Næsta vika verður mikil fjallavika hjá Ferðafélagi Íslands sem býður upp á fjallgöngur árla morguns á hverjum virkum morgni í næstu viku. Leiðsögumaður verður Páll Ásgeir Ásgeirsson.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Ferðafélag Íslands býður upp á léttar fjallgöngur að morgni til frá mánudegi til föstudags í næstu viku. Þátttaka í göngunum er ókeypis og öllum opin, og verður farið á einkabílum frá húsnæði Ferðafélagsins við Mörkina 1 klukkan 6 alla morgnana.

„Að ganga upp á fjöll á morgnana er eins og að taka stóran skammt af vítamíni,“ segir Páll Ásgeir Ásgeirsson sem verður leiðsögumaður í morgungöngunum. „Það á ekki síst við á vorin þegar bjart er orðið. Töfrar náttúrunnar á þessum tíma dags eru ótrúlegir og ég geri sjálfur mikið af því að vakna snemma á morgnana og fara út að skokka eða ganga.“

Byrjendur og lengra komnir

Eins og fyrr segir verður þátttaka í fjallgöngunum öllum opin. Fjöllin eru öll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og að sögn Páls Ásgeirs ættu byrjendur jafnt sem lengra komnir að ráða við þau. „Það er heldur engin skylda að mæta í allar fimm göngurnar. Fólk getur látið sér nægja að mæta í eina og sjá svo til.“

Morgunleikfimi

Í hverri gönguferð verður sérstakur gestur sem kemur með innlegg af einhverju tagi til ferðarinnar. „Fyrsta morguninn, mánudagsmorguninn 5. maí, ætlar sjálfur Valdimar Örnólfsson að stjórna morgunleikfimi á bílastæðinu við Kaldársel. Margir muna einmitt eftir honum frá því að hann stjórnaði morgunleikfimi í útvarpinu hér á árum áður,“ segir Páll Ásgeir.

Þar sem ekki er nauðsynlegt að skrá sig í ferðirnar segist hann ekki hafa hugmynd um hversu margir muni mæta. „Þeir skiptu hundruðum sem fóru í göngurnar í fyrra og þeim hefur farið fjölgandi með árunum,“ segir hann að lokum.

Í hnotskurn
Gengið verður upp á Helgafell í Hafnarfirði, Keili, Vífilsfell, Helgafell ofan Mosfellsbæjar og Úlfarsfell, í þessari röð. Göngurnar hefjast snemma til þess að göngufólk geti mætt til vinnu í tæka tíð að þeim loknum. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Ferðafélagsins á fi.is.