Hver ber ábyrgð? Stjórnarandstöðuþingmenn kölluðu heilbrigðisráðherra til ábyrgðar á Alþingi í gær vegna þess ástands sem upp er komið á Landspítalanum eftir uppsagnir hjúkrunarfræðinga.
Hver ber ábyrgð? Stjórnarandstöðuþingmenn kölluðu heilbrigðisráðherra til ábyrgðar á Alþingi í gær vegna þess ástands sem upp er komið á Landspítalanum eftir uppsagnir hjúkrunarfræðinga. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

„ALLRA leiða er leitað til að ná lausn í deilum skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga og geislafræðinga við stjórnendur Landspítalans og að sama skapi er nauðsynlegt að skipuleggja viðbrögð ef allt fer á versta veg,“ sagði Guðlaugur Þ. Þórðarson heilbrigðisráðherra í utandagskrárumræðum um málefni Landspítalans á Alþingi í gær. Geislafræðingar höfðu þá frestað uppsögnum sínum um einn mánuð og í gærkvöld samþykktu síðan skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðingar að halda áfram störfum eftir að tillögur um nýtt vaktakerfi höfðu verið dregnar til baka.

Guðlaugur áréttaði að deilur um kaup, kjör og vaktafyrirkomulag væru ekki á borði heilbrigðisráðherra en þar hvíldi hins vegar ábyrgðin á heilbrigðisþjónustunni. „Ég legg áherslu á það að hér er ekki um sparnaðarráðstöfun að ræða, heldur fyrst og fremst endurskipulagningu vakta,“ sagði Guðlaugur og ítrekaði að gildistöku nýs vaktafyrirkomulags hefði verið frestað meðan reynt væri að finna nýjar útfærslur í samráði við starfsmenn. Hann hefði sjálfur verið í góðum samskiptum við stjórnendur spítalans og eins átt upplýsandi fund með hjúkrunarfræðingum. „Þær vinna erfið störf og það hefur verið skortur á sérmenntuðu fólki, ekki síst að undanförnu,“ sagði Guðlaugur og bætti við að sumir hjúkrunarfræðingar þyrftu að vinna meira en þeir vildu vegna aðstæðna á deildum. „Við lausn þessarar deilu þarf því að horfa til margra ólíkra þátta í vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga,“ sagði hann.

Lögmætar uppsagnir, ekki aðgerðir

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og málshefjandi, var ekki hrifin af svörum ráðherra og þótti hann firra sig ábyrgð með því að benda á stjórnendur Landspítalans. „Það er alveg ljóst að starfsmennirnir hafa gefist upp á þessu ástandi,“ sagði Siv og henni þóttu undarleg þau skilaboð frá einum stjórnenda Landspítalans að hjúkrunarfræðingarnir ættu að „gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir axla með þessum aðgerðum“. „Þetta eru lögmætar uppsagnir,“ sagði Siv og vildi skýrar yfirlýsingar þannig að hjúkrunarfræðingarnir sæju sér fært að stíga til baka í störf sín.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, gagnrýndi samráðsleysi við hjúkrunarfræðinga og þótti stjórnvöld hafa talað af vankunnáttu um störf þeirra. Þá hefði komið upp úr kafinu í útvarpsviðtali við heilbrigðisráðherra að hann þekkti ekki starfsmannalög nægilega vel. „Hann hafði í sinni hendi að fresta áhrifum uppsagnanna um allt að sex mánuði ef hann hefði haft löngun og dug í sér til að gera það,“ sagði Kolbrún en Guðlaugur kvaðst ekki viss um að það hefði haft góð áhrif auk þess sem það vald væri á hendi forstöðumanna spítalans, ekki heilbrigðisráðherra.