Þótt málefni Reykjavík Energy Invest (REI) hafi orðið til þess að sjálfstæðismenn misstu völdin í borginni síðastliðið haust þá fer því fjarri að málið hafi verið leyst.
Skýrsla stýrihóps um málefni fyrirtækisins var gerð opinber 7. febrúar og í henni segir að „stýrihópurinn telur eðlilegt að REI verði áfram rekið með það hlutverk að sinna þróunar- og fjárfestingarverkefnum á erlendri grund og það verði í 100% eigu OR“. Þverpólitísk sátt var um þessa niðurstöðu. Viku síðar var tillaga sama efnis afgreidd á eigendafundi OR. Kjartan Magnússon var síðan kjörinn stjórnarformaður REI og Ásta Þorleifsdóttir varaformaður. Við það tilefni sagði Kjartan í sjónvarpsviðtali að það væri ekki inni í myndinni að selja REI.
Fyrstu helgina í apríl héldu helstu forsvarsmenn REI síðan í vikulanga ferð til Afríku til að huga að mögulegum verkefnum REI í Djíbútí, Jemen og Eþíópíu.
REI-sárið opnast á ný
Vika er hins vegar langur tími í pólitík og þegar REI-hópurinn sneri aftur varð fljótlega ljóst að ekki ríkti einhugur meðal sjálfstæðismanna um það sem hann hafði verið að aðhafast í Afríku. Kjartan Magnússon reið síðan sjálfur á vaðið í viðtali við Kastljós þar sem hann sagði koma til greina að selja REI. Sú afstaða var þvert á niðurstöðu stýrihópsins og það sem Kjartan hafði sagt einum og hálfum mánuði fyrr.Gísli Marteinn Baldursson fylgdi í kjölfarið daginn eftir og sagðist í útvarpsviðtali vilja að REI yrði selt. Ólafur F. Magnússon borgarstjóri gat þó ekki tekið undir orð samstarfsmanna sinna síðar sama dag og sagði í Kastljósi að eignarhald REI væri alveg klárt: „Það er í eigu Orkuveitunnar og í eigu almennings.“ Daginn eftir var haldinn stjórnarfundur í OR. Mikið hafði verið rætt um að meirihlutinn ætlaði sér að leggja fram tillögu um sölu á REI á fundinum. Fulltrúar hans höfðu fundað kvöldið áður, velt ýmsum tillögum fyrir sér og sett nokkrar þeirra niður á blað. Þegar á hólminn var komið var þó lagt til að öll verkefni REI sem ekki væru- ráðgjafar- og þróunarverkefni yrðu seld. Afgreiðslu tillögunar var frestað en REI-sárið opnaðist upp á gátt á ný.