Sterk „Theron sannar sig enn og aftur sem sterk, dramatísk leikkona og enginn er betur fallinn í hlutverk gamla stríðsjálksins en Jones.“
Sterk „Theron sannar sig enn og aftur sem sterk, dramatísk leikkona og enginn er betur fallinn í hlutverk gamla stríðsjálksins en Jones.“
Leikstjóri: Paul Higgis. Aðalleikarar: Tommy Lee Jones, Charlize Theron, Susan Sarandon, James Franco, Jonathan Tucker, Josh Brolin. 120 mín. Bandaríkin 2007.

HANK DEERFIELD (Jones), fyrrum foringi í herlögreglunni, er látinn vita að Mike (Tucker), sonur hans, er horfinn úr hernum án leyfis. Mike er nýkominn af vígvellinum í Írak, þar sem hann þjónaði föðurlandinu áður en hann var sendur í bækistöð sérsveitarmanna í Nýju Mexíkó. Skömmu síðar finnast hroðalega útleiknar líkamsleifar Mikes og Hank leggur land undir fót til að fylgjast með rannsókninni og fá botn í hvað kom fyrir son hans.

Lögreglan fer sér hægt, líkamsleifarnar finnast á yfirráðasvæði hersins og um sinn er togstreita á milli bæjaryfirvalda og herstjórnarinnar um það hvorum aðilanum beri að annast rannsóknina. Hank vinnur lögregluforingjann Sanders (Theron), á sitt band og fyrir hennar tilstilli og þrautseigju Hanks gamla fara málin að skýrast.

In the Valley of Elah er margþætt mynd sem veltir upp ólíkum hliðum á sóðalegu morðmáli. Er það tengt eiturlyfjasmygli eða eiturlyfjaneyslu, hver er morðinginn, er hann á meðal vina Mikes í sérsveitunum eða glæpamaður á svæðinu?

Þau Hank og kona hans (Sarandon), höfðu mist eldri soninn fyrir mörgum árum, hann var einnig hermaður; nú þegar hjónin eru búin að missa báða drengina sína breytist myndin úr lögreglurannsókn í enn tilfinningaþrungnari harmleik sem snýst frekar um leit föður að því hver sonur hans í rauninni var en uppljóstrun glæpsins. Haggis notar truflaðar vídeómyndir sem finnast í síma Mike til að beina farvegi myndarinnar í ákveðna stefnu og flækja um leið lausnina á morði Mike. Þessar upptökur gefa innsýn í ofbeldið og hætturnar á fjarlægum vígstöðvum og firringuna meðal hermannanna og borgaranna, fáránleikann í tilgangslausri sóun á mannslífum

Nafnið, In the Valley of Elah, er fengið úr Heilagri ritningu og er einnig að finna í Kóraninum, sem segir okkur vissa sögu. Elahdalur var vettvangur átakanna á milli Davíðs og Golíats, staðurinn þar sem hetjan yfirvann óttann og mætti ofureflinu nánast vopnlaus en óhræddur og hafði frækinn sigur. Nafnið skiptir ekki sköpum, myndin segir fyrst og síðast frá eyðileggingaröflum stríðsátaka á öllum stöðum og tímum. Söknuðinum og missinum sem aldrei verður bættur . In the Valley of Elah á ekki síst af þeim sökum fullt erindi til kvikmyndahúsgesta, hún er vægðarlaus, áhrifarík lýsing sem enginn kvikmyndaáhugamaður má missa af. Vel gerð og leikin, Theron sannar sig enn og aftur sem sterk, dramatísk leikkona og enginn er betur fallinn í hlutverk gamla stríðsjálksins sem þarf að standa frammi fyrir miskunnarlausum sannleikanum en Jones. Sarandon, Brolin og Barry Corbin gera öll vel í litlum hlutverkum sem verða stór í meðförum þeirra í heiðarlegustu mynd ársins.

Sæbjörn Valdimarsson

Höf.: Sæbjörn Valdimarsson