Helgi Seljan
Helgi Seljan
Helgi Seljan fjallar um áfengisneyslu þjóðarinnar: "Vaxandi fjöldi almennings gjörir sér grein fyrir tengslunum milli aukins aðgengis og meiri áfengisneyzlu og því fjölgar þeim sem leggjast gegn því að leyfa áfengi í matvöruverzlunum."

FYRIR nokkru sendi ég smágrein eða réttara sagt fyrirspurn góðvinar míns til Morgunblaðsins um hvar finna mætti stað í biblíunni þessum orðum, margtilvitnuðum sem spekimála Salómons konungs: Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta. Ég fékk ærin viðbrögð við þessu, nokkur símtöl, tölvupóst frá tveim ágætum prestum og síðast en ekki sízt andsvar frá þeim mæta manni Einari Sigurbjörnssyni guðfræðiprófessor sem ég kunni sannarlega að meta. Spurningu góðvinar míns sem sagt svarað, hvergi að finna hjá Salómon þeim sem sí og æ er til vitnað en bent á tilvitnun í Sálmana um að vín gleðji hjartað án þess að talað sé um sérstaka hófsemd í því sambandi. En um leið og þakkað er fyrir andsvörin get ég ekki stillt mig um að biðja Morgunblaðið að birta vísu míns ágæta frænda, Árna Helgasonar sem nýlátinn er, en hann orti fyrir margt löngu svo:

Hófdrykkjan er heldur flá,

henni er valt að þjóna.

Hún er bara byrjun á

að breyta manni í róna.

Sterkt til orða tekið hjá honum Árna Helgasyni, enda aldrei gefinn fyrir rósamál þegar áfengisneyzla var annars vegar.

En því kom mér þessi vísa í hug þegar ég nú enn einu sinni las um áhyggjur Þórarins Tyrfingssonar og þeirra Vogsmanna annarra af sívaxandi áfengisvandamálum miðaldra og eldra fólks. Kemur svo sem ekki á óvart miðað við allan þann áróður sem rekinn er fyrir áfenginu sem nauðsynjavöru og þá lofsöngva sem því eru svo víða kveðnir af ótrúlegustu aðilum í samfélaginu, að þetta fólk glepjist einnig, telji þetta nauðsynlegan lífsstíl svo sem ég heyrði fullyrt á dögunum.

Grunur minn er sá að „hófdrykkjan“ hafi hér átt sinn ríka þátt, aðeins hafi átt að gleðja hjartað og síðan ekki söguna meir, en smám saman orðið það vandamál sem svo ljóslega er lýst og vekur hreinlega óhug, enda ekki á ástandið almennt bætandi. Eitthvað rímar þetta illa við þær fullyrðingar sem úir og grúir af um bætta „vínmenningu“ þjóðarinnar og þá gjarnan vitnað til upphafs „menningar“-tímabilsins algóða þegar bjórinn var lögleiddur. Virðist þá ekki skipta menn neinu þó staðfest sé að áfengisneyzla hafi stóraukist, hún færzt neðar í aldursstiganum, neyzlan sé komin lengst yfir þau mörk sem gefin voru fyrirheit um í heilbrigðisáætlun Alþingis, svo dæmi séu tekin. Mætti svo rétt minna á þá válegu staðreynd að upphafið að neyzlu ólöglegra vímuefna má langoftast rekja til áfengisins, eins hversu áfengistengd afbrot eru skelfilega algeng og háalvarleg, hvað þá þau vandamál sem Vogsmenn segja hraðvaxandi og snerta það sem kalla mætti ríflega fullorðið fólk, þó ég forðist eðlilega að tala um fullþroska fólk í því sambandi. En fullþroska þykjast þeir vera sem syngja „menningunni“ miklu lof og dýrð, þó í hug komi „sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki“. Vel að merkja eru flestir álitsgjafarnir um „menninguna“ miklu ekki eldri en það, að þeir voru vart af barnsaldri þegar bjórinn var innleiddur og má vera að það skýri barnslega einfeldnina.

Hins vegar gleður það hjarta manns að sjá það, að vaxandi fjöldi almennings gjörir sér grein fyrir tengslunum milli aukins aðgengis og meiri áfengisneyzlu og því fjölgar þeim sem leggjast gegn því að leyfa áfengi í matvöruverzlunum.

Árna minn Helgason dreymdi um vakningu meðal þjóðarinnar sem afneitaði eitrinu, megum við kannski trúa því, að enn sé vakningar von.

Höfundur er formaður fjölmiðlanefndar IOGT.

Höf.: Helgi Seljan fjallar um áfengisneyslu þjóðarinnar