Sigríður Sía Jónsdóttir
Sigríður Sía Jónsdóttir
Sigríður Sía Jónsdóttir skrifar um tilfærslu starfa út á land: "Við stofnun TR var enn byggð á Hornströndum og í Aðalvík og óhugsandi að landsbyggðin reri einhvern tímann lífróður í álverum til að fara ekki í eyði."

Fyrir stuttu átti ég erindi í afgreiðslu TR hér á Akureyri. Þar komst ég að því að „þeir í Reykjavík“ sjá nú einir um allar endurgreiðslur. Þegar ég setti upp undrunarsvip, sagði starfsmaðurinn mér að stafsfólk TR í Reykjavík sæi nú líka eitt um að útbúa afsláttarskírteinin en áður voru þau gerð hér á Akureyri og sjálfsagt hjá í öllum umboðsmönnum TR um allt land. Eiga þjónustuútibú hjá umboðsmönnum eftir að vera bara póststöðvar fyrir TR í Reykjavík? Það hlýtur að seinka afgreiðslu á afsláttarkortum að senda allar beiðnir alls staðar af landinu suður. Mjög trúlega hefur orðið að bæta við starfsmanni eða jafnvel starfsmönnum í Reykjavík til að tryggja eðlilegan afgreiðslutíma á afsláttarkortum, fyrir alla landsmenn!

Sama kvöld og ég fræddist um skipulagið hjá TR var fundur á Húsavík það sem rætt var um álver á Bakka. Ekkert virðist komast að nema að reisa þar álver, „mál málanna“ segir sveitarstjórinn. Er enginn annar leikur mögulegur í stöðunni? Jú, hví ekki að flytja TR norður til Húsavíkur. Þá mundi nú fyrst þetta fallega byggðarlag blómstra og þyrfti ekki álver til að bjarga byggðinni. Hjá TR í Reykjavík vinna um 200 starfsmenn (upplýsingar af www.tr.is). Auðvitað yrðu nokkrir að vera eftir í nýja útibúinu í Reykjavík, a.m.k. þeir sem starfa í afgreiðslunni á 1. hæðinni og taka við gögnum frá Reykvíkingum. Þeir mundu svo senda gögnin til TR á Húsavík.

Á heimasíðu TR má lesa eftirfarandi: 1) Hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna TR hefur á 15 árum hækkað úr tæpum 20% í nærri 50%. 2) Hver ráðning er sjálfstætt verkefni sem hefst á að skilgreina starfið og hæfniskröfur þar að lútandi eins og starfsreynslu og menntun. 3) Við veljum fólk sem nýtist best hverju sinni miðað við þær kröfur sem starfið felur í sér. 4) Hækkað menntunarstig starfsmanna Tryggingastofnunar felur í sér meðvitaða tilraun til að mæta síauknum kröfum og flóknari verkefnum.

Húsvíkingar verða ekki í vandræðum með að standa undir þessum kröfum um starfsfólk! Svo má alltaf fá nokkra annars staðar af landinu til að fylla í skörð þeirra sem eru átthagafjötraðir í Reykjavík og geta ekki hugsað sér að takast á við þessar jákvæðu breytingar sem flutningur til Húsavíkur væri. Ríkið má reyndar búast við að þurfa að ráða nokkuð marga nýja starfsmenn til TR því eftir reynsluna og lætin fyrir nokkrum árum þegar Landmælingar Íslands fluttu upp á Akranes, þá er Húsavík sjálfsagt „hálfa leið til tunglsins“ í huga Reykvíkinga. En þegar TR flytur til Húsavíkur, hlýtur Flugfélag Íslands að taka aftur upp áætlunarflug þangað og rökin með því að flugvöllurinn verði látinn í friði í Vatnsmýrinni fengju bráðnauðsynlegan viðbótarstyrk.

Ég hef sjálf nokkra reynslu af samskiptum við TR sem heilbrigðisstarfsmaður. Sem ljósmóðir tek ég að mér heimaþjónustu í sængurlegu samkvæmt samningi við TR. Ég þarf hins vegar ekki að fara persónulega í aðalstöðvar TR í Reykjavík með skýrslu og reikninga, þetta fer allt með pósti. Samkvæmt mínum heimildum er sama fyrirkomulagið hjá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Á frábærri heimasíðu TR, fáum við heilbrigðisstarfsmenn, öll eyðublöð sem við þurfum. Innan TR er m.a. starfandi samninganefnd og auðvitað þarf hún að vera eftir í Reykjavík því þeir heilbrigðisstarfsmenn sem þurfa að semja við TR, starfa jú flestir í Reykjavík.

En af hverju er TR í Reykjavík? er ekki skýringin bara hefðir og venjur, allar stofnanir ríkisins voru jú og eru að mestu einfaldlega settar niður þar. Þegar TR var stofnuð var enn byggð á Hornströndum, Aðalvík og jafnvel í Fjörðum og Héðinsfirði. Já, þetta er alveg rétt, þá var seinni heimsstyrjöldin eftir og engum datt netið í hug hvað þá að öll landsbyggðin ætti eftir að róa lífróður í álverum til í að bjarga sér frá því að lenda í eyði.

Það er að sjálfsögðu þjóðhagslega hagkvæmara að við séum „öll“ – þessa fáeinu hræður – á sama stað, í Reykjavík. Þó að stjórnmálamenn og ráðamenn tali fjálglega um styrkingu landsbyggðarinnar og flutning verkefna út á land er erfitt að trúa því að þeir meini það, svo lítið er um efndir. Að vísu var fæðingarorlofið flutt frá TR og yfir til Vinnumálastofnunar og alla leið til Hvammstanga. Hefur sú breyting og flutningur ekki gefið góða raun?

Ef ríkið treystir sér ekki í það stóra verkefni að flytja alla TR til Húsavíkur er tilvalið að flytja hluta starfseminnar til Húsavíkur eða t.d. hingað til Akureyrar. Á Húsavík væri tilvalið að hafa deild sem sér um endurgreiðslu og útgáfu allra afsláttarskírteina og evrópsku sjúkratryggingaskírteinin en hér á Akureyri væri tilvalið að hafa deild sem sér um endurgreiðslu til heilbrigðisstarfsmanna.

Óskir og vonir manna á Húsavík eru þær að álverið á Bakka verði komið í fulla vinnslu eftir 7 ár, árið 2015. Er það ekki alveg innan þeirra marka sem þarf til að flytja TR til Húsavíkur? Þessi tillaga mín er yfirgripsmikið verkefni, ekki síður en bygging álvers en mjög gerlegt og þjóðhagslega hagkvæmt fyrir þjóðfélagið og þarfnast tæplegast nýrra virkjana!

Höfundur er ljósmóðir og Reykvíkingur sem býr á Akureyri.

Höf.: Sigríður Sía Jónsdóttir