HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Ker, fyrrverandi eigandi ESSO (nú N1), greiði Sigurði Hreinssyni fimmtán þúsund krónur í skaðabætur vegna tjóns sem Sigurður varð fyrir vegna ólöglegs samráðs stóru olíufyrirtækjanna...

HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Ker, fyrrverandi eigandi ESSO (nú N1), greiði Sigurði Hreinssyni fimmtán þúsund krónur í skaðabætur vegna tjóns sem Sigurður varð fyrir vegna ólöglegs samráðs stóru olíufyrirtækjanna þriggja.

Sigurður krafðist skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir við kaup á bensíni hjá Esso á tímabilinu 10. ágúst 1995 til 18. desember 2001. Í dómi Hæstaréttar segir að lögmaður Kers hafi ekkert fært fram sem staðið getur í vegi þeirri ályktun að tilgangur samráðsins hafi verið hækka tekjur með því að selja bensín á hærra verði en annars hefði verið. „Þá hefur honum ekki tekist að sýna fram á að slíkur ágóði hafi ekki í reynd hlotist af samráðinu.“ Að öðru leyti var vísað til forsendna Héraðsdóms.

Fór fram á 180 þúsund krónur

Dómendur í Héraðsdómi Reykjavíkur féllust á niðurstöður dómkvaddra matsmanna en í henni kom fram að ávinningur Esso vegna sölu á bensíni á árunum 1996-2001 hefði numið 467 milljónum króna, eða 7,8% af framlegð, miðað við framlegð af bensínsölu á árunum 1993-1995. „Enda þótt fram komi í niðurstöðum dómkvaddra matsmanna að þetta hlutfall sé svo lágt að það teljist innan skekkjumarka verður hér, enn sem fyrr, að líta til þess að verðsamráð er almennt til þess fallið að auka, eða komast hjá, lækkun á framlegð við sölu á vöru, enda þótt samráð kunni til skemmri tíma að beinast að öðrum þáttum en verði,“ segir m.a. í niðurstöðum héraðsdóms.

Að virtu því magni af bensíni sem Sigurður keypti á umræddum tíma, þótti dóminum fimmtán þúsund krónur í skaðabætur hæfilegar.

Aðalkrafa Sigurðar fyrir dómi var að Ker, sem þáverandi eigandi Esso, yrði dæmt til að greiða honum 180 þúsund krónur, varakrafan var 35 þúsund krónur og þrautavarakrafa 26 þúsund krónur. Þrautaþrautavarakrafa var að honum yrðu dæmdar bætur að álitum dómsins.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Hundruð gætu krafið olíufélögin um bætur

STEINAR Þór Guðgeirsson hrl., sem sótti málið gegn Keri, segir að búast megi við að fjöldi fólks höfði samskonar mál á hendur Keri í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar í gær.

Steinar segir þær 15.000 kr. sem Sigurði Hreinssyni flutningabílstjóra voru dæmdar í bætur algjöra lágmarksupphæð og mestu skipti það fordæmi sem fékkst með viðurkenningu Hæstaréttar á skaðabótaskyldu olíufélaganna.

Verður í framhaldinu skoðaður sá möguleiki að vinna ítarlegri matsgerðir sem styðja myndu kröfur um bótafjárhæðir sem gætu orðið mun hærri en sú upphæð sem dómstólar komust að niðurstöðu um.

Á Lögfræðistofu Reykjavíkur, sem annaðist málið, eru þegar gögn um 200 einstaklinga sem átt gætu skaðabótakröfu á hendur olíufélögunum vegna verðsamráðs.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir von á að sá hópur eigi eftir að stækka nú þegar niðurstaða dómsins liggur fyrir.

„Þetta er mikill sigur og tímamótadómur,“ segir Jóhannes. „Sennilega er þetta fyrsta málið í Evrópu þar sem neytanda eru greiddar bætur vegna samkeppnislagabrota.“

Spurður um framhaldið segir Steinar Þór næstu skref að senda út stefnur og athuga hvort hægt er að semja um þau mál sem fyrir liggja. Ekki eru leiðir í íslensku réttarfari sem leyfa að höfðað sé hópmál og yrði því að höfða mál á grundvelli hverrar skaðabótakröfu ef ekki næst að semja um bætur.