Lúðvík Emil Kaaber
Lúðvík Emil Kaaber
Lúðvík Emil Kaaber skrifar um þjóðerniskennd.: "Leifar þjóðrembusérhyggjunnar eru orðnar að fjötrum."

ÖLL vitum við að við erum eybúar á eldfjallalandi í norðurhöfum. En langt er frá að við gerum okkur fullnægjandi grein fyrir því, að við erum líka ávöxtur eigin uppruna, sögu og menningar. Grundvöllur íslenzkrar menningar er menning Evrópu. Íslendingar eru í sögulegum og menningarlegum skilningi Evrópumenn, og hafa alla tíð átt mest samskipti við aðra Evrópumenn. Meðvitund okkar og samvitund teygir sig langt aftur fyrir vitneskjuna um nafngreind ættmenni fyrr á tímum, alla leið til upphafsins í Noregi og víðar. Svo mótuðu tengslin við Danaveldi, ekki aðeins hina dönsku- og norskumælandi hluta þess, heldur einnig hinn fjölmenna þýzkumælandi hluta þess, íslenzka sögu öldum saman. Síðan náði að festa sig í sessi hugarstefna, sem hafði mikil áhrif á alla afstöðu okkar Evrópumanna til sjálfra okkar og annarra. Ásamt öðru leiddi hún til stofnunar íslenzka lýðveldisins. Þetta var þjóðernisstefnan, nasjónalisminn.

Sú stefna er vandakind. Þótt vissulega sé það forsenda heilbrigðs mannlífs að bera virðingu fyrir sjálfum sér og landi sínu, þá hefur mjög viljað brenna við að þjóðernislegar kenndir séu nýttar af þeim sem hentar að halda uppi múrum milli manna þar sem engir múrar ættu að vera, og í versta falli til að hreykja sér yfir aðra með tillitsleysi og yfirgangi. Á því fékk heimurinn að kenna svo um munaði fyrir sex til sjö áratugum. Það leiddi til þess að Evrópumenn lögðu fyrir róða þá þjóðernishyggju sem slíkar afleiðingar hafði haft, gengu í bandalag, og ákváðu að búa eftirleiðis saman við réttarríki, samskipta- og viðskiptafrelsi, mannréttindi og gagnkvæma virðingu. Þannig er grundvelli kippt undan margvíslegri ógæfu. Og þannig er ekki sízt vegið alvarlega að því sem sumir stjórnmálamenn, og áreiðanlega ekki bara erlendir, líta á sem ær sínar og kýr – að ráðskast með samfélag sitt að vild sinni og hygla hagsmunahópum sem afla þeim valda og fjár.

Öll njótum við góðs af afrekum Evrópumanna á sviði vísinda og fræða. En beztu uppgötvun þeirra, bandalag vina og frænda í þágu velferðar allra, höfum við ekki borið gæfu til að tileinka okkur. Mörg okkar halda jafnvel að Evrópubandalagið snúist um efnaleg gæði hér og nú, um krónur eða evrur. Það var að vísu vissulega stofnað til að auka velferð og bæta allra hag, en ekki er það síður menningarlegt bandalag. Því er ætlað að treysta frið og samstöðu meðal Evrópumanna og styrkja sameiginlega arfleifð þeirra, sem hefur alla burði til að verða jarðarbúum í heild til gagns og gæfu. Það er stofnað til að hvert samfélag njóti góðs af heildinni og fari sjálfu sér síður að voða í sérhyggju og einangrun. Auðvitað fullyrða margir að okkur Íslendingum sé engin þörf á aðhaldi í þeim efnum, en því miður er það alls ekki rétt.

Allt tal um Evrópubandalagið hefur á Íslandi hingað til verið takmarkað við debet og kredit, gróða eða tap af inngöngu eða útiveru. Við eigum, eins og Steinn Steinar kvað, að „horfa með stilling og festu á íslenzka jörð“. Það fólk er ekki frjálst, sem ætlast er til að lyfti ekki augum fram fyrir fætur sína. Innganga í Evrópubandalagið er Íslendingum bæði efnahagsleg og menningarleg nauðsyn. Af tvennu mikilvægu er hjartað mikilvægara en pyngjan, en einhverjum öflum, með önnur tengsl eða tengingar en Íslendingar almennt, virðist henta að á hvorugt sé minnzt. Illt er, ef framtíð okkar er ofurseld slíkum þörfum.

Leifar þjóðrembusérhyggjunnar eru orðnar að fjötrum. Það sem gagnast úreltum tízkustefnum meðal fólks sem ekki er treyst til sjálfstæðrar hugsunar, kemur samfélagi þess í koll fyrr en varir.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Lúðvík Emil Kaaber