Ásta Ingvarsdóttir fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1955. Hún andaðist á heimili sínu í Reykjavík 13. mars síðastliðinn og var jarðsungin frá Bústaðakirkju 25. mars.
Ásta Ingvarsdóttir fæddist í Reykjavík 4. nóvember 1955. Hún andaðist á heimili sínu í Reykjavík 13. mars síðastliðinn og var jarðsungin frá Bústaðakirkju 25. mars.

Það eru páskar og sól hækkar á lofti. Fyrstu fíflarnir springa út undir húsvegg. Lífið heldur áfram en Ásta, vinkona okkar til margra ára er látin. Við minnumst hennar og hugurinn reikar til baka, til sumarsins 1970. Fjórar unglingsstúlkur; Ásta, Begga, Eygló og Þóra, voru saman allar helgar og flest kvöld þetta sumar. Það var ýmislegt brallað, pönnukökur bakaðar, föt saumuð og peysur pantaðar hjá prjónakonu, hannaðar af okkur sjálfum. Við vorum unglingar, við vorum áhyggjulausar, við glöddumst yfir sumrinu. Að þessu sumri loknu kom haust og allar fórum við í sitthvern skólann. Þrátt fyrir það slitnaði aldrei sú taug sem tengdi okkur og áttum við ótal góðar stundir saman næstu áratugina. Við giftum okkur, eignuðumst börn og urðum fimmtugar. Vinátta okkar hélst alla tíð og aldrei varð okkur sundurorða.

Ásta greindist með krabbamein fyrir um 20 árum síðan og barðist við sjúkdóminn sem nú hefur lagt hana að velli. Það komu mörg góð ár en síðasta árið fór heilsan að versna all verulega. Aldrei kvartaði Ásta og munum við hana með bros á vör og fallegu bláu augun sín. Við geymum minninguna um hana innra með okkur ásamt minningunum um allar góðu stundirnar okkar saman. Við vottum Binna, Auði, Ingu Lillý og Bjarna okkar innilegustu samúðarkveðjur. Við sendum einnig samúðarkveðjur til Ingvars og Lillýjar, Beggu, Steina, Geirs Arnar og Einars og fjölskyldna þeirra. Þótt Ásta sé látin mun minning hennar lifa.

Þóra og Eygló.