UPPGJÖR banka á Norðurlöndum vegna fyrsta fjórðungs þessa árs, sem birt hafa verið að undanförnu, hafa almennt verið frekar undir þeim væntingum sem sérfræðingar á fjármálamarkaði höfðu gert til þeirra. Undantekningar eru þó þar á.

UPPGJÖR banka á Norðurlöndum vegna fyrsta fjórðungs þessa árs, sem birt hafa verið að undanförnu, hafa almennt verið frekar undir þeim væntingum sem sérfræðingar á fjármálamarkaði höfðu gert til þeirra. Undantekningar eru þó þar á. Í frétt á fréttavef Bloomberg -fréttaveitunnar segir að erfiðleikarnir á fjármálamörkuðum og húsnæðismarkaði hafi sett strik í reikning bankanna. Hefur hagnaður þeirra að jafnaði dregist saman um 20% á milli ára. Stærsti banki Norðurlanda, sænski bankinn Nordea, er meðal undantekninganna. Þó að hagnaður Nordea hafi verið um 2% minni á fyrsta fjórðungi þessa árs, um 686 milljónir evra, þá var hann þó yfir því sem greiningaraðilar höfðu spáð.

Það sama á ekki við um Danske Bank, því afkoma bankans var undir væntingum og féll gengi hlutabréfa hans um tæp 5% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn í kjölfar birtingar uppgjörsins í fyrradaga. Hagnaður Danske Bank var um þriðjungi lægri á fyrsta fjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra, eða um 2,6 milljarðar danskra króna.

Uppgjör sænska bankans SEB olli einnig vonbrigðum en hagnaðurinn var um 42% minni í ár en í fyrra. Svipaða sögu er að segja af norska bankanum DnB, en hagnaður hans dróst saman um 60% milli ára. Hagnaður danska bankans Jyske Bank jókst hins vegar lítillega.