóstur er afþakkaður. Í mörgum borgum og bæjum landsins hafa yfirvöld þó gengið skrefinu lengra, nú síðast í Osló þar sem samþykkt var í síðustu viku að viðkomandi skyldi sleppa við ómerktan póst hefði hann ekki beðið sérstaklega um hann, að því er fram kemur í frétt á vef Grønn hverdag (www.gronnhverdag.no). Í stað miðans: „Fjölpóstur, nei takk,“ kemur því miði með áletruninni „Fjölpóstur, já takk.“ Þetta fyrirkomulag á dreifingu fjölpósts er þegar við lýði í sveitarfélögunum Aurskog-Høland, Bergen og Sauherad og samskonar samþykktir bíða afgreiðslu í Tromsø, Þrándheimi og Rælingen.