Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Eftir Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.is ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra veltir fyrir sér í nýjum pistli á heimasíðu sinni hvort skynsamlegt gæti verið að bjóða út orkuvinnslu á háhitasvæðunum fyrir norðan.

Eftir Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra veltir fyrir sér í nýjum pistli á heimasíðu sinni hvort skynsamlegt gæti verið að bjóða út orkuvinnslu á háhitasvæðunum fyrir norðan.

Tilefnið er yfirlýsingar Landsvirkjunar þess efnis að ákvörðun um að senda Gjástykki í umhverfismat hafi aukið áhættu í tengslum við stóriðju á Bakka. Össur segir í pistlinum að alltaf sé töluverð áhætta fólgin í vinnslu orku úr jarðhita. „Það er spurning, hvort ríkið eigi að bera þá áhættu – ef aðilar á markaði eru reiðubúnir til að axla hana. Eftir því hefur ekki verið leitað svo iðnaðarráðuneytinu sé kunnugt. Hefur Landsvirkjun velt því fyrir sér? Ætti ríkisstjórnin að velta því fyrir sér?“

Ráðherrann bendir jafnframt á að síðasta vor hafi Alþingi samþykkt lög sem banna að selja orkulindir úr opinberri eigu en ekki sé bannað að leigja réttinn til orkuvinnslu í ákveðinn tíma.

Hann bætir við að útboð á orkuvinnslu háhitasvæðanna myndi styrkja íslensku orkufyrirtækin. Ennfremur myndi slíkt losa eigendur Landsvirkjunar, ríkið og skattborgarana undan þeirri áhættu sem Landsvirkjun hefur kvartað yfir. „Ef fyrirtækið telur að áhættan sé mikil er þá ekki skylda þess að leita leiða til að lágmarka þá áhættu fyrir hönd eigenda sinna?“