Sigurlaug Reynisdóttir fæddist í Borgarnesi 7. júní 1964. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 12. apríl síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju 18. apríl.

Fréttin af andláti mágkonu minnar Sigurlaugar Reynisdóttur kom sem reiðarslag yfir mig og alla mína fjölskyldu þegar hún barst. Konan mín hringdi í mig og færði mér tíðindin. Á svona stundum koma minningarnar hratt upp í hugann, andlit þess látna birtist og sorgin skellur á hjartanu. Tilfinningarnar bera skynsemina ofurliði og góðar minningar verða farvegur fyrir tárin og sorgina.

Ég þekkti Sigurlaugu, eiginkonu Sturlu bróður míns, í nærri 20 ár. Mín fyrstu kynni af henni voru þegar þau voru að skjóta sér saman. Við leigðum saman á Lynghaganum í Reykjavík og þar kom Sturla með hana og kynnti okkur. Ég man að hún var í góðu skapi, brosti og gerði létt grín. Eftir á að hyggja voru öll mín kynni af Sigurlaugu á þann veg, hún var næstum því alltaf í góðu skapi. Þrátt fyrir að veikindi og slys sem hún varð fyrir hafi verið henni sársaukafull þá kvartaði hún aldrei yfir þeim. Sigurlaug var ekki fyrir það að velta sér upp úr því sem miður fór og var ekki nógu gott. Sjálf var hún með allt sitt á hreinu. Hennar heimili ber þess merki að hún var snyrtileg og vildi hafa fallegt í kringum sig. Hún var alltaf boðin og búin til að aðstoða og hafði ríka ábyrgðartilfinningu gagnvart sínum nánustu.

Ég veit að Sturla og Sigurlaug voru náin og ást þeirra var sterk. Fyrir bróður minn og fjölskyldu hans eru þetta erfiðar stundir. Innan fjölskyldunnar var verið að skrifa nýjan kafla og framundan átti að vera tímabil vonar og birtu.

Ég er mjög stoltur af fjölskyldu Sigurlaugar að hafa tekið þá ákvörðun að gefa þeim sem á þurftu að halda líffæri hennar. Það er ljós í myrkri því sem umlykur andlát Sigurlaugar að í dag eru fjórir einstaklingar í Svíþjóð sem eiga líf sitt henni að þakka.

Ég vil koma á framfæri þakklæti til starfsfólks gjörgæsludeildar LSH sem af einstakri alúð aðstoðaði fjölskyldu Sigurlaugar og okkur öll hin. Einnig þakka ég þeim skurðlæknum og aðstoðarfólki sem m.a. kom frá Danmörku og Svíþjóð til að gera líffæragjöfina mögulega. Flestir gera sér ekki í hugarlund þá fagmennsku sem er að baki slíkri vinnu.

Ég votta Sturlu bróður mínum, Erlu Maríu og Jónasi, Svövu Rún, foreldrum Sigurlaugar og öðrum aðstandendum samúð mína.

Eyþór Eðvarðsson.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum

lífsins degi,hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér. (Ingibj. Sig.)

Það er ekki alltaf fyrirséð hvað ævisporin verða mörg hjá hverjum einstaklingi sem lítur dagsins ljós hér á jörðu. Þannig var það með Sigurlaugu svilkonu mína, sem dó aðeins 43 ára gömul. Andlát hennar var ótímabært, hún átti eftir að upplifa svo margt, sjá dætur sínar vaxa úr grasi, eignast barnabörn, ferðast um heiminn, verja meiri tíma með elskulegum eiginmanni sínum Sturlu, láta draumana rætast.

Sumir gera heiminn sérstakan bara með því að vera í honum og það á svo sannarlega við um Sigurlaugu. Þegar hún birtist þá fór það aldrei á milli mála að hún væri mætt. Með ljósa hárið, fallega brosið, geislandi augun og skemmtilega húmorinn. Í minningum mínum var hún alltaf hress og kát og sagði sögur. Ég hitti Sigurlaugu í fyrsta sinn haustið 1991 þegar þeir bræðurnir Sturla og Eyþór fóru á skákmót og okkur stelpunum var boðið með. Sigurlaug var í góðu skapi umrætt kvöld, sagði marga brandara og hló dátt. Ég mun muna eftir henni þannig, hlæjandi og kátri.

Sigurlaug var með eindæmum lífsglöð, full orku og krafts. Hún naut þess að vera á hreyfingu, naut þess að hafa eitthvað að sýsla með, hún var alltaf með eitthvað á prjónunum. Hún var ein af þeim sem ekki aðeins gera áætlanir, heldur framkvæma þær líka. Henni fannst ekkert skemmtilegra en að leggjast í ferðalög, borða góðan mat í faðmi fjölskyldu og vina og eiga skemmtilegar stundir í góðum félagsskap. Hún var mikill fagurkeri, alltaf vel til höfð, glæsileg og fín í alla staði. Hún lagði sömuleiðis mikinn metnað í heimilið þeirra Sturlu í Njarðvík og sumarbústaðinn á Bifröst, þennan dásamlega sælureit sem þau byggðu frá grunni. Fyrsta heimsókn mín til Sturlu og Sigurlaugar á Bifröst, þar sem Sturla var við nám, verður mér alltaf minnisstæð þar sem við kærustuparið vorum nýbúin að komast að því að ég væri með barn undir belti og við vorum enn að jafna okkur á gleðitíðindunum. Þau hjónin fóru með okkur að fossinum Glanna og í Paradísarlautina og grilluðu dýrindis mat handa okkur.

Ég er mjög stolt af þeirri ákvörðun Sturlu og nánustu að veita samþykki fyrir líffæragjöf. Þar með mun Silla lifa áfram í öðrum. Það er frábær tilhugsun að vita það að fjórir einstaklingar í Svíþjóð eiga henni Sillu líf sitt að þakka. Ég held að þetta sé það sem hún hefði viljað. Því hún hugsaði svo vel um alla í kringum sig. Alltaf vildi hún allt fyrir alla gera. Þetta er stærsta gjöfin sem hún gat gefið öðrum.

Við sem eftir lifum ættum að taka okkur kraft Sillu, lífsgeisla hennar og framkvæmdagleði til fyrirmyndar. Silla kenndi okkur að fanga augnablikið og lifa lífinu til fulls.

Ég votta Sturlu, Erlu Maríu og Jónasi, Svövu Rún, foreldrum og systkinum Sigurlaugar og öllum öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Ingrid Kuhlman.

Dauðinn birtist í svo mörgum ólíkum myndum, stundum kemur hann hægt og nánast falinn eða svo hratt að augað eigi festir. Varla hefðum við getað ímyndað okkur, að eitthvað slíkt myndi henda okkar elskulega frændfólk og vini, rétt um það leyti sem birta tók á ný í hjörtum þeirra. Undirbúningur að ferð til suðlægari landa var kominn á kortið, myndakvöld í uppsiglingu og Sigurlaug ávallt fyrst til að bjóða heim. Hugurinn kominn hálfa leið og draumurinn um ylhýra strönd á haustmánuðum yljaði okkur um hjartaræturnar.

Upp í hugann koma minningar um ættarmót Skjaldartraðar á Snæfellsnesi og víðar þar sem Skjaldartraðarskessurnar okkar Sturlu léku á als oddi, ýmist syngjandi eða malandi fram undir morgun og hver manneskjan þar annarri skemmtilegri. Þorláksmessuskötuboðin á heimili þeirra hjóna ómissandi þáttur í jólahaldinu, opið hús um áramót til að fagna nýárinu og nú síðast Melahátíðin, sem við hjónin fengum að upplífa með þeim í fyrsta skipti á síðastliðnu ári. Þar ómaði tónn Skjaldartraðar á ný, eins og þeim frænkum var einum lagið.

Nú sitjum við eftir, hnípin á sorgarstundu og endurnærumst af minningunum um elskulega frænku og vinkonu. Missir þeirra er mikill og erfiðasta raun. Ég vona að bráðlega birti á ný og enda með þeim huggunarorðum að maður skuli hugleiða áfram tilvist sálarinnar og tilvistina í Paradís.

Valur Ketilsson,

Hjördís Hilmarsdóttir.

Elsku Sigurlaug frænka. Á stundu sem þessari er svo margt sem kemur upp í hugann. Maður verður sár og reiður og finnst ósanngjarnt að lífið taki þá sem manni þykir vænt um í burtu frá sér en um leið er það áskorun um að gera eins vel og maður getur. Það eru margar yndislegar og góðar minningar sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa um þig. Brosandi, grínandi og lífsglöð fjölskyldukona sem vissir ekkert skemmtilegra en að hitta og vera með fjölskyldunni og litlu krílunum sem fóru að safnast í kringum þig. Þú varst æðisleg ömmusystir og gast vart beðið eftir því að verða amma sjálf. Eftir að þú kvaddir okkur hef ég stundum séð eitthvað í Jómundi Atla og frændum hans sem minnir á þig og þá veit ég að þú ert að kíkja á kútana og láta vita af þér. Það verður vinna að lækna sárið sem hefur myndast í hjörtum okkar en einhvern veginn veit ég að þú munt senda okkur styrk til að takast á við nýtt líf án þín. Minning þín mun ávallt lifa og allar stundirnar með þér geymum við í hjörtum okkar. Þú ert og verður engillinn okkar eins og Svava Rún segir.

Elsku Sturla, Erla María, Jónas, Svava Rún, fjölskylda og vinir, Guð gefi ykkur styrk og kærleik á þessum erfiðu tímum.

Þín systurdóttir

Laufey, Bjarni og Jómundur Atli.

Nú þegar erfiður vetur er að baki og vorið á næsta leiti kveður sorgin dyra hjá fjölskyldu vinar okkar. Við kynntumst Sigurlaugu fyrst í Bifröst þegar flest okkar voru þar við nám. Í litlum samfélögum eins og í Bifröst myndast sterkur vinskapur á milli fólks. Við höfum fylgst með Sillu og Stulla stíga sín spor saman frá þeim tíma. Þau fóru til Hólmavíkur eftir að skóla lauk og bjuggu þar í nokkur ár og fluttu síðan suður með sjó. Sigurlaug var alla tíð kraftmikil manneskja sem lét hendur standa framúr ermum. Hvort sem hún var að taka slátur eða bóka bókhald var nú ekki mikið mál. Það var græjað á mettíma. Sigurlaug var afar lífsglöð og kraftmikil manneskja sem ekkert hálfkák eða lognmolla var í kringum. Hún var höfðingi heim að sækja og afar bóngóð. Heimilið bar vott um smekkvísi og natni og var mjög notalegt að eiga stundir með þeim þar.

Það er mjög erfitt að skilja þegar ung og hraust eiginkona og móðir er svipt frá fjölskyldu sinni á einu augabragði í blóma lífsins. Við þökkum fyrir samfylgdina með Sigurlaugu en tilveran hefði orðið litlausari án hennar.

Komið er að kveðjustund, elsku Stulli, Erla María og Svava Rún, megi góður guð veita ykkur styrk í ykkar miklu sorg.

Brynja og Þorvaldur,

Helga og Kristinn,

Eiríka og Þórður,

og Theodóra.

Geislandi af brosi með sinn bleika varalit, þannig tók vinkona mín alltaf á móti mér.

Hvoruga okkar hefði grunað að leiðir skildi svo snemma. Innst inni höfum við örugglega haldið að við yrðum eldgamlar saman og gerðum grín hvor að annarri.

Hún, bleika pjattrófan, og ég, ja það er spurning. Nú fæ ég aldrei að vita hvað hún hefði séð út úr því.

Vinátta okkar Sillu hefur staðið lengi en þó svo stutt. Stutt, þar sem leiðir skilur allt of snemma, vinátta hlotnast þeim sem eiga trúnað og traust, vinátta sem er án skilyrða og sjálfsögð á báða bóga. Er hægt að óska sér meira?

Ég velti fyrir mér hvernig fugli sem fellt hefur flugfjaðrirnar líður. Hann veit að síðar vaxa nýjar en hann er ekki eins og hann á að sér um sinn.

Einhvern veginn þannig líður mér við að missa vinkonu sem alltaf hefur borið hag annarra fyrir brjósti bæði nær og fjær.

Við höfum oft hlegið saman að því þegar við rúmlega tvítugar mæður með lítil börn háðum okkar lífsbaráttu fyrir þeirra hönd og hún átti bara eitt fatasett, hvíta skyrtu, svartar stretsbuxur, v-hálsmálspeysu og svört leðurstígvél. Hún á fullu í bílabraski og vinnu, Erla María vældi í mömmu sinni á morgnana þegar hún fór á leikskólann hvort mamma kæmi á sama bílnum að sækja hana í lok dags.

Þarna fór kraftmikil kona sem gerði það sem hún ætlaði sér og það með trukki og dýfu.

Að leiðarlokum vil ég þakka þér, elsku Silla mín, fyrir alla þá gleði og hamingju sem þú hefur veitt mér og mínum því það er engin alveg eins og þú.

Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar og vina sem sárt munu sakna þín.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð

hjartans þakkir fyrir liðna tíð

lifðu sæl á ljóssins friðarströnd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsd. frá Brautarholti)

Þín vinkona,

Hildur.

Elsku Silla okkar.

Við trúum því vart ennþá að þú sért farin. Þegar við setjumst saman „Sillu-klúbburinn“ eins og við köllum okkur eigum við ennþá erfitt með að átta okkur á því að við munum ekki heyra hlátrasköllin þín né sjá ljúfa brosið þitt. Það er ekki að ástæðulausu að hópurinn var skírður í höfuðið á þér Silla okkar því þú varst límið sem hélt okkur saman. Án þín hefði þessi hópur ekki orðið til. Við eigum stórkostlegar minningar, að auki dagbók og ótal myndir sem munu ylja okkur um hjartarætur. Hlátrasköllin og fíflalætin sem einkenna þennan hóp fengu þig í byrjun til að taka andköf, svo mikil dama varst þú. En síðustu ár varst þú orðin ansi frökk og tókst síðustu bústaðarferð okkar með trompi. Textinn sem þú samdir og söngst til okkar var dásamlegur. Hve stolt þú varst og máttir svo sannarlega vera það. Við höfum svo margt fallegt um þig að segja að við vitum varla hvar skal byrja. En þegar við fórum að telja upp hver og ein þá komu þessi orð fyrst upp í hugann:

Falleg – góð – glaðlynd – skvísa - brosmild – mamma – orkumikil – smitandi hlátur – hjálpsöm – traustur vinur – dama – ráðagóð – fyrirmyndarhúsmóðir – ljúf – drifkraftur – skilningsrík – skipulögð – hugljúf – eldhress – bleik.

Elsku besta vinkona, við söknum þín óendanlega mikið. Hópurinn verður aldrei sá sami án þín. Við Sillurnar vitum að þú ert og verður ávallt hluti af okkur. Við elskum þig.

Elsku Sturla, Erla María, Svava Rún og fjölskylda. Megi Guð gefa ykkur von, trú og styrk á þessum erfiðum tímum.

Guðný Ósk, Hafdís, Berglind, Kristín (Krissa), Alda og Guðleif (Gurrý).

Elsku stelpan okkar.

Þér var tamt að nota orðið stelpa, ég á nokkur sms frá þér sem hljóma svona: ertu heima stelpa, eða hringdu í mig stelpa þegar þú getur, síðan broskarl.

Mikið óskaplega getur lífið og tilveran verið fallvölt, óútreiknanleg. Ekki hefði okkur getað órað fyrir þessum slæmu tíðindum þegar Sturla hringdi í okkur sl. föstudag og sagði okkur hvers kyns var. Þið voruð á leiðinni til okkar þá um kvöldið ásamt fleira vinafólki okkar og ætluðum við að gera okkur glaðan dag. Það var ýmislegt sem við brölluðum saman og eigum við margar góðar minningar hvort sem við fórum til útlanda, á námskeið, tónleika, út að borða, ferðalög innanlands eða sóttum ykkur hjónin heim. Við vorum að panta saman ferð fyrir nokkrum dögum til Barbados ásamt hópi af vinafólki okkar sem ætlar að fara í haust þar sem þín verður sárt saknað. Silla okkar alltaf svo kát og hress, alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt og oftar en ekki áttir þú frumkvæðið að einhverju spennandi. Orkan og gleðin sem stafaði frá þér var ótrúleg og mættu margir temja sér lífsgleðina og kraftinn sem geislaði frá þér öllum stundum. Alltaf svo fín og flott til fara og þér var í mun að hugsa vel um fallega heimilið ykkar og sumarbústaðinn. Þú varst svo stolt og ánægð með dætur ykkar Sturlu og talaðir oft um þær, hvað þú værir heppin að eiga þær að og hvað þær væru duglegar að læra og bjarga sér. Kæri Sturla, missir ykkar er mikill og erfiðir tímar framundan hjá ykkur fjölskyldunni. Stórt skarð er höggvið, alltof, alltof snemma. Við biðjum Guð að gefa ykkur styrk til að takast á við sorgina og þökkum góðri stelpu fyrir trausta vináttu sem aldrei bar skugga á.

Helga Steindórsdóttir

Einar Steinþórsson.

Kynni okkar af Sigurlaugu eða Sillu hófust þegar við unnum tvær úr vinkvennahópnum hjá Tollvörugeymslunni árið 1987. Við tókum strax eftir þessari hressu og brosmildu stúlku. Á þessum ljúfu árum var vinahópurinn að myndast og féll Silla strax inn í hópinn sem hefur haldist alla tíð síðan.

Silla var að flytja í bæinn með gullmolann sinn hana Erlu Maríu og hefja nýjan kafla í lífi sínu. Henni tókst með dugnaði að skapa þeim mæðgum fallegt heimili sem stóð okkur vinkonunum alltaf opið. Það voru ófáar grillveislurnar, kaffibollarnir og umræðurnar sem þar fóru fram. Skálaheiðin þar sem Silla og Oddný leigðu saman, Interrail-ferð Sillu og Helgu þar sem Kristín var heimsótt í Sviss, mexíkanska partíið, Amsterdam og margt fleira kemur upp í hugann. Þegar við lítum til baka þá voru þetta tímamótin þegar við vorum að taka ákvarðanir um lífið og tilveruna og fóta okkur inn í framtíðina.

Þegar við minnumst Sillu er það fyrst hláturinn og brosið sem kemur fram í hugann.

Silla var alltaf á fleygiferð, alltaf nóg að gera og stundum komin fram úr sjálfri sér. Samt hafði Silla alltaf tíma fyrir okkur. Hún var sú sem var duglegust að hafa samband og ávallt tilbúin að rétta hjálparhönd ef þurfti. Það var aldrei neitt mál hjá Sillu, bara að drífa hlutina af. Svo ótrúlega skipulögð og með húmor fyrir sjálfri sér.

Það var gaman að fylgjast með þegar Silla og Sturla voru í tilhugalífinu á þessum árum. Hamingjan geislaði af þeim og urðu þau fljótt mjög samhent fjölskylda og frábært að eiga þau að.

Það var ógleymanleg ferð sem við „malbikspíurnar“ fórum í þegar við heimsóttum þau hjónakorn til Hólmavíkur eitt sumarið. Eitthvað var Sillu farið að lengja eftir okkur og fannst ferð okkar ganga heldur hægt. Silla hefði sjálfsagt verið helmingi fljótari í förum en við, og lét okkur heyra það. Okkur þótti þó mikið afrek að hafa ratað alla leið til Hólmavíkur og létum stríðni Sillu ekki hafa nein áfhrif á það.

Silla var ótrúlegur dugnaðarforkur. Hún dreif sig í nám í Viðskiptaháskólann á Bifröst og kláraði það með prýði. Hún lét ekki þrálát eftirköst eftir slys sem hún lenti í fyrir nokkrum árum aftra sér frá að ná þessum áfanga og vera fjarri fjölskyldu sinni á þessum tíma. Aldrei kvartaði Silla þrátt fyrir þá erfiðleika enda dyggilega studd af Sturlu og stelpunum.

Silla var mjög stolt af dætrum sínum Erlu Maríu og Svövu Rún og afrekum þeirra. Ekki var hún minna hreykin af tengdasyninum, Jónasi Guðna.

Elsku Silla, takk fyrir hláturinn, brosin og dýrmæta vináttu í gegnum árin.

Elsku Sturla, Erla María og Svava Rún, það var okkur vinkonunum mikils virði að fá að vera viðstaddar bænastundina á Landspítalanum í Fossvogi.

Guð gefi ykkur hugarró og styrk til að takast á við sorgina og missinn.

Ykkar vinkonur,

Oddný, Kristín og Helga Björk.

Haustið 2005 mætti á Bifröst hópur fólks úr öllum áttum. Tilgangurinn var að hefja nám við frumgreinadeild Háskólans á Bifröst. Í þessum stóra hópi var hún Silla og fljótlega kom í ljós að hún var hrókur alls fagnaðar. Má segja að frá fyrstu kynnum var mikill samhugur í hópnum og ljóst er að hennar Sillu verður sárt saknað af þeim sem fengu að kynnast henni. Við sendum samúðarkveðjur til eiginmanns hennar, dætra og annarra aðstandenda.

Við erum þakklát fyrir þann ánægjulega tíma sem við áttum með henni.

Kom, huggari, mig hugga þú.

Kom, huggari, mig hugga þú,

kom, hönd, og bind um sárin,

kom, dögg, og svala sálu nú,

kom, sól, og þerra tárin,

kom, hjartans heilsulind,

kom, heilög fyrirmynd,

kom, ljós, og lýstu mér,

kom, líf, er ævin þver,

kom, eilífð, bak við árin.

(Valdimar Briem.)

Frumgreinardeildin 2005.

Okkur langar með örfáum orðum að minnast vinkonu okkar, Sigurlaugar Reynisdóttur eða Sillu, eins og hún var jafnan nefnd. Námskeiðið Ný og betri, sem haldið var á Spáni haustið 2004, var upphafið að vináttu okkar systra við Sillu. Þar bundumst við vináttuböndum sem áttu eftir að eflast og styrkjast. Sú vinátta var einlæg og einkenndist af hlátri og léttleika.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífs-

ins degi,hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem

gleymist eigi,og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast

þér.(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Við eigum minningar um einstaka vinkonu og þótt söknuður okkar sé mikill þá vitum við að söknuður fjölskyldu hennar er sárari en orð fá lýst. Við viljum að leiðarlokum þakka fyrir að hafa fengið að kynnast Sillu og þeim fallegu en fágætu eiginleikum sem hún bjó yfir.

Sturlu, Erlu Maríu og Svövu Rún, sem og öðrum aðstandendum og vinum, sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Elín og Magnea

Ingimundardætur.

Silla kom mér ætíð fyrir sjónir sem hraust, lífsglöð, kát og orkumikil persóna og þegar mér bárust fréttir um lát hennar þá trúði ég þeim ekki. Já, þetta hlaut að vera einhver misskilningur, en því miður var það ekki! Mér var strax hugsað til dætra hennar tveggja, hennar Svövu Rúnar sem er ennþá á barnsaldri og Erlu Maríu náfrænku minna barna sem er rétt að hefja sína lífsgöngu í byrjun fullorðinsára. Erla María dvaldi oft á okkar heimili í barnæsku í fríum og lék sér þá við frænkur sínar hér og eigum við margar skemtilegar og skondnar minningar um þann tíma. Seinni árin þegar börnin höfðu vaxið úr grasi og samskiptin minnkað þá hitti ég Sillu æ sjaldnar og þá aðallega á förnum vegi en alltaf fann ég fyrir þessari orku og útgeislun sem einkenndi Sillu. Ég kveð Sillu með söknuði! Og við fjölskyldan í Sörlaskjólinu óskum dætrum hennar, Erlu Maríu og Svövu Rún, alls þess styrks sem hægt er að veita þeim á þessum erfiða tíma. Einnig sendum við samúðarkveðjur til Sturlu og annarra aðstandenda Sillu.

Katrín Björnsdóttir.

Það var erfitt símtal sem ég fékk laugardaginn 17. apríl síðastliðinn. Dóttir mín hringdi í mig og tjáði mér að Silla, mamma Erlu Maríu vinkonu sinnar, væri dáin.

Undanfarið hafa komið upp í hugann gamlar og góðar minningar frá Hlíðardalsskóla en þar kynntumst við Silla fyrst veturinn 79-80. Upp úr stendur ferðin okkar saman til USA með kórnum okkar sem var undirbúin allan veturinn með mikilli fjáröflun okkar krakkanna og fjölskyldna okkar. Ferðin okkar ógleymanlega til Vestmannaeyja, þegar við öll héldum að við myndum ekki ná landi. Lentum þar í versta veðri sem gamli Herjólfur hafði lent í. Sú ferð tók okkur meira en helmingi lengri tíma en venjan var og við létum okkur hafa það, sjóveik og slöpp að syngja í kirkjunni um kvöldið.

Silla var einstaklega góður og ábyrgðarfullur nemandi. Hún lét það ekki eftir sér að fara ólesin í skólann. Var með allt sitt á hreinu. Herbergið hennar alltaf svo tandurhreint og hver einasti hlutur á sínum stað. Þannig var bara Silla.

Þegar skóladvöl okkar var á enda á Hlíðó, fórum við öll hvert í sína átt og skildust leiðir okkar Sillu. Okkar leiðir lágu aftur saman þegar við vorum að vinna í sama húsi fyrir einum 10 árum í Keflavík. Það var gaman að rifja upp gömlu góðu dagana, Ameríkuferðina og öll prakkarastrikin sem við gerðum á Hlíðó. Við áttum orðið börn, hún átti tvær dætur og ég eina dóttur og tvo drengi. Ekki vissum við þegar við vorum saman á Hlíðó, eða seinna í Keflavík að dætur okkar Erla María og Kolbrún Ída ættu eftir að verða bestu vinkonur seinna.

Okkur finnst dauðinn eðlilegur, þegar við höfum lifað hátt í 100 ár, lokið okkar verki hér á jörð. Alið upp börnin okkar, komið þeim til manns með eins miklum sóma og við getum. Þá getum við með gleði sagt að okkar tími sé kominn. En okkur er líka óskiljanlegt þegar ungt fólk í blóma lífsins deyr frá ungum börnum sínum og fjölskyldu.

Silla átti yndislegar dætur, eiginmann og tengdason. Fjölskyldu sem saknar nú sárt. Ég bið Guð að varðveita ykkur á erfiðum sorgartímum og bið hann að gefa ykkur kraft til að takast á við sorgina og söknuðinn. Ég veit að ég tala fyrir hönd gamalla skólafélaga frá Hlíðardalsskóla. Læt fylgja hér með ljóð sem við þekkjum öll. Eitt af okkar uppáhaldslögum í gamla kórnum okkar.

Sofðu, unga ástin mín,

– úti regnið grætur.

Mamma geymir gullin þín,

gamla leggi og völuskrín.

Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,

– minn er hugur þungur.

Oft ég svarta sandinn leit

svíða grænan engireit.

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,

seint mun bezt að vakna.

Mæðan kenna mun þér fljótt,

meðan hallar degi skjótt,

að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.

(Jóhann Sigurjónsson.)

Blessuð sé minning Sigurlaugar Reynisdóttur.

Ollý Smáradóttir.

Mikill er harmur þinn minn kæri frændi og skólabróðir. Nú er hún Sigurlaug þín farin. Hver gat sagt fyrir um slíkt.

Okkur hjónunum er efst í huga þakklæti og hlýhugur undanfarinna ára. Vinátta okkar hófst fyrir alvöru þegar við félagarnir sátum Samvinnuháskólann á Bifröst 1990-1992. Þið þá nýbyrjuð ykkur hjónalíf en ég ungur skólapiltur á heimavist. Sú glaðværð og ráðdeild sem einkenndi ykkur þá og hefur gert æ síðan er aðdáunarverð. Fyrir ungan skólapilt var oft gott að leita ráða hjá ykkur. Þau ráð og þægilegt viðmót í bland eru þakkar verð.

Það er nú þannig þegar skólaárum sleppir að tengslin minnka. Við fluttum út á land en héldum samt alltaf ákveðnu sambandi. Auknar samverustundir hin síðari ár hafa styrkt samband okkar enn frekar. Þægileg nánd og vinsamlegt viðmót ykkar beggja kristallaðist í mikilsverðum samverustundum okkar hjónanna nú í nóvember sl. og í febrúar sl.

Glaðværð Sigurlaugar naut sín í góðra vina hópi, rómuð útgeislun hennar í bland við góða kímni setti mark sitt á alla nærstadda.

Kæri frændi, við hjónin sendum þér og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórður og Margrét.

Hún Silla okkar er látin, vinur, nágranni og næstum því frænka eins og hún orðaði það sjálf.

Við fjölskyldan kynntumst þeim hjónum og dætrum þegar þau fluttu í húsið á móti okkur á Melaveginum. Silla var það ár mikið heima, ég var heima með tvíburadætur okkar og mynduðust mikil tengsl okkar á milli. Þær urðu alveg ofboðslega hrifnar af Sillu og hún af þeim og sagðist hún vera næstum því frænka þeirra þegar þær voru eitthvað ósáttar við að það væru ekki blóðtengsl á milli þeirra.

Silla var alltaf í góðu skapi og alveg ákaflega drífandi í öllu sem hún gerði. Á síðasta ári var röðin komin að okkur að halda hina árlegu Melavegshátíð og voru þær ófáar gönguferðirnar hjá okkur sem fóru í að skipuleggja hátíðina. Það var nú ekki mikið mál hjá henni Sillu að halda eina af flottustu götuhátíðum bæjarins. Það var alveg sama hvað vantaði alltaf náði hún að redda öllu og gott betur. Hátíðin tókst svo vel að Silla var farin að hafa áhyggjur af því að við yrðum látnar halda hana aftur í ár.

Því miður var veturinn þannig að gönguferðum okkar fækkaði en við vorum staðráðnar í því að með hækkandi sól færi allt á fullt. Við vorum einnig búnar að mynda bandalag eða grannavaktina eins og við kölluðum það og vöktuðum götuna og húsin okkar þegar á þurfti að halda. Hún var besti nágranni sem hægt var að óska sér. Mikið ofboðslega eigum við eftir að sakna hennar mikið.

Elsku Sturla, Svava Rún, Erla María og Jónas, missir ykkar er mikill en sá tími kemur að þær minningar sem fá ykkur til að gráta í dag munu síðar kalla fram bros og hlýju.

Ingibjörg, Jón Júlíus og börn.