— 24stundir/Þorkell
Hátíðarhöld í tilefni alþjóðlegs baráttudags verkalýðsins fara fram víða um land í dag. Fundur á Ingólfstorgi Stærstu hátíðarhöldin verða í Reykjavík en safnast verður saman við Hlemm kl. 13.

Hátíðarhöld í tilefni alþjóðlegs baráttudags verkalýðsins fara fram víða um land í dag.

Fundur á Ingólfstorgi

Stærstu hátíðarhöldin verða í Reykjavík en safnast verður saman við Hlemm kl. 13. Gangan leggur af stað um hálftíma síðar og verður gengið undir lúðrablæstri niður Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti og staðnæmst á Ingólfstorgi þar sem útifundur fer fram. Georg Skúlason, formaður Félags íslenskra bókagerðarmanna, flytur ávarp ásamt fleirum Þá mun Gísli Einarsson sjónvarpsmaður fara með gamanmál og hljómsveitin Sprengjuhöllin leika nokkur lög.

Bíósýning í Hafnarfirði

Hátíðarhöld verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði hefjast með því að boðið verður upp á kvikmyndasýningu í Bæjarbíói. Þar verða sýnd brot úr gömlum myndum úr bænum frá árunum 1918 til 1986. Að sýningu lokinni fer kröfuganga frá bíóinu að Hraunseli þar sem hátíðarfundur fer fram. Linda Baldursdóttir, varaformaður Hlífar, flytur ávarp dagsins en einnig verður boðið upp á skemmtiatriði.

Kröfuganga á Akureyri

Á Akureyri safnast göngumenn saman við Alþýðuhúsið kl. 13:30 og leggja síðan af stað í kröfugöngu hálftíma síðar við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar. Að lokinni göngu verður slegið upp hátíðarfundi í Sjallanum þar sem flutt verða ávörp og tónlistarmenn skemmta auk þess sem dregið verður í happdrætti í tilefni dagsins.