Sigurjón Daði Óskarsson fæddist í Vestmannaeyjum 11. maí 1986. Hann lést af slysförum 8. apríl síðastliðinn og fór útför hans fram frá Seljakirkju 18. apríl.

Við vissum eiginlega ekki hvað við áttum að segja eða hvernig við áttum að bera okkur að, þegar við fengum að heyra að þú værir farinn frá okkur. Það tók okkur langan tíma að átta okkur á því að þetta væri satt.

Þú varst með allt svo tipp topp í öllu sem þú gerðir og sérstaklega í kringum bílana, þú varst ekkert að klikka á smáatriðunum. Það var alveg sama hvort við tölum um skiptilykilinn eða bónklútinn þú varst jafn fær á hvoru sviðinu fyrir sig.

Það eru margar minningar sem fara í gegnum hugann á okkur þegar við hugsum til baka. Allar eru þær góðar því þú varst tryggur og trúr öllum í kringum þig og varst tilbúinn að hjálpa til ef á þurfti að halda.

Þegar maður kom kannski með bílinn sinn stífbónaðan og vel sáttur með kaggann þá var það fyrsta sem þú sagðir: „Hvað segirðu, á ekki að fara að þrífa fjósið?“

Hann var ekki alveg nógu sáttur þegar við vorum með mixreddingar á bílunum okkar með teipi eða öðru slíku. Þá var hann mættur með lóðboltann eða skrúfu til að gera við þetta almennilega, hann eyddi alltaf korteri eða hálftíma auka, ef þess þurfti, til að hann væri sáttur.

Það er gríðarlega erfitt að missa góðan vin. Minningin er það sem heldur okkur gangandi í gegnum þessa erfiðu tíma. Guð geymi þig og vonum við að þú eigir eftir að hafa það gott þarna uppi.

Guð veri með þér elsku vinur og vaki yfir litlu dóttur þinni, foreldrum og systrum sem eiga um sárt að binda.

Þínir vinir,

Andri, Elvar, Ómar, Þorsteinn, Birgir, Hafsteinn og Kristján.

Kæri vinur, núna ertu farinn frá okkur og maður er ekki enn farinn að átta sig á því. Við erum búnir að þekkjast í mörg ár og höfum upplifað margt saman. Við áttum svo margar fíflalegar stundir sem ég mun aldrei gleyma og ekki má gleyma grettunni góðu sem fékk þig alltaf til að hlæja. En Sigurjón minn, ég mun aldrei gleyma þér. Ég á alveg ómetanlegar minningar um okkur saman sem ég mun geyma í hjarta mér alla ævi og ég veit að þegar minn dagur kemur munt þú taka vel á móti mér. Minning þín lifir alltaf hjá mér.

Þinn vinur,

Birgir.

Kveðjustundin var ótímabær. Sigurjón Daði var rétt að leggja á lífsbrautina eins og við. Minningar okkar tengjast bernskunni og unglingsárunum. Við gengum til móts við nýjan heim og nýja lífssýn. Þar var margt að læra, margt að varast og mikils að njóta.

Þegar við komum saman að minnast hans voru minningarnar bjartar og ánægjulegar. Þeim fylgdu bros og hlátrar þrátt fyrir alvarleika stundarinnar. Það segir meira en flest orð.

Þó að okkar kynslóð sé enn ekki farin að setja mark sitt á þjóðlífið svo eftir sé tekið þá er víst að minningin um Sigurjón Daða mun fylgja okkur meðvitað og ómeðvitað. Við áttuðum okkur skyndilega á því hversu brothætt lífið er og hversu lítið má út af bera. Veikindi, slys eða ógætileg handfjötlun fjöreggsins okkar geta breytt öllu í einu vetfangi. Sigurjón Daði er horfinn okkur í þessum heimi. En líf hans og minningin um hann hafa kennt okkur að virða það líf sem okkur er gefið og virða gjafir þess. Virðing okkar og ást á lífinu býður okkur að heiðra minningu hans og lifa góðu og gagnsömu lífi.

Svo er því farið;

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn látni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson.)

Sigurjón Daði var lífsglaður og kátur, ögn stríðinn en mátti þó ekkert aumt sjá. Hann var duglegur og vandvirkur í leik og starfi, myndarlegur, sérlega snyrtilegur og hvers manns hugljúfi. Stelpurnar í bekknum eru sammála um að hann hafi verið algjör hjartaknúsari. Hann var vinamargur – vinur allra – og sameinaði okkur. Það er skarð fyrir skildi, en minningin blikar skær.

Við biðjum guð að styrkja fjölskyldu hans, foreldrana, litlu telpuna hans, Viktoríu Von og móður hennar. Varðveitt sé minning hans. Blessuð sé minning hans.

Bekkjarfélagar

í 10. HH Seljaskóla.