HÉRAÐSDÓMUR Suðurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 14 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir ítrekuð umferðarlagabrot, nytjastuld og fleiri brot, þar á meðal að aka stolnum bíl ofan í Ljótapoll. Maðurinn var einnig sviptur ökuréttindum ævilangt.
Maðurinn var stöðvaður þar sem hann ók bifreið án ökuréttinda á Blönduósi í apríl í fyrra. Í júní var hann stöðvaður í Borgarbyggð en þá var hann á leið frá Snæfellsnesi til Stokkseyrar. Reyndist vínandamagn í blóði mannsins vera 2,22 prómill og hann var einnig ökuréttindalaus.
Loks tók maðurinn bifreið í leyfisleysi á Selfossi í júlí í fyrra og ók henni að Ljótapolli á Landmannaafrétti. Þar ók maðurinn bifreiðinni ofan í gíg og náði henni ekki upp aftur. Olli hann náttúruspjöllum á svæðinu og var einnig sakfelldur fyrir brot gegn náttúruverndarlögum.
Í dómi kemur m.a. fram að maðurinn hafi oftsinnis áður verið sakfelldur fyrir umferðarlagabrot af ýmsu tagi, þar á meðal ölvunarakstur.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari dæmdi málið. Gunnar Örn Jónsson fulltrúi sýslumannsins á Selfossi sótti málið og verjandi ákærða var Hilmar Ingimundarson hæstaréttarlögmaður.