Sparnaður Hreiðar Már Sigurðsson sagði að allra leiða yrði leitað til að auka hagræði og draga úr kostnaði, það væri holl æfing fyrir bankann.
Sparnaður Hreiðar Már Sigurðsson sagði að allra leiða yrði leitað til að auka hagræði og draga úr kostnaði, það væri holl æfing fyrir bankann. — Morgunblaðið/Golli
HAGNAÐUR Kaupþings á fyrsta fjórðungi ársins nam 18,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 20,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Gengishagnaður var 9,7 ma.kr., en 30% veiking krónunnar hafði veruleg áhrif. Árið áður var gengishagnaður 13,5 ma.

HAGNAÐUR Kaupþings á fyrsta fjórðungi ársins nam 18,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 20,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Gengishagnaður var 9,7 ma.kr., en 30% veiking krónunnar hafði veruleg áhrif. Árið áður var gengishagnaður 13,5 ma.kr. en á lokafjórðungi 2007 var 12,4 ma.kr. tap. Vaxtatekjur jukust um 31% milli ára, en þóknunartekjur minnkuðu um 28%, samanlagðar voru þær 32,3 ma.kr.

Launakostnaður jókst um 14,8% frá fyrra ári og var 12,1 milljarður króna. Hækkunin skýrist einkum af 16,7% fjölgun starfsmanna bankans. Frá áramótum hefur stöðugildum fækkað um tíu, og launakostnaður dregist saman um 9,5%. Ráðgert er að starfsmönnum fækki á næstu ársfjórðungum, m.a. vegna væntanlegrar sölu á rekstrarleigustarfsemi Kaupthing Singer & Friedlander.

Fjögur af fimm afkomusviðum voru rekin með hagnaði, mestum á sviði fjárstýringar, um 12,1 milljarður króna en var 5,2 ma. tap fjórðunginn á undan og 2,5 ma. hagnaður á sama tíma í fyrra. Níu milljarða tap var á sviði markaðsviðskipta.

Gengið hreyfir eignastöðuna

Heildareignir Kaupþings hinn 31. mars sl. námu 6.368,4 milljörðum króna, sem er 19,1% aukning frá áramótum. Þær drógust þó saman um 8,7% á fjórðungnum í evrum, svo skýringin er gengisþróun krónunnar, en ekki raunverulegur vöxtur. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum var 11,4%. Arðsemi eigin fjár nam 23,7%.

Innlán jukust um 66,9 milljarða króna frá áramótum og námu 22,7% af eignum bankans þann 31. mars. Stefna stjórnenda bankans er að vægi innlána fari yfir 50% á árinu.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, sagði niðurstöðu fjórðungsins vel viðunandi í ljósi erfiðra aðstæðna. Skv. uppgjörinu dugði lausafé bankans í lok mars, 1.140 milljarðar króna, til að standa skil á öllum skuldbindingum næstu 360 daga, en á afkomufundi Kaupþings sagði Hreiðar lausafjárstöðuna nú vera enn betri.

halldorath@mbl.is

Í hnotskurn
» Rekstrarkostnaður nam 21,6 mö.kr., sem er 21,8% aukning frá fyrra ári, en 4,8% samdráttur frá lokafjórðungi síðasta árs.
» Um 9,8 ma.kr. gengistap var á hlutabréfum en 17,7 ma.kr. hagnaður af afleiðusamningum og gjaldeyrisjöfnuði.
» Innlánareikningar Kaupþing Edge eru í átta löndum, slík starfsemi með ýmsa gjaldmiðla er einnig ráðgerð á Isle of Man.
» Afskriftir vegna útlána námu 4 mö.kr., og um 6 mö.kr. vegna skuldabréfavafninga.