LÚÐVÍK Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði bregst við ábendingum mínum og uppbyggilegri gagnrýni á fjármálastjórn Hafnarfjarðar með reiðilestri og aðdróttunum í minn garð á síðum Morgunblaðsins 29. apríl.
Lúðvík segir meðal annars í grein sinni: „Það er kostur þegar bæjarstjórnin er öll samstiga og sammála og gætir hagsmuna Hafnfirðinga í hvívetna.“ Aðalatriðið er vitanlega að gæta hagsmuna Hafnfirðinga og það tel ég mig gera best með því að veita meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar aðhald í fjármálastjórninni.
Í árlegri úttekt og einkunnargjöf tímaritsins Vísbendingar á fjármálum sveitafélaga lenti Hafnarfjörður í 37. sæti af 38 sveitafélögum. Er hagsmunum Hafnfirðinga best gætt með því að vera „samstiga og sammála“ við slíkar kringumstæður?
Hafnarfjarðarbær samþykkti fjárhagsáætlun fyrir þremur mánuðum. Þar var ekki gert ráð fyrir að bærinn þyrfti að taka lán að upphæð þrír milljarðar króna. Þetta eru staðreyndir málsins. Þegar bærinn neyðist til að taka þetta lán reynir bæjarstjórinn að snúa því upp í sigur því kjörin hafi verið svo hagstæð að hans mati.
Það sem ég leyfi mér að benda á, er að hagkvæmara hefði verið að fara að tillögu okkar Sjálfstæðismanna frá 4. september síðastliðnum og selja hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja. Þá hefði ekki verið þörf á neinu láni, þvert á móti hefði verið hægt að greiða niður erlendar skuldir.
En bæjarstjórinn og meirihluti Samfylkingarinnar virtist ekki geta tekið ákvörðun um söluna eins og forráðamenn nágrannasveitafélaganna, það varð bænum til tjóns. Rétt eins og bæjarstjórinn þorði ekki að gefa upp afstöðu sína til stækkunar álversins, sem hann hafði þó sjálfur samið um. Það er mat flestra stjórnmálaskýrenda að Hafnfirðingar hafi orðið af stækkun álversins vegna þess að bæjarstjórinn treysti sér ekki til að styðja samninginn sem hann hafði gert við Alcan.
Þetta er það sem ég kalla ákvörðunarfælni. Lúðvík bregst við með því að saka mig um ráðleysi og upphrópanir. Gott og vel Lúðvík, sýndu að ég hafi rangt fyrir mér um ákvarðanafælni þína, hver var þín persónulega skoðun á stækkun álversins í Straumsvík?
bæjarfulltrúi í Hafnarfirði