NIÐURSTÖÐUR DNA-rannsókna í Bandaríkjunum á beinaleifum sem fundust skammt frá Jekaterínbúrg í Rússlandi í fyrra sýna að beinin eru úr Alexei krónprinsi og systur hans Maríu. Héraðsstjórinn í Sverdlovsk, Edvard Rossel, skýrði frá þessu í gær.

NIÐURSTÖÐUR DNA-rannsókna í Bandaríkjunum á beinaleifum sem fundust skammt frá Jekaterínbúrg í Rússlandi í fyrra sýna að beinin eru úr Alexei krónprinsi og systur hans Maríu. Héraðsstjórinn í Sverdlovsk, Edvard Rossel, skýrði frá þessu í gær.

Síðasti keisari Rússlands, Nikulás annar, eiginkona hans, börn og þjónustufólk, voru myrt af bolsévikum árið 1918. Rossel sagði að nú væri búið að finna bein allra úr fjölskyldunni en áratugum saman hafa verið á kreiki sögusagnir um að eitthvert barna keisarans hafi komist lífs af. „Við erum nú búin að finna alla fjölskylduna,“ sagði Rossel.

Beinin fundust eftir hrun Sovétríkjanna 1991. Þau voru jarðsett í dómkirkju keisaranna í Pétursborg árið 1998 og rússneska rétttrúnaðarkirkjan tók Nikulás og fjölskylduna í heilagra manna tölu árið 2000. Eftir sem áður voru þó efasemdir um að beinin væru raunverulega af fjölskyldunni og ljóst að bein Alexeis og Maríu vantaði. Bein þeirra fundust loks 2007 og nú er búið að staðfesta að um réttu beinin sé að ræða.