ÚTHERJI settist nýlega niður með fjölskyldunni og spilaði hið sígilda viðskiptaspil Matador, þótt nafnið sé nú orðið amerískara. Eins og alltaf þegar sest er við spil af þessu tagi þurfa spilarar að ákveða hernaðaráætlun sína, þ.e.

ÚTHERJI settist nýlega niður með fjölskyldunni og spilaði hið sígilda viðskiptaspil Matador, þótt nafnið sé nú orðið amerískara. Eins og alltaf þegar sest er við spil af þessu tagi þurfa spilarar að ákveða hernaðaráætlun sína, þ.e. hvernig þeir hyggjast spila spilið til þess að standa uppi sem sigurvegarar.

Að þessu sinni tók Útherji þann pólinn í hæðina að spila eins og íslenskur útrásarvíkingur hefði gert, þ.e. hann nýtti hvert tækifæri til þess að kaupa og gilti þá einu hvort um var að ræða götur, hús eða hótel. Sömuleiðis var Útherji í hlutverki bankastjóra og því var það hans fyrsta verkefni að koma sér upp lánalínu í bankanum enda var sú ákvörðun tekin strax í upphafi af öllum spilurum að bankinn skyldi rekinn með arðsemi að leiðarljósi. Því var hægt að fá lán í bankanum en að sama skapi tók bankinn lítils háttar þóknun fyrir öll viðvik og ekki má gleyma verðbótunum.

Aftur að áætlun Útherja. Hún gekk eins og í sögu. Fyrst um sinn var hann reyndar orðinn frekar skuldsettur en bætti það upp með eignum, því eins og allir vita er allt í lagi að vera skuldsettur ef maður getur platað alla til þess að telja eignina að baki skuldinni nógu verðháa. Síðan tóku tekjurnar að skila sér enda komust andstæðingarnir ekki hjá því að heimsækja hótelið á Austurstræti og þegar upp var staðið var Útherji langríkastur. Lærdómurinn af þessu er sá að íslenskir útrásarvíkingar eiga að halda sínu striki og vonast til þess að einhver lendi á götunum þeirra.