Víkverji er af þeirri kynslóð sem oft er minnst á í samfélaginu þessa dagana. Nefnilega kynslóðinni sem þekkir ekki þrengingar. Það gerir hins vegar móðir Víkverja og hún kenndi honum blessunarlega að spara. Þegar Víkverji var barn gekk hann mest í heimasaumuðum fötum og fékk með sér nesti hvert sem hann fór. Víkverji man eftir að hafa þráð fátt heitar en að fá að kaupa sér langloku í skólanum á unglingsárunum en móðir Víkverja hélt nú ekki. Á heimilinu væri til nóg brauð og ekki kæmi til greina að eyða fúlgu fjár í subbulegar samlokur. Í dag finnst Víkverja tilbúnar langlokur algert óæti og tekur með sér nesti hvert sem hann fer.
Vegna nýtninnar og sparnaðarins sem Víkverji lærði af móður sinni kom aldrei til greina í hans huga að fjármagna neyslu sína með yfirdrætti eða öðru lánsfé. Fyrir vikið stendur Víkverji sæmilega vel að vígi í dag og þarf ekki að örvænta þó að skórinn kreppi að.
Víkverji viðurkennir vel að líklega viti hann ekkert hvað hann er að tala um en hann getur samt ekki að því gert að hugsa með sér að líklega hafi þjóðin bara gott af smá þrengingum. Eyðslu- og neyslufylleríinu er lokið og nú koma timburmenn, sem óhjákvæmilega fylgja fylleríum.
Víkverji hefur verið dálítið lens yfir veðrinu undanfarna daga. Loksins þegar sumarið kom formlega ákvað kuldaboli að minna á sig að nýju og Víkverji hefur því dregið vetrarkápuna sína aftur fram. Víkverji er þó blessunarlega laus við að láta veðrið hafa tilfinnanleg áhrif á geðheilsu sína, enda veit hann sem er að sé eitthvað í þessum heimi sem mannfólkið hefur enga stjórn á, þá er það einmitt veðrið. (Þó að vitanlega takmarki Víkverji mengun af sínum völdum sem mest hann getur til að hita heiminn ekki meira.)
Víkverji spjallaði við einn af rónum bæjarins í vetur, á þeim tíma sem veðrið tók dramatískum breytingum dag frá degi, sem sagði þvoglumæltur og brosandi: „Veðrið er bara alveg eins og ég, alltaf að detta í'ða“. Og svo hlógu þeir saman, Víkverji og róninn.