Þótt málefni Reykjavík Energy Invest (REI) hafi orðið til þess að sjálfstæðismenn misstu völdin í borginni síðastliðið haust þá fer því fjarri að málið hafi verið leyst. Skýrsla stýrihóps um málefni fyrirtækisins var gerð opinber 7.

Þótt málefni Reykjavík Energy Invest (REI) hafi orðið til þess að sjálfstæðismenn misstu völdin í borginni síðastliðið haust þá fer því fjarri að málið hafi verið leyst.

Skýrsla stýrihóps um málefni fyrirtækisins var gerð opinber 7. febrúar og í henni segir að „stýrihópurinn telur eðlilegt að REI verði áfram rekið með það hlutverk að sinna þróunar- og fjárfestingarverkefnum á erlendri grund og það verði í 100% eigu OR“. Þverpólitísk sátt var um þessa niðurstöðu. Viku síðar var tillaga sama efnis afgreidd á eigendafundi OR. Kjartan Magnússon var síðan kjörinn stjórnarformaður REI og Ásta Þorleifsdóttir varaformaður. Við það tilefni sagði Kjartan í sjónvarpsviðtali að það væri ekki inni í myndinni að selja REI.

Fyrstu helgina í apríl héldu helstu forsvarsmenn REI síðan í vikulanga ferð til Afríku til að huga að mögulegum verkefnum REI í Djíbútí, Jemen og Eþíópíu.

REI-sárið opnast á ný

Vika er hins vegar langur tími í pólitík og þegar REI-hópurinn sneri aftur varð fljótlega ljóst að ekki ríkti einhugur meðal sjálfstæðismanna um það sem hann hafði verið að aðhafast í Afríku. Kjartan Magnússon reið síðan sjálfur á vaðið í viðtali við Kastljós þar sem hann sagði koma til greina að selja REI. Sú afstaða var þvert á niðurstöðu stýrihópsins og það sem Kjartan hafði sagt einum og hálfum mánuði fyrr.

Gísli Marteinn Baldursson fylgdi í kjölfarið daginn eftir og sagðist í útvarpsviðtali vilja að REI yrði selt. Ólafur F. Magnússon borgarstjóri gat þó ekki tekið undir orð samstarfsmanna sinna síðar sama dag og sagði í Kastljósi að eignarhald REI væri alveg klárt: „Það er í eigu Orkuveitunnar og í eigu almennings.“ Daginn eftir var haldinn stjórnarfundur í OR. Mikið hafði verið rætt um að meirihlutinn ætlaði sér að leggja fram tillögu um sölu á REI á fundinum. Fulltrúar hans höfðu fundað kvöldið áður, velt ýmsum tillögum fyrir sér og sett nokkrar þeirra niður á blað. Þegar á hólminn var komið var þó lagt til að öll verkefni REI sem ekki væru- ráðgjafar- og þróunarverkefni yrðu seld. Afgreiðslu tillögunar var frestað en REI-sárið opnaðist upp á gátt á ný.

Enn er nóg eftir af REI-málinu

REI-málinu er ekki lokið þó að líklega sé sigið á seinni hálfleik þess. Stjórn OR á enn eftir að afgreiða tillöguna um sölu verkefna REI og mun slík afgreiðsla væntanlega kalla á enn eina umræðuna um hlutverk fyrirtækisins. Þá á umboðsmaður Alþingis eftir að skila sínu áliti á því sem átti sér stað þegar reynt var að sameina REI og Geysi Green Energy síðastliðið haust. Því er ljóst að æsispennandi lokamínútur eru framundan í einu mesta hitamáli sem upp hefur komið í íslenskum stjórnmálum um árabil.