ÞAÐ voru Framarar sem komu með hugmyndina að keppa um Íslandsbikar og var ákveðið að fá bikar frá Þýskalandi. Friðþjófur Thorsteinsson sagði svo frá í 50 ára afmælisblaði Fram að eftir að Fram hafði lagt KR að velli í fyrsta opinbera kappleiknum 1911 hefðu Framarar gengist upp við þann sigur – og kom brátt fram tillaga á fundi í Fram að nauðsynlegt væri að keppa um bikar á Íslandi að erlendum sið. „Hófum við þá sníkjur til að festa kaup á bikar frá Þýskalandi sem kostaði, að mig minnir, hvorki meira né minna en 85 krónur. Gekk allvel að safna þeirri upphæð nema hvað síðasti hjallinn reyndist örðugastur. Þegar allir höfðu lagt af mörkum hvað þeir gátu vantaði 1,75 krónur. Þá var gripið til að safna handbærri smámynt, allt niður í einseyringa, svo að við gátum fest kaup á gripnum.
Var samin reglugerð um að Íslandsbikarinn ynnist aldrei til eignar og ekki mætti breyta reglunum nema með samþykki Fram.“