Þórhildur Gísladóttir fæddist á Brekku í Garði 12. september 1925. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi að morgni 8. apríl síðastliðins og var jarðsungin frá Garðakirkju 17. apríl.

Ein sú allra besta hughreysting sem ég hef fengið hingað til var frá henni ömmu Dídí. Það var ekki gott útlit þegar ég var í 10. bekk. Ég átti von á barni og mamma var dauðvona með krabbamein.

Ég tók mér vikufrí frá öllu og fór til ömmu. Ég var daufur í dálkinn og niðurdreginn þegar ég kom til hennar.

Amma tók mér opnum örmum og byrjaði að spjalla við mig um þessi mál. Eftir aðeins örfáar mínútur stoppaði hún mig af og brosti og sagði: „Magnús minn, þetta reddast.“ Þetta var það eina sem ég þurfti að heyra frá henni.

Enda hafði hún amma sjaldnast rangt fyrir sér, og viti menn; í dag er hún mamma heilbrigð og ég með fjögurra ára polla á eftir mér.

Ástarþakkir fyrir góð ár amma mín.

Þakka þér fyrir allt.

Guð blessi þig.

Kveðja frá Bjarka Fannari.

Þinn

Magnús.

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.

Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.

Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.

Ó! Hún var ambáttin hljóð.

Hún var ástkonan rjóð.

Hún var amma, svo fróð.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla'á fold.

Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin, hún sígur, – og sólin, hún rís, –

og sjá: Þér við hlið er þín hamingjudís,

sem ávallt er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf:

Það er íslenska konan, – tákn trúar og vonar,

sem ann þér og þér helgar sitt líf.

(Ómar Þ. Ragnarsson.)

Elsku amma mín, ég trúi því ekki að þú sért farin héðan burt, en ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera hjá þér og haldið í hönd þína þegar þú kvaddir þennan heim og fórst loksins til afa. Ég bíð þess enn að fara í Hveragerði að heimsækja ömmu Dídí, sem sat alltaf svo falleg, fín og sæt við eldhúsborðið og elskaði að fá fólk í heimsókn. Ég vildi óska þess að minningar mínar um þig og afa væru þúsund sinnum fleiri. En margar voru þær sögur sem maður fékk að heyra af ykkur, og allar voru þær jafndásamlegar.

Eina sterka minningu hef ég þó af Kolfreyjustað, staðnum sem þú unnir svo mjög. Ég og Magnús bróðir höfðum eflaust verið óþekk eins og gengur og gerist, svo afi fór með okkur út í kirkjugarð og sagði okkur að inni í peningagrösum leyndist krónupeningur. Þá laumaði hann einni krónu undir eitt peningagrasið til að sannfæra okkur. Við urðum svo spennt að við hlupum allan kirkjugarðinn upp og niður og rifum upp hvert einasta peningagras í von um að finna eina krónu inni í einu þeirra. En allt kom fyrir ekki og við fundum auðvitað enga peninga.

Ég þakka fyrir allt, að hafa fengið að kynnst þér svona vel, amma mín, þegar ég bjó hjá þér að hluta eitt sumarið og vann í Hveragerði. Þú hafðir alltaf svo skemmtilegar sögur að segja manni og ég kynntist þér öðruvísi með því að vera nálægt þér ein í marga daga.

Jólin 2006 þegar ég og Magnús unnum í Bónus í Hveragerði varst þú svo stolt af nöfnu þinni, ég vann alla daga í búðinni, kom þá heim að kvöldi til og bakaði margar sortir af smákökum fram á nótt og fór svo til vinnu aftur daginn eftir, því eins og ég lærði það, þá eru ekki almennileg jól nema að hafa nokkrar sortir af jólasmákökum.

Þú spurðir mig nú nokkrum sinnum um barneignir, eða öllu frekar ýjaðir að þeim. Eins og þegar ég hringdi og óskaði þér til hamingju með að Styrmir og Telma ættu von á barni í vor, og þú sagðir mér að þú hefðir vitað af þessu barni. Þig hefði dreymt svo fallega gullkeðju, nema það að þú hélst að ég ætti von á barni. Ætli ég hafi ekki í þínum huga bara verið að detta af barneignaraldri miðað við mömmu og Magnús.

Ég þakka fyrir allt,

öll þessu góðu ár sem þú gafst mér, amma mín.

Guð blessi þig.

Þín

Þórhildur Helga Sólbjörnsdóttir.

Svo fljótt, svo hljótt

engill kom og tók þig skjótt...

Það eru til orð um allt en að sumu kem ég ekki orði...

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til elsku fjölskyldu, vina og allra aðstandenda Þórhildar Gísladóttur, ömmu og langömmu.

Þetta er virkilega erfiður tími núna og gott að vita að þið eigið öll góða að. Okkur Mark og Roxane tekur ótrúlega sárt að geta ekki verið í faðmi fjölskyldunnar á þessum sorgarstundum. Knúsum hvert annað, tökum okkur tíma til að syrgja, finnum svo vonandi styrk til þess að halda áfram.

Í gær kveikti ég á kerti og fór með bæn, bað Guð að styrkja ykkur á þessari erfiðu stund, bað um fyrirgefningu að hafa ekki getað kvatt ömmu, tekið um lófann hennar, kysst hana bless. Vonandi líður henni vel núna. Guð geymi hana.

Guð veri með ykkur öllum,

Sylvia, Mark og Roxane.