Íslensk vinkona mín á Ítalíu borgar leigu á þriggja mánaða fresti. Við seinustu greiðslu hafði upphæðin farið úr 110.000 krónum í 153.000. Úps. Ég var í heimsókn á sama tíma og fékk vægt áfall.

Íslensk vinkona mín á Ítalíu borgar leigu á þriggja mánaða fresti. Við seinustu greiðslu hafði upphæðin farið úr 110.000 krónum í 153.000. Úps.

Ég var í heimsókn á sama tíma og fékk vægt áfall. Eftir að hafa röflað út í eitt yfir þessari 40% verðhækkun á öllu sá ég að ef geðheilsan átti ekki að falla álíka hratt og hin laskaða króna, var ekki nema eitt í stöðunni. Að taka þetta á jákvæðninni.

Hvað sem öllu leið gátu launin mín enn fleytt mér langt, ég þurfti einungis að halda mér á réttu stöðunum. Bara við að hoppa upp í flugvél og stíga út úr henni í landi þar sem mánaðarlaunin voru ekki nema nokkrir þúsundkallar varð ég ósjálfrátt að auðjöfri. Það hafði ekkert breyst. Flugmiðar höfðu vissulega hækkað verulega en á endanum skipti ekki öllu hvort ég borgaði 33 eða 43 krónur fyrir máltíð í Kambódíu og Kína. Á Íslandi átti ég kannski ekki mikið en víða um heim var ég milljónamæringur. 80 lönd höfðu minna en 20.000 krónur í landsframleiðslu á mann á mánuði – 110 lönd minna en 40.000 krónur.

Það að búa á mínu dýra landi hafði líka einn kost í för með sér: Allt annað varð ódýrt í samanburðinum. Ég er til dæmis að spá í að skella mér til Pakistans. Pakistanskur félagi minn er að safna fyrir ferð til Íslands. Hann er ágætlega stæður en miðað við íslenska verðlagið og íslensku launin eru hans laun fjarskalega lág. Hann býst við að komast hingað svona árið 2020.