Búið spil Amare Stoudemire leikmaður Phoenix Suns tekur ekki fleiri fráköst á þessu tímabili. Tim Duncan úr meistaraliði San Antonio Spurs og félagar hans ætla sér að leika fram í júní enda vanir því. Phoenix og Dallas eru úr leik og eru miklar vangaveltur um hvaða breytingar verða hjá þeim liðum.
Búið spil Amare Stoudemire leikmaður Phoenix Suns tekur ekki fleiri fráköst á þessu tímabili. Tim Duncan úr meistaraliði San Antonio Spurs og félagar hans ætla sér að leika fram í júní enda vanir því. Phoenix og Dallas eru úr leik og eru miklar vangaveltur um hvaða breytingar verða hjá þeim liðum. — Reuters
NEW Orleans Hornets og meistaralið San Antonio Spurs slógu mótherja sína út í 1. umferð úrslitakeppninnar í NBA-deildinni aðfaranótt miðvikudags.

NEW Orleans Hornets og meistaralið San Antonio Spurs slógu mótherja sína út í 1. umferð úrslitakeppninnar í NBA-deildinni aðfaranótt miðvikudags. Leikmenn Dallas áttu engin svör við stórleik Chris Paul, leikstjórnanda Hornets, og varnarleikur Phoenix Suns varð þeim að falli gegn San Antonio. Það er ljóst að mikið mun ganga á í herbúðum Dallas og Phoenix á næstu mánuðum því eigendur liðanna eru afar ósáttir við útkomuna og þá sérstaklega hinn litríki eigandi Dallas, Mark Cuban. Houston Rockets er enn með í baráttunni eftir stórsigur gegn Utah og í Austurdeildinni náði Detroit yfirhöndinni gegn 76'ers.

Bæði Dallas og Phoenix tóku áhættu í febrúar með því að fá til sín reynda og þekkta leikmenn sem áttu að fleyta liðunum í gegnum úrslitakeppnina. Dallas fékk leikstjórnandann Jason Kidd frá New Jersey og Phoenix veðjaði á Shaquille O'Neal sem kom frá Miami Heat.

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki, aðalstjarna liðsins, viðurkenndi að hlutirnir hefðu ekki gengið eins vel upp eftir að Kidd kom til liðsins.

„Ég veit ekki af hverju okkur tókst ekki að leika betur en við gerðum. Ég sé ekki eftir því að félagið fékk Jason. Okkur tókst samt sem áður ekki að ná eins vel saman sem lið og ég hafði búist við. Það hefði verið betra að fá tíma til þess að æfa meira og setja hlutina í samhengi á undirbúningstímabili. Það var ekki í boði og við reyndum að þróa leik okkar á lokasprettinum,“ sagði Nowitzki en hann gagnrýndi samherjann sinn Josh Howard fyrir að hafa rætt um fíkniefnaneyslu í útvarpsþætti fyrir þriðja leik Dallas. Þar viðurkenndi Howard að það hefði komið fyrir að hann hefði reykt kannabisefni yfir sumartímann. „Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með tímasetninguna á þessum ummælum og þau höfðu áhrif á okkur sem liðsheild. Þetta verður mjög langt og erfitt sumar,“ bætti Þjóðverjinn við en hann skoraði 22 stig í lokaleiknum gegn New Orleans sem endaði 99:94. Jason Kidd segir sjálfur að félagið þurfi tíma og þolinmæði til þess að verða betra. Framtíð Avery Johnson, þjálfara liðsins, er óljós en hann vonast sjálfur til þess að fá annað tækifæri til þess að sanna sig. Kidd vildi lítið tjá sig um samskipti sín við Johnson en hann var sagður maðurinn á bak við brottrekstur Byron Scott frá New Jersey á sínum tíma.

Skuggi yfir Phoenix

Mike D'Antoni, þjálfari Phoenix Suns, mun ekki stýra liðinu á næstu leiktíð samkvæmt heimildum bandaríska íþróttatímaritsins Sports Illustraited. D'Antoni var valinn þjálfari ársins í NBA-deildinni eftir tímabilið 2004-2005 en samningur hans við félagið rennur út eftir tvö ár. Phoenix er úr leik í úrslitakeppninni í ár eftir að hafa beðið lægri hlut gegn meistaraliði San Antonio Spurs, 4:1, og var þetta í þriðja sinn á síðustu fjórum árum þar sem Phoenix tapar gegn San Antonio í úrslitakeppninni. Phoenix gerði miklar breytingar á liði sínu febrúar þegar liðið fékk miðherjann Shaquille O'Neal til liðsins frá Miami Heat. Robert Sarver, eigandi liðsins, og Steve Kerr framkvæmdastjóri eru ekki ánægðir með hvernig til tókst í vetur og vilja þeir gera breytingar samkvæmt Sports Illustraited .

Mörg lið eru sögð hafa áhuga á því að fá D'Antoni í sínar raðir og þar má nefna Chicago Bulls og New York Knicks. Árangur hans með Phoenix í deildarkeppninni er með ágætum, 232 sigrar og 96 tapleikir. Hinsvegar hefur liðinu gengið illa í úrslitakeppninni og sú tilraun D'Antoni að fá Shaquille O'Neal til liðsins þykir hafa mistekist. O'Neal mun mæta til leiks á næsta ári en hann verður árinu eldri, og kannski nokkrum kílóum þyngri? „Ég er þreyttur á því að tapa alltaf fyrir San Antonio í úrslitakeppninni,“ sagði Amaré Stoudemire, leikmaður Suns, eftir leikinn en hann hefur gagnrýnt leikstíl liðsins sem einkennist af hraða og „við skorum bara fleiri stig en hinir“ hugarfarinu.

Forráðamenn Denver eru einnig að huga að framtíðaráformum félagsins eftir að liðið tapaði 4:0 gegn LA Lakers í fyrstu umferð. Allen Iverson getur farið frá félaginu í sumar en allt bendir til þess að George Karl verði áfram þjálfari liðsins. Ron Artest, leikmaður Sacramento Kings, er efstur á óskalista Denver en hann er góður varnarmaður og þykir passa vel inn í leikmannahóp liðsins.

Houston er enn á lífi

Houston Rockets burstaði Utah Jazz á heimavelli, 95:69, og er staðan 3:2 fyrir Utah í þeirri viðureign. Tracy McGrady skoraði 29 stig og tók 12 fráköst fyrir Houston og miðherjinn Dikembe Mutombo tók 10 fráköst. Utah getur tryggt sér sigur í rimmunni með sigri á heimavelli á morgun, föstudag.

Í Austurdeildinni landaði Detroit Pistons 98:81-sigri gegn Philadelphia og er staðan 3:2 fyrir Detroit. Chauncey Billups skoraði 21 stig fyrir Detroit, Richard Hamilton var með 20 og Rasheed Wallace skoraði 19. Andre Iguodala skoraði 21 stig fyrir Philadelphia og er það persónulegt met hjá honum í úrslitakeppni en það dugði ekki til að þessu sinni.