Í tilefni þess að öld er nú frá fæðingu föður míns – Eyjólfs Þorgilssonar – langar mig að minnast hans nokkrum orðum.
Hann var fæddur 28. apríl 1908 í Hamrakoti í landi Fuglavíkur á Miðnesi. Foreldrar hans voru Þorgils Árnason sjómaður og kona hans Unnur Sigurðardóttir húsfreyja sem síðast bjuggu á Þórshamri í Sandgerði. Þórshamar er tómthús úr landi Landakots, en Landakot var ein af hjáleigunum frá Sandgerði.
Þorgils og Unnur eignuðust 12 börn á 22 árum, og þar af komust 10 á legg, 4 bræður og 6 systur. Systkinin frá Þórshamri voru samhent alla tíð. Nú lifir aðeins Unnur Þóra ljósmóðir, 88 ára.
Hann bar nafn Eyjólfs Jóhannssonar, skipstjóra í Sandgerði, en Eyjólfur skipstjóri og Þorgils á Þórshamri voru aldavinir. Pabbi var snemma fjörmikill og glaðsinna, lipur til allra snúninga og viljugur til vinnu þegar á unglingsaldri. Vinna barna og unglinga í Sandgerði á árum áður fólst í því að gera þorskhausa að mat. Það var gert með því að breiða þá til þerris og taka síðan saman. Duglegir krakkar byrjuðu oft aðeins 7 ára gamlir í þess konar sumarvinnu.
Vorið 1927 lést Þorgils afi á Þórshamri úr lungnabólgu aðeins 48 ára gamall. Á þeim árum voru engin lyf gegn lungnabólgu. Oft voru það hraustir menn á besta aldri sem urðu henni að bráð. Á dánarbeði bað Þorgils afi pabba, elsta son sinn, að hjálpa móður sinni að halda fjölskyldunni saman. Yngsta barnið, Ásdís, var þá aðeins 6 mánaða. Pabbi brást ekki. Hann og elstu systkinin hlífðu sér hvergi við að afla tekna fyrir heimilið undir forystu Unnar ömmu. Gamli bærinn á Þórshamri var lítill fyrir þessa stóru fjölskyldu. Brýn þörf var á að byggja nýtt hús, en fátækt hamlaði.
Unnur amma og elstu börnin þekktu einnig þá tíma frá fyrri árum að matur gat verið af skornum skammti. Þau minntust alla ævi hvað rauðmaginn var sætur biti í munni þegar hann fór að veiðast á vorin.
Pabbi og Helgi, bróðir hans, fóru til sjós. Vertíðina 1929 voru þeir á Skírni frá Akranesi, sem var gerður út frá Sandgerði. Skírnir var aflaskip. Hlutur þeirra bræðra gerði þeim kleift að kosta smíði á nýju húsi á Þórshamri. Byggingu þess lauk skömmu fyrir heimskreppuna miklu. Yfirsmiður var Ingimundur Guðjónsson á Garðsstöðum í Garði.
Pabbi stundaði sjó í áratugi. Hann aflaði sér skipsstjórnarréttinda, en var oftast stýrimaður eða bátsmaður. Það hentaði vel samviskusemi hans og skyldurækni. Einnig var faðir minn afburðanetamaður. Hann var í fyrstu áhöfn togarans Ingólfs Arnarsonar frá Reykjavík. Ingólfur Arnarson var fyrsti nýsköpunartogari Íslendinga, einstak afla- og happaskip, einn af mörgum togurum sem Íslendingar létu smíða fyrir sig í Bretlandi eftir seinni heimsstyrjöldina.
Faðir minn kvæntist 1942, móður minni Kristínu Gunnlaugsdóttur (1911–1993) frá Siglufirði. Dóttir þeirra hjóna er Margrét Ólöf, á Siglufirði, gift Ómari Sveinssyni. Árið 1965 eignaðist ég soninn Guðbjart sem var mikill gleðigjafi afa síns og ömmu og voru ófáar ferðirnar sem afi hans fór með hann niður að höfn, og svo var auðvitað komið við í Kaffivagninum að fá sér kleinu, mikið hafði hann pabbi mikla gleði af drengnum, sem nú er giftur Jóhönnu Hrafnkelsdóttur, og eiga þau börnin Daníel, Hrafnhildi og Anton Vilhelm.
Heimili foreldra minna stóð fyrst í Reykjavík en síðar lengi Grundargötu 10 á Siglufirði. Frá Siglufirði voru gerðir út togararnir Hafliði og Elliði. Pabbi var lengi á Elliða. Síðustu árin á Siglufirði fór hann nokkrar vetrarvertíðar suður til Vestmannaeyja og vann á netaverkstæði Ingólfs Theódórssonar frá Siglufirði.
Foreldrar mínir fluttu aftur til Reykjavíkur sumarið 1965. Hann fékk vinnu á netastofu Hampiðjunnar í Bolholti. Þar vann hann óslitið fram í nóvember 1988.
Í stjórnmálum var pabbi liðsmaður róttækrar jafnaðarstefnu, sem hann reyndi að framfylgja í verki. Í lífinu gerði hann nefnilega fyrst og fremst kröfur til sjálfs sín og var einstaklega nægjusamur í gömlum stíl og breytir þar engu, að hann var töluverður neftóbaksmaður og hafði gaman af að lyfta glasi í góðum vinahópi.
Pabbi var lengi heilsugóður og hélt sér vel, þrátt fyrir langan vinnudag áratugum saman. Aðeins var það kransæðarstífla, sem háði honum síðustu árin. Hann andaðist eftir stutta legu á Landspítalanum 21. janúar 1989. Banamein hans var heilablóðfall.
Foreldrar mínir hvíla í kirkjugarðinum á Siglufirði. Guð blessi minningu þeirra.
Margrét Ólöf Eyjólfsdóttir.